Skipaður 25. febrúar 2021.
Ráðgjafarhópurinn hefur það hlutverk að veita ráðgjöf og styðja við rannsóknarverkefni um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Verkefnið mun veita nauðsynlegan grunn að frekari stefnumótun um kolefnishlutleysi. Stefnumótun um kolefnishlutleysi er umfangsmikið verkefni. Þegar horft er til framtíðar þarf að skoða þá möguleika sem til staðar eru til samdráttar í losun og aukinnar bindingar, hafandi í huga að um langtímaverkefni er að ræða. Jafnframt þarf að líta til annarra sjónarmiða, svo sem jafnréttis, sanngirni, ávinnings og samkeppnishæfni.
Kolefnishlutleysi hefur verið lýst sem ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis af mannavöldum og nettólosun er því núll. Kolefnishlutleysi er lykilþáttur í Parísarsamningnum og nauðsynlegt til að ná markmiði samningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er.
Með þessu rannsóknarverkefni er ætlunin meðal annars að tengja saman ólíka aðila í íslensku samfélagi og safna gögnum fyrir frekari vinnu í átt að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040. Verkefnið samanstendur af tveimur verkhlutum sem unnir verða samhliða. Annar hlutinn snýr að samtali við almenning um vitund og viðhorf til kolefnishlutleysis. Hinn hlutinn snýr að greiningum á mögulegum leiðum að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi þar sem notuð verður aðferðarfræði framtíðarfræða.
Fyrir þann hluta verkefnisins sem snýr að samtali við almenning fer Guðný Gústafsdóttir, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Varðandi þann hluta sem snýr að greiningum á mögulegum leiðum að markmiði stjórnvalda fara Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Hlynur Stefánsson, dósent við Háskólann í Reykjavík. Þau munu sitja fundi með ráðgjafahópnum.
Hlutverk ráðgjafahópsins er að veita ráðgjöf um þau mál sem þau sem vinna rannsóknarverkefnið meta þörf á hverju sinni og styðja eftir þörfum við vinnslu verkefnisins með endurgjöf og ábendingum.
Niðurstöður verkefnisins munu liggja til grundvallar frekari stefnumótunarvinnu um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
Ráðgjafahópurinn mun leita til annarra sérfræðinga og fagstofnana eftir því sem efni og ástæður standa til.
Gert er ráð fyrir að vinnu ráðgjafahópsins ljúki fyrir 15. maí, er varðar þá verkþætti sem nefndir eru hér að ofan.
Án tilnefningar
Halla Sigrún Sigurðardóttir, formaður
Anna Sigurveig Ragnarsdóttir
Samkvæmt tilnefningu forsætisráðuneytis
Henný Hinz
Samkvæmt tilnefningu fjármála- og efnahagsráðuneytis
Ólafur Heiðar Helgason
Samkvæmt tilnefningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis
Friðfinnur Skaptason
Samkvæmt tilnefningu atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis
Erla Sigríður Gestsdóttir
Samkvæmt tilnefningu Loftslagsráðs
Halldór Þorgeirsson
Samkvæmt tilnefningu Grænvangs
Eggert Benedikt Guðmundsson
Samkvæmt tilnefningu náttúru- og umhverfisverndarsamtaka
Tinna Hallgrímsdóttir
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur og ráðgjafi verður starfsmaður ráðgjafahópsins.