Hoppa yfir valmynd

Kærunefnd útboðsmála

ÁskriftirÚrskurðir nefndar
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Afgreiðsla kærunefndar útboðsmála er hjá yfirskattanefnd Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Netfang kærunefndar útboðsmála er [email protected]

Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegnaætlaðra brota á lögum um opinber innkaup og reglum settum samkvæmt þeim. Þar á meðal um almenn innkaup opinberra aðila, innkaup á sviði varnar- og öryggismála, innkaup opinberra aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og gerð sérleyfissamninga. Nefndin starfar samkvæmt 103. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016.

Kærunefnd útboðsmála skipa (skipuð til fjögurra ára í maí 2021):

 • Reimar Pétursson, lögmaður, formaður nefndarinnar
 • Auður Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur
 • Kristín Haraldsdóttir, lektor

Varamenn:

 • Dóra Sif Tynes, lögmaður
 • Hersir Sigurgeirsson, dósent
 • Sigurður Snædal Júlíusson, lögmaður

Ritarar kærunefndar útboðsmála eru Jörgen Már Ágútsson, lögmaður, Sigurður Snædal Júlíusson, lögmaður og Sindri M. Stephensen, lektor.

Kæra ásamt fylgigögnum skal vera í sex eintökum.  Nefndin getur leyft frávik frá þessu skilyrði ef fylgigögn eru óvenjulega umfangsmikil.  

 • Kærugjald er kr. 150.000.

Vinsamlegast greiðið inn á reikning ríkissjóðs nr. 0001-26-025017, kt. 540269-6459 og sendið staðfestingu í tölvupósti til [email protected]

Kæra er ekki tekin fyrir hjá kærunefnd útboðsmála nema kærugjald hafi verið greitt.

Starfsreglur fyrir kærunefnd útboðsmála

(2018)

1. gr.
Heiti og aðsetur

Kærunefnd útboðsmála starfar samkvæmt XI. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, eins og ákvæðum kaflans kann að hafa verið breytt síðar, en um meðferð mála fyrir nefndinni fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 með síðari breytingum.

 

2. gr.
Framlagning kæru

Kæra skal afhent eða póstsend kærunefnd útboðsmála. Þó er heimilt að senda nefndinni afrit undirritaðrar kæru með rafpósti og jafngildir þá slík sending móttöku kæru ef frumrit kærunnar berst nefndinni innan þriggja sólarhringa.

Samhliða afhendingu eða póstsendingu kæru skal kærandi greiða kærugjald samkvæmt 5. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016. Kæra verður ekki tekin til efnislegrar meðferðar nema kærugjald hafi verið greitt.

Mat á því hvort kæra hefur borist innan kærufrests miðast við móttökudag kæru.

3. gr.
Form kæru og fylgigögn

Kæra skal undirrituð af kæranda, fyrirsvarsmanni kæranda eða lögmanni hans.

Með kæru skal fylgja afrit allra þeirra gagna, sem vísað er til í kæru, auk annarra gagna, sem kærandi telur styðja kröfur sínar.

Kæra ásamt fylgiskjölum skal lögð fram í sexriti. Kærandi getur þó óskað eftir því að leggja fram fylgiskjöl með rafrænum hætti þegar umfang gagna er mikið. Kærandi getur einnig óskað eftir því að aðeins eitt eintak ákveðinna gagna sé lagt fram.

4. gr.
Efni kæru

Í kæru skal eftirfarandi koma fram:

 1. Fullt heiti kæranda og fyrirsvarsmanns hans, kennitala, lögheimili og raffang (tölvupóstfang), ef því er að skipta.
 2. Heiti og heimilisfang varnaraðila.
 3. Ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem er kært.
 4. Kröfur kæranda sem skulu lúta að úrræðum nefndarinnar samkvæmt lögum nr. 120/2016.
 5. Beiðni um álit á skaðabótaskyldu varnaraðila, ef því er að skipta.
 6. Stutt lýsing málsatvika, málsástæðna og rökstuðningur.
 7. Hvort heimilað er að tilkynningar, ákvarðanir og úrskurðir verði sendir kæranda eingöngu með rafpósti.

Óski kærandi eftir því að gætt sé trúnaðar um ákveðin atriði skal hann tilgreina þau atriði sérstaklega og jafnframt taka fram að hvaða marki óskað sé trúnaðar og ástæður fyrir því.

5. gr.
Tilkynning um móttöku kæru

Við móttöku kæru tilkynnir nefndin þegar í stað þeim sem kæra beinist gegn um móttöku kærunnar. Þegar um er að ræða kæru vegna ákvörðunar um val tilboðs skal í tilkynningu til varnaraðila vakin athygli á því að gerð samnings kunni að vera óheimil þar til nefndin hefur endanlega leyst úr kærunni.

6. gr.
Málsmeðferð

Nú er kæra tæk til efnismeðferðar og gefur nefndin varnaraðila, þar á meðal fyrirtæki sem hagsmuni kann að eiga af kærunni, kost á að tjá sig um efni kærunnar. Frestur skal að jafnaði eigi vera lengri en 10 dagar frá dagsetningu bréfs nefndarinnar.

Kæranda skal jafnan gefinn stuttur frestur til að tjá sig um greinargerð varnaraðila og annarra sem gefinn hefur verið kostur á að færa fram skriflegar athugasemdir. Frestur skal að jafnaði eigi vera lengri en 10 dagar frá dagsetningu bréfs nefndarinnar.

