Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta

Úrskurðir nefndar
Dómsmálaráðuneytið