Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp um höfuðborgarstefnu, á grundvelli aðgerðar C.4 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Hlutverk starfshópsins er að móta höfuðborgarstefnu sem skilgreinir hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborg allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar landsins og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Þá er markmið verkefnisins að styðja við samstarf sveitarfélaga á svæðinu, sem og samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Starfshópurinn er þannig skipaður:
- Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og jafnframt formaður hópsins
- Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
- Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fulltrúi Reykjavíkurborgar,
- Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi, fulltrúi Reykjavíkurborgar
- Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
- Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, fulltrúi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Með hópnum starfa einnig sérfræðingar frá ráðuneytinu, Byggðastofnun og öðrum stofnunum og háskólasamfélaginu eftir atvikum.
Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum eigi síðar en í ágúst 2022.