Hoppa yfir valmynd

Endurhæfingarráð - samstarfsvettvangur um endurhæfingu þvert á velferðarkerfi ráðuneytanna

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra skipa Endurhæfingarráð – samstarfsvettvang um endurhæfingu þvert á velferðarkerfi ráðuneytanna.

Endurhæfingarráði er ætlað að vera heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumörkun á sviði endurhæfingar og hvað varðar skipulag þjónustu til að tryggja samþættingu í endurhæfingu þvert á velferðarkerfi ráðuneytanna. Þetta á jafnt við um heilbrigðistengda endurhæfingu, atvinnutengda starfsendurhæfingu og önnur tengd úrræði. Þá munu ráðherrar fela ráðinu verkefni er varða greiningu eða útfærslu aðgerða sem ætlað er að tryggja þverfaglega sýn og samþættingu þjónustu ætlaða einstaklingum í endurhæfingarþörf og/eða hættu á ótímabæru brotthvarfi af vinnumarkaði. Einnig er ráðinu ætlað að fylgjast með alþjóðlegri þróun og áherslum í endurhæfingarþjónustu.

Endurhæfingarráði verður meðal annars falið að greina og útfæra skilgreindar aðgerðir í fimm ára aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins um heilbrigðistengda endurhæfingu sem var unnin í samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Útfærsla aðgerða tengdum samræmdu flokkunarkerfi, matstæki og tilvísunum eru á forræði beggja ráðuneyta og sérstaklega mikilvægar til að tryggja samþættingu endurhæfingarþjónustu ráðuneytanna.

Við vinnuna er ráðinu ætlað að hafa hliðsjón af áherslum í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Mikilvægt er að tryggja að einstaklingum sem missa starfsgetuna verði í auknum mæli tryggð þjónusta og stuðningur strax á fyrstu stigum með tilliti til líkamlegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem hafa áhrif á starfsgetu. Einnig er mikilvægt að endurhæfingarþörf sé metin snemma til að geta veitt viðeigandi úrræði tímanlega og tryggja jafnt aðgengi.

Endurhæfingarráð verður skipað tíu aðilum til fjögurra ára, þar af sex skv. tilnefningum og fjórum án tilnefningar. Endurhæfingarráði er heimilt að stofna faghópa um einstök verkefni sem því eru falin af heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra, eftir því sem við á. Gert er ráð fyrir að Endurhæfingarráð fundi a.m.k. mánaðarlega.

 

Endurhæfingarráð er þannig skipað:

  • Arnór Víkingsson, formaður, skipaður án tilnefningar
  • Auðbjörg Ingvarsdóttir, tilnefnd af Tryggingastofnun
  • Magdalena Ásgeirsdóttir, tilnefnd af Landspítala
  • Guðrún Kr. Guðfinnsdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
  • Hrafnhildur Tómasdóttir, tilnefnd af Vinnumálastofnun
  • Jón Steinar Jónsson, tilnefndur af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • Vigdís Jónsdóttir, tilnefnd af VIRK
  • Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, án tilnefningar
  • Íris Marelsdóttir, án tilnefningar
  • Ólafur Þór Gunnarsson, án tilnefningar

 

Starfsmenn Endurhæfingarráðs verða frá heilbrigðisráðuneytinu, Selma Margrét Reynisdóttir og frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, Bjarnheiður Gautadóttir.

 Endurhæfingarráð er skipað af heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra 2. september 2022 til næstu fjögurra ára. 

Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum