Verkefnahópur varðandi annan áfanga uppbyggingar Landspítala
Heilbrigðisráðherra hefur skipað verkefnahóp til að fjalla um tiltekin atriði er varða framtíðarþjónustu Landspítala og annan áfanga framkvæmda við Landspítala.
Með erindi dags. 16. júní 2025 frá stýrihópi NSLH er lagt til að skipaður verði verkefnahópur til að skýra ákveðin atriði er varða annan áfanga framkvæmda við Landspítala. Í erindinu er rakin vinna við nýlegt endurmat á forsendum þarfagreiningar fyrir annan áfanga framkvæmda við Landspítala og umfjöllun í stjórn NLSH og stýrihópnum. Fram kemur að þörf sé á að skýra nokkur mikilvæg stefnumótandi atriði er varðar framtíðarþjónustu Landspítala, þ.m.t stefnu í dag- og göngudeildarþjónustu, krabbameinsþjónustu, rannsóknarþjónustu og birgðahaldi.
Sérstaklega er þörf á að fjalla um eftirfarandi atriði:
- Þörf fyrir legurými er meiri en gert var ráð fyrir í fyrri samantekt McKinsey um framtíðarþjónustu Landspítala frá desember 2021. Mikilvægt er að verkefnahópurinn taki afstöðu til hver mörg legurými þurfi að vera á Landspítala og hvar þeim skuli fyrir komið. Enn fremur að meta hvort áfram skuli stefnt að því að hafa eingöngu einbýli á sjúkrahúsinu.
- Skoði sérstaklega legurými fyrir vefræna sjúkdóma fullorðinna og afmörkun öldrunarþjónustu.
- Vaxandi þörf er fyrir ferliþjónustu af ýmsu tagi. Hópurinn áætli þá þörf og hvar þjónustunni verði fyrir komið. Sérstaklega er brýnt að taka afstöðu til framtíðarfyrirkomulags ferliþjónustu vegna krabbameina.
- Endurmat á starfsemiLandspítala á Landakoti og í Fossvogi sem tengist heildarmynd á uppbyggingu húsnæðis við Hringbraut og hvort og þá hvernig skynsamlegt er að nýta það húsnæði til framtíðar.
Verkefnahópunum ber að horfa fram til ársins 2050 í sinni vinnu og er frjálst að fjalla um önnur atriði sem mikilvæg þykja og varða framtíðaruppbyggingu Landspítalans.
Verkefnahópinn skipa
- Guðlaug Einarsdóttir, skrifstofustjóri HRN, formaður
- Ásgeir Margeirsson, frá stýrihópi NLSH
- Finnur Árnason, frá NLSH
- Ingólfur Þórisson, frá NLSH
- Sigríður Jónsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins
- Jón Magnús Kristjánsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra
- Jón Hilmar Friðriksson, frá Landspítala
- Vigdís Hallgrímsdóttir, frá Landspítala.
Verkefnahópurinn er skipaður af heilbrigðisráðherra 23. júlí 2025. Áætlað er að hópurinn ljúki störfum fyrir 1. nóvember 2025 með tillögum til heilbrigðisráðherra.