Hoppa yfir valmynd

Nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis

Forsætisráðuneytið

Um nefndina

Þann 16. júní 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þar fól Alþingi ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi, og í þessu skyni skyldi m.a. gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt væri að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf. Skipaður var stýrihópur á grundvelli þingsályktunarinnar sem samdi m.a. drög að lagafrumvörpum og vann ýmsa grunnvinnu. Ekki varð hins vegar af lagasetningu.

Þann 16. mars 2018 skipaði forsætisráðherra nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Var nefndinni m.a. falið að vinna frekar framangreindar afurðir stýrihópsins og fara yfir fyrirliggjandi tillögur á þessu sviði, auk þess að meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar. Gert var ráð fyrir því að nefndin skili einkum af sér í formi lagafrumvarpa og eftir atvikum annarra undirbúningsskjala lagasetningar. Var henni falið að skila af sér í tveimur skrefum. Þannig skyldi tilteknum þáttum lokið fyrir 1. október 2018 en öðrum fyrir 1. mars 2019.

Nánar tiltekið voru verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi eftirfarandi:

 1. Fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp, sem stýrihópur, í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, skilaði af sér eða hlutaðist til um að yrðu samin, leggja mat á þau með tilliti til stjórnarskrár og alþjóðlegra skuldbindinga og hvort samþykkt þeirra, með eða án breytinga, teljist til bóta miðað við núverandi lög og réttarframkvæmd. Þessi frumvörp varða ærumeiðingar, hatursáróður, gagnageymd, ábyrgð hýsingaraðila og tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. 
 2. Taka til skoðunar fyrirliggjandi tillögur er lúta að tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og eftir atvikum skyldu þeirra til að greina frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um í starfi. Nefndin leggi mat á það hvort fjallað verði um frumvarp, sem Páll Hreinsson dómari samdi um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu, sbr. 1. lið, samhliða þessum þætti starfsins. Gæta ber að samráði við aðra hópa innan stjórnkerfisins, sem vinna að tengdum málum, þ.e. einkum starfshóp forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og starfshóp dómsmálaráðherra um að fylgja eftir innleiðingu á alþjóðasamningum gegn mútum og spillingu.
 3. Fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf sé á lagabreytingum. Í því sambandi verði kannað hvort fullgilding samnings Evrópuráðsins um aðgang að opinberum gögnum kalli á lagabreytingar hér á landi. Þá verði lagt mat á erindi sem forsætisráðuneytinu hafa borist á undanförnum árum varðandi endurskoðun laganna og önnur atriði sem sérstaklega hefur reynt á í framkvæmd. Má nefna frumkvæðisbirtingu stjórnvalda, undanþágur vegna gagna er lúta að málshöfðun gegn opinberum aðilum, gögn er varða útboð eða val á viðsemjendum í ljósi samkeppnisréttar og fyrirkomulag varðandi undanþágur frá gildissviði laganna.
 4. Meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Undir þennan lið falla til dæmis heimildir til að beita fyrirfarandi tálmunum við tjáningu svo sem í formi lögbanns.

Nefndinni var falið að ljúka umfjöllun um atriði 1-2 fyrir 1. október 2018 og atriði 3-4 fyrir 1. mars 2019.

Skipan nefndarinnar

Nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingarfrelsis

Eftirtaldir skipuðu nefndina:

 • Eiríkur Jónsson prófessor, formaður.
 • Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður.
 • Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative (IMMI).
 • Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
 • Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður.
 • Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.
 • Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
 • Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta og menningarmálaráðuneytinu.

Starfsmaður nefndarinnar var Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu.

Afurðir nefndarinnar

Þann 26. september 2018 skilaði nefndin af sér fyrri hluta vinnu sinnar, sem fól í sér eftirfarandi frumvörp:

 1. Frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga (afnám refsinga vegna ærumeiðinga).
  Með frumvarpinu er lagt til að refsingar vegna ærumeiðinga verði afnumdar. Auk þess verði ómerking ummæla, sem úrræði vegna ærumeiðinga, afnumin, sem og núgildandi heimild til þess að dæma fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms. Í stað ærumeiðingarákvæða hegningarlaga komi ný stofnlög þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum. Gert er ráð fyrir tvenns konar úrræðum, miskabótum og bótum fyrir fjártjón. Við beitingu þeirra skuli höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Þá inniheldur frumvarpið ábyrgðarleysisástæður, sem leysa undan ábyrgð í tilteknum tilvikum, en ákvæðum frumvarpsins er ætlað að ná utan um helstu sjónarmið sem lögð hafa verið til grundvallar í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu og stuðla að því að réttarframkvæmd verði til samræmis við þau sjónarmið. Auk þess felst m.a. í frumvarpinu að hin sérstaka æruvernd sem opinberir starfsmenn hafa notið verði felld úr gildi, sem og hin sérstaka æruvernd sem erlend ríki, fáni þeirra, þjóðhöfðingi o.fl. hafa notið.
 2. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu).
  Meginmarkmið frumvarpsins er að þrengja 233. gr. a almennra hegningarlaga, sem leggur refsingu við hatursorðræðu, eftir rýmkun sem varð á ákvæðinu með lögum nr. 13/2014. Í frumvarpinu felst tillaga að rýmkun tjáningarfrelsis með því að gera kröfu um nánar tiltekinn grófleika eða alvarleika til þess að tjáning varði refsingu sem hatursorðræða. Lagt er til að gerð verði krafa um að háttsemin sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun. Mun þannig meira þurfa til en nú er svo að tjáning varði refsingu samkvæmt ákvæðinu.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (tjáningarfrelsi og þagnarskylda).
  Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrar reglur um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna í sérstökum kafla sem bætist við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Frumvarpið felur í sér meginreglu um að opinberir starfsmenn njóti tjáningarfrelsis. Það verður aðeins takmarkað þegar þörf krefur og þá samkvæmt skýrum og fyrirsjáanlegum lagaákvæðum. Með ákvæðum frumvarpsins um efni þagnarskyldu er leitast við að gera skýrara en nú er til hvaða upplýsinga hún taki, en slíkt er mikilvæg forsenda tjáningarfrelsis. Þá felur frumvarpið í sér að miklum fjölda þagnarskylduákvæða verði breytt í því skyni að fækka þeim og samræma. Frumvarpið hefur einnig að geyma nýmæli um það hvenær stjórnvöldum er heimilt að miðla persónuupplýsingum sem þagnarskylda ríkir um til annarra stjórnvalda.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002 (takmarkaðri ábyrgð hýsingaraðila).
  Með frumvarpinu er stefnt að rýmkun tjáningarfrelsis með því að draga úr ábyrgð hýsingaraðila og skyldu þeirra til að taka niður gögn. Verði frumvarpið að lögum verður meginreglan um að slíkir aðilar beri ekki ábyrgð á gögnum sem þeir hýsa ekki lengur bundin því skilyrði að þeir fjarlægi eða hindri gögn eftir að hafa fengið tilkynningu um meint brot á ákvæðum höfundalaga, heldur þarf að koma til bein vitneskja þeirra um að um sé að ræða ólöglega starfsemi eða upplýsingar.
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (afnám gagnageymdar o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar. Annars vegar að skyldubundin gagnageymd fjarskiptafyrirtækja verði afnumin og hins vegar að skilyrði fyrir aðgangi lögreglu/ákæranda að gögnum fjarskiptafyrirtækja verði hert. Þessar breytingar eru lagðar til í þágu friðhelgi einkalífs og persónuverndar, auk þess sem þær eru jákvæðar fyrir tjáningarfrelsi, sbr. þá hættu sem heimildarmönnum blaðamanna og afhjúpendum getur stafað af eftirliti með hverskyns rafrænum samskiptum.

Þann 26. febrúar skilaði nefndin af sér fjórum frumvörpum vegna síðari áfanga nefndarstarfsins.

