Hoppa yfir valmynd

Stýrihópur um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi

Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra skipaði í mars 2018 stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.

Meginhlutverk hópsins er að beita sér fyrir framsæknum og samhæfðum aðgerðum stjórnvalda gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni og að Ísland sé í fremstu röð í baráttunni gegn hvers kyns kynbundnu ofbeldi. Í þessu skyni er stýrihópnum falið að:

1. Gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem kveðið er á um í nýrri aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og taka afstöðu til frekari úrbóta, þar á meðal á þeim sviðum sem samráðshópurinn sem undirbjó aðgerðaáætlunina taldi sig ekki hafa umboð til að fjalla um. Stýrihópurinn skal fylgjast með framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar og beita sér fyrir fullnægjandi fjármögnun hennar. Í þessu skyni skal stýrihópurinn m.a:
 
a. Fylgja eftir að þeim aðgerðum sem þegar hafa verið útfærðar í aðgerðaáætluninni sé hrint í framkvæmd á vettvangi viðeigandi ráðuneyta.
 
b. Gera tillögur um lagabreytingar með það að markmiði að styrkja stöðu brotaþola um allt land og líta í því skyni til réttarstöðu brotaþola og hlutverks réttargæslumanna annars staðar á Norðurlöndunum, auk    dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.
 
c. Gera tillögu um eflda sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu við þolendur og gerendur kynferðisofbeldis og börn sem sýna af sér óæskilega eða skaðlega kynferðislega hegðun.
 
d. Vinna að heildarendurskoðun á forvörnum og fræðslu í menntakerfinu og í samfélaginu með það að markmiði að útrýma kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og öðru kynbundnu ofbeldi.
 
e. Leggja mat á kostnað við framkvæmd aðgerða og annarra tillagna til úrbóta, eftir því sem við á.
 
2. Beita sér fyrir fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins). 
 
3. Gera tillögu um samræmd viðbrögð stjórnvalda við #metoo-byltingunni, bæði er lýtur að samfélaginu í heild og að Stjórnarráðinu og stofnunum þess sem vinnuveitanda. Í því skyni skal hópurinn eiga samráð við og hafa yfirsýn yfir störf nefnda sem þegar vinna að málaflokknum, einkum: nefnd á vegum félags- og jafnréttismálaráðherra sem er ætlað að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði; aðgerðahóp á vegum félags- og jafnréttismálaráðherra sem falið var að bregðast við áreitni, ofbeldi og einelti á íslenskum vinnumarkaði; starfshóp félags- og jafnréttismálaráðherra sem falið var að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og starfshóp mennta- og menningarmálaráðherra sem falið var að bregðast við frásögum íþróttakvenna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Þá skal stýrihópurinn, í samráði við kjara- og mannauðssýslu ríkisins, kalla eftir upplýsingum frá ráðuneytum og opinberum stofnunum um ferli viðbragða í tengslum við kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og einelti og eftir atvikum beina til þeirra tilmælum um mögulegar úrbætur með það að markmiði að Stjórnarráð Íslands setji gott fordæmi.
 
4. Móta stefnu um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.
 
5. Vera forsætisráðherra og ráðherranefnd um jafnréttismál til ráðgjafar í stefnumótun er lýtur að kynferðislegu ofbeldi, kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni í íslensku samfélagi.
 
Stýrihópurinn skal vinna í samræmi við ákvæði Istanbúl-samningsins og líta sérstaklega til þeirrar margþættu mismununar sem konur af erlendum uppruna, konur sem ekki búa við efnahagslegt öryggi, fatlaðar konur og hinsegin konur verða fyrir. Hópurinn skal byggja á því starfi sem þegar hefur verið unnið í málaflokknum innan Stjórnarráðsins og á vettvangi sveitarfélaga. Víðtækt samráð hefur farið fram með aðkomu stofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og fræðasamfélagsins, m.a. í tengslum við gerð aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Eftir því sem við á skal hópurinn efna til frekara samráðs um nýjar tillögur til úrbóta eða útfærslur og framkvæmd á ákveðnum aðgerðum.
 
Hópnum er frjálst að leggja til við ráðherranefnd um jafnréttismál skipan undirnefnda með breiðari aðkomu til að vinna að útfærslu á ákveðnum viðfangsefnum. Þá skal hópurinn líta til Norðurlandanna og annarra landa sem standa framarlega varðandi úrræði og aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
 
Eftirtaldir fulltrúar eiga sæti í stýrihópnum:
 
  • Halla Gunnarsdóttir, fulltrúi forsætisráðuneytis, formaður
  • Svala Ísfeld Ólafsdóttir, fulltrúi dómsmálaráðuneytis, varaformaður
  • Rósa Guðrún Erlingsdóttir, fulltrúi velferðarráðuneytis, tilnefnd af félags- og jafnréttismálaráðherra
  • Sveinn Magnússon, fulltrúi velferðarráðuneytis, tilnefndur af heilbrigðisráðherra
  • Jóna Pálsdóttir, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis
  • Axel Nikulásson, fulltrúi utanríkisráðuneytis
 
Hópurinn skal gera verkáætlun til þriggja ára og skila henni, ásamt yfirliti yfir stöðu verkefnanna og eftir atvikum tillögum um úrbætur og verkefni til ráðherranefndar um jafnréttismál eigi síðar en 1. september 2018.
Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira