Fagráð um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu
Hlutverk fagráðsins er að stuðla að gagnreyndri, sanngjarnri og gagnsærri forgangsröðun heilbrigðisþjónustu. Ráðið skal vinna að því að tryggja að heilbrigðisþjónusta sé nýtt á skilvirkan hátt, að forgangur sé veittur þeim sem mest þurfa þjónustu og að heilbrigðiskerfið sé sjálfbært til framtíðar.
Ráðið er ráðgefandi og skal skila tillögum til ráðherra. Tillögur ráðsins hafa þannig áhrif á stefnumótun og fjármögnun heilbrigðisþjónustu.
Ráðið skal gera tillögur að viðmiðum og meginreglum um forgangsröðun heilbrigðisþjónustu. Þá ber ráðinu að greina hvar þörf sé á endurskoðun þjónustu og leggja mat á hvaða meðferðir, þjónusta eða lyf ættu að vera hluti af opinberri fjármögnun og/eða greiðsluþátttöku hins opinbera.
Ráðinu ber að byggja vinnu sína á siðferðilegum og faglegum gildum er tryggja sanngjarnt aðgengi að þjónustu og að forgangur sé veittur þeim sem mest þurfa á þjónustu að halda. Þá þurfa tillögur að fela í sér aukna skilvirkni og tryggja hagkvæma ráðstöfun fjármagns. Við mat á endurskoðun þjónustu skal sjónum sérstaklega beint að svokallaðri lágvirðis þjónustu.
Ráðið skal leita ráðgjafar og samráðs við fagstéttir, sjúklingasamtök og hugsanlega aðra aðila, eins og þörf krefur. Með ráðinu starfar fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins. Áætlað er að fagráðið fundi að jafnaði einu sinni í mánuði. Ekki er gert ráð fyrir að greidd verði þóknun fyrir setu í fagráðinu af hálfu ráðuneytisins.
Fagráð um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu er þannig skipað
- Gylfi Ólafsson, án tilnefningar, formaður
- Hrefna D. Gunnarsdóttir, án tilnefningar
- Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, tilnefnd af Hagfræðistofnun
- Ástríður Stefánsdóttir, tilnefnd af Siðfræðistofnun
- Helgi Hafsteinn Helgason, tilnefndur af Landssambandi heilbrigðisstofnana
- María Heimisdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
- Ólöf Þórhallsdóttir, tilnefnd af Lyfjastofnun
- Sigurður Helgi Helgason, tilnefndur af Sjúkratryggingum Íslands
- Arnór Víkingsson, tilnefndur af Landspítala
- Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
- Þórarinn Guðnason, tilnefndur af Samtökum heilbrigðisfyrirtækja.
Skipað af heilbrigðisráðherra frá 21. júlí 2025 til tveggja ára í senn.