Skipuð 3. maí 2021.
Nefndinni er falið að vinna að gerð vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrfar og samfélag á Íslandi en með breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 árið 2020 er Veðurstofu Íslands formlega falið það hlutverk að leiða slíka vinnu með aðkomu sérfræðinga á sviði náttúruvísinda og samfélagslegra þátta. Skulu skýrslurnar taka mið af reglulegum úttektarskýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC), byggja á víðtæku samráði við íslenskt vísindasamfélag og setja fram nýjustu og bestu upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur þrisvar látið vinna skýrslur um líklegar afleiðingar loftslagsbreytinga á Íslandi. Komu skýrslurnar út árin 2000, 2008 og 2018 og skal taka mið af þeirri vinnu við gerð næstu skýrslu.
Í skýrslunni skal m.a.:
- fjalla um stöðu og umfang loftslagsbreytinga á Íslandi, setja fram sviðsmyndir um áhættu og afleiðingar,
- fjalla um helstu niðurstöður nýjustu skýrslna IPCC um loftslagsbreytingar og hvernig þær horfa við Íslandi,
- setja fram ábendingar um helstu atriði sem skoða þarf vegna mögulegra loftslagsbreytinga, s.s. á lífríki lands og hafs, á jökla og vatnafar, hækkun sjávarborðs og á samfélag og innviði.
Þegar er hafin vinna við mótun stefnu um aðlögun og viðbrögð vegna loftslagsbreytinga.
Nefndin skal skila skýrslu til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins eigi síðar en 1. júní 2023.
Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands, formaður,
Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands,
Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor á Verkfræði og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands,
Helga Ögmundardóttir, lektor á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands,
Samkvæmt tilnefningu Landbúnaðarháskóla Íslands
Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor
Samkvæmt tilnefningu Nátturufræðistofnunar Íslands
Starri Heiðmarsson, sviðsstjóri grasafræði
Samkvæmt tilnefningu Embættis landlæknis
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri
Samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar
Hildur Pétursdóttir, sjávarvistfræðingur
Guðjón Már Sigurðsson, fiskifræðingur.