Að framkomnum lokaathugasemdum kæranda tekur nefndin mál til úrskurðar nema ákveðið sé að fram fari munnlegur málflutningur eða frekari gagnaöflun að frumkvæði nefndarinnar.

7. gr.
Málsmeðferð um kröfu um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir

Varnaraðila, þar á meðal fyrirtæki sem hagsmuni kann að eiga af kærunni, skal að jafnaði gefinn skammur frestur til að tjá sig um hugsanlega stöðvun útboðs eða stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Frestur skal að jafnaði ekki vera lengri en þrír sólarhringar.

Ef um er að ræða skýrt og augljóst brot á reglum um opinber innkaup er heimilt að taka ákvörðun um stöðvun um stundarsakir án þess að varnaraðila hafi verið gefinn kostur á að tjá sig.

Þegar athugasemdir samkvæmt 1. mgr. hafa borist skal nefndin taka ákvörðun um kröfuna eins fljótt og unnt er. Ef skýrt liggur fyrir að skilyrði til stöðvunar samningsgerðar um stundarsakir eru ekki fyrir hendi er þó heimilt að fresta umfjöllun um kröfuna til endanlegs úrskurðar með bókun nefndarinnar.

8. gr.
Málsmeðferð um afléttingu stöðvunar samningsgerðar

Nefndin getur ákveðið að aflétta banni við samningsgerð sem stofnast hefur til við móttöku kæru innan lögboðins biðtíma samkvæmt 86. gr. laga nr. 120/2016, hvort heldur er að kröfu varnaraðila eða að eigin frumkvæði.

Geri varnaraðili kröfu um afléttingu samningsgerðar getur kærunefnd tekið ákvörðun um afléttingu stöðvunar án þess að afla frekari gagna eða athugasemda frá kæranda.

Áður en nefndin tekur ákvörðun um afléttingu stöðvunar samningsgerðar að eigin frumkvæði skal hún að jafnaði gefa aðilum kost á því að færa fram athugasemdir sínar.

9. gr.
Form og efni greinargerðar varnaraðila og fylgigögn

Um form og efni greinargerðar varnaraðila fer eftir 3. og 4. gr. eftir því sem við á.

Óski varnaraðili eftir því að gætt sé trúnaðar um ákveðin atriði skal hann tilgreina þau atriði sérstaklega og jafnframt taka fram að hvaða marki óskað sé trúnaðar og ástæður fyrir því.

10. gr.
Skipun nefndarinnar

Á nefndarfundi, þar sem tekin er lokaákvörðun um mál, skal nefndin vera fullskipuð. Í öðrum tilvikum er nægilegt að tveir nefndarmenn taki þátt í meðferð máls og ákvörðun.

Formaður kallar til varamenn eftir því sem nauðsyn ber til. Við val á varamanni skal leitast við að jafna fjölda mála sem varamenn taka þátt í. Í stað nefndarmanns með alhliða reynslu og þekkingu á viðskiptum skal þó kalla til þann varamann sem skipaður hefur verið vegna sambærilegrar kunnáttu.

Í forföllum formanns skal löglærður aðalmaður gegna störfum formanns. Í forföllum beggja skipaðra löglærðra aðalmanna skal hlutkesti ráða hvor löglærðra varamanna fer með formennsku.

Nefndarmenn skulu undirrita ákvarðanir, úrskurði og minnihlutaálit sem þeir standa að.

11. gr.
Ákvarðanir formanns

Formaður ákveður fundi nefndarinnar og stýrir störfum hennar.

Formaður tekur ákvörðun um afhendingu gagna til málsaðila og annarra aðila.

12. gr.
Fundargerðir og málaskrá

Löglærður ritari nefndarinnar heldur fundargerðir eftir nánari ákvörðun formanns. Haldin skal skrá yfir mál sem berast nefndinni og lyktir þeirra.

13. gr.
Tilkynningar

Heimilt er að senda málsaðila tilkynningar, ákvarðanir og úrskurði með rafpósti eða öðrum rafrænum hætti, hafi hann samþykkt slíka tilhögun. Staðfest endurrit ákvarðana og úrskurða skal þó einnig senda bréflega eða með fullgildri rafrænni undirskrift.

14. gr.
Birting úrlausna kærunefndar útboðsmála

Úrskurðir og ákvarðanir nefndarinnar skulu gerðir almenningi aðgengilegar eftir nánari ákvörðun formanns. Óski málsaðili eftir því að tiltekin atriði í úrlausn séu ekki birt skal hann tilkynna nefndinni um það eins fljótt og kostur er og um ástæður þess.

15. gr.
Upplýsingagjöf til fjármálaráðuneytisins

Nefndin skal láta fjármálaráðuneytinu í té endurrit af ákvörðunum og úrskurðum í málum sem hún fjallar um.

16. gr.
Gildistaka

Starfsreglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 113. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og öðlast gildi við staðfestingu ráðherra.

Kærunefnd útboðsmála, 18. júní 2018.

Skúli Magnússon

Auður Finnbogadóttir

Ásgerður Ragnarsdóttir

Úrskurða- og kærunefndir
Til baka
Síðast uppfært: 16.6.2020
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira