Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað byggðamálaráð skv. 2. gr. a. laga nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, sbr. 8. gr. laga nr. 52/2018 um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Byggðamálaráð gerir tillögu til ráðherra að stefnumótandi byggðaáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun að fengnum áherslum ráðherra.
Við undirbúning byggðaáætlunar og fimm ára aðgerðaáætlunar skal haft samráð við öll ráðuneyti á vettvangi stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál, sbr. 2. gr. laga nr. 69/2015. Þá skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Horfa skal einnig til þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga sem gerð er samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Loks skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum og skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli. Skipunartími byggðamálaráðs takmarkast við ákvörðun ráðherra eða embættistíma hans.
Byggðamálaráð er þannig skipað:
- Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,
- Ingveldur Ása Konráðsdóttir, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,
- Karl Björnsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga,
- Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar,
- Hanna Dóra Hólm Másdóttir, fulltrúi skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála.
Verkefnisstjóri byggðamálaráðs er Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála. Þá munu aðstoðarmenn ráðherra og skrifstofustjóri skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála starfa með ráðinu eftir atvikum.
Byggðamálaráð tekur við ábendingum í netfangið [email protected].