Núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að ábyrgð á þjónustunni skiptist eftir framburðar- og málþroskafrávikum barna, þar sem sveitarfélög bera ábyrgð á að nauðsynlegri talþjálfun fyrir minniháttar frávik en ríkið ber ábyrgð á alvarlegri frávikunum með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga fyrir talþjálfun hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum, sbr. samkomulag aðila frá árinu 2014.
Þegar litið er til þess að langstærstur hluti þeirra sem nýta sér þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga eru börn og að teknu tilliti til nýsamþykktra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 er mikilvægt að horft sé heildstætt á þjónustuna með það fyrir augum að skapa meiri samfellu í þjónustu við börn og að tryggt sé að veitt sé rétt þjónusta á réttum stað.
Við vinnu sína skal starfshópurinn jafnframt kalla til aðra hagaðila, s.s. sveitarfélög eða samtök þeirra, fulltrúa talmeinafræðinga til samráðs við gerð tillagnanna.
Starfshópinn skipa
- Sara Lovísa Halldórsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, formaður
- Rán Þórisdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðuneyti
- Óskar Haukur Níelsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti
- Aðalbjörg Guðmundsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytis
Starfshópurinn er skipaður af heilbrigðisráðherra 18. nóvember 2021 og er gert að skila tillögum til heilbrigðisráðherra eigi síðar en 20. desember 2021.