 1. Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum, og öðrum lögum (útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á upplýsingalögum sem hafa það markmið að styrkja upplýsingarétt almennings. Helsta breytingin sem lögð er til er að gildissvið upplýsingalaga verði víkkað út þannig að handhöfum löggjafar- og dómsvalds verði að meginstefnu skylt að fylgja sömu efnisreglum og handhafar framkvæmdarvalds við ákvarðanir um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum þeirra. Jafnframt er það markmið frumvarpsins að kveða skýrar á um skyldu ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands til birtingar upplýsinga úr málaskrám sínum að eigin frumkvæði. Sérstakur ráðgjafi starfi fyrir hönd stjórnvalda með það markmið að auka veg upplýsingaréttar almennings. Þá er lagt til að búið verði þannig um hnútana að æðstu handhafar ríkisvalds geti leitað ráðlegginga um túlkun á siðareglum í trúnaði og skerpt á undanþágu varðandi gögn er varða samskipti opinberra aðila við sérfræðinga í tengslum við réttarágreining. Lagt er til að lög um upplýsingarétt um umhverfismál falli brott en við upplýsingalög bætist sérstakur kafli um meðferð slíkra mála. Þá er lagt til að sett verði strangari tímamörk á afgreiðslu beiðna um aðgang að upplýsingum og við málsmeðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, auk þess sem ýmsar tilvísanir annarra laga til upplýsingalaga og laga um opinber skjalasöfn verði uppfærðar.
 2. Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara
  Markmið frumvarpsins er að á Íslandi gildi skýr löggjöf um vernd uppljóstrara sem taki mið af ábendingum alþjóðastofnana og fordæmum þeirra nágrannaríkja sem fela í sér bestu framkvæmdina á þessu sviði. Með uppljóstrurum er átt við starfsmenn sem greina í góðri trú frá upplýsingum eða miðla gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda sinna, hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera eða á einkamarkaði. Greint er á milli innri og ytri uppljóstrunar og miðað við að hið síðarnefnda sé jafnan ekki heimilt nema hið fyrrnefnda hafi verið reynt til þrautar. Í frumvarpinu er kveðið á um að miðlun upplýsinga eða gagna, að fullnægðum skilyrðum frumvarpsins, teljist ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu viðkomandi og leggi hvorki refsi- né skaðabótabyrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti. Þá er lagt sérstakt bann við því að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum samkvæmt framansögðu. Lögð er sönnunarbyrði á atvinnurekanda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að óréttlátri meðferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaðabætur ef það tekst ekki. Mælt er fyrir um að veita skuli starfsmanninum gjafsókn komi til ágreinings fyrir dómi um stöðu starfsmanns m.t.t. framangreindrar verndar. Loks er lagt til að lögfestar verði heimildir til að greina ríkisendurskoðanda og Vinnueftirliti ríkisins frá upplýsingum, sambærilegar þeirri heimild sem nú er að finna í lögum um umboðsmann Alþingis.
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum (lögbann á tjáningu).
  Markmið frumvarpsins er að styrkja tjáningarfrelsi með því að bæta umgjörð lögbannsmála á hendur fjölmiðlum. Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við ákvæði í lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 þess efnis að ef gerðarþoli mótmælir framgangi lögbannsgerðar á þeim grunni að gerðin fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar, og sýslumaður hafnar þeim mótmælum, geti gerðarþoli borið þá ákvörðun undir héraðsdómara, þó svo að gerðarbeiðandi mótmæli því, svo fremi sem hann skuldbindur sig til að láta af athöfn á meðan mál er rekið fyrir dómi. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að málsmeðferð í framangreindum tilvikum skuli flýtt eins og kostur er. Ef gerðarþoli virði ekki þá skuldbindingu að láta af athöfn sinni skuli dómari fella málið þegar í stað niður ef gerðarbeiðandi krefst.
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, með síðari breytingum (endurkröfur blaðamanna og fjölmiðlaveitna).
  Með frumvarpinu er stefnt að því að bæta réttarstöðu starfsmanna blaðamanna vegna greiðslu skaðabóta sem þeim kann að vera gert að greiða vegna tjáningar sem þeir setja fram í starfi sínu. Reglur frumvarpsins eiga að tryggja að þegar upp er staðið verði það almennt vinnuveitandinn sem beri ábyrgð á því tjóni sem starfsmaður veldur við framkvæmd starfs síns. Með framangreindri breytingu yrði réttarstaða blaðamanna bætt miðað við núgildandi ákvæði, sem fela í sér að blaðamenn geta þurft að sitja sjálfir uppi með greiðslu bóta vegna tjáningar sem þeir viðhafa við framkvæmd starfa sinna í þágu vinnuveitanda. Um leið er breytingin til þess fallin að styrkja tjáningarfrelsi enda skapar núverandi réttarástand hættu á sjálfsritskoðun af hálfu blaðamanna og þar með kælingaráhrifum á tjáningarfrelsi.

Frumvörpin fjögur eru birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem hægt er að kynna sér efni þeirra og senda inn umsagnir og ábendingar. Með því að smella á hvert og eitt frumvarp opnast það á gáttinni.

Nefndin hefur nú lokið verkefnum sínum samkvæmt skipunarbréfi.

Tímabundnar nefndir
Til baka
Síðast uppfært: 16.6.2020
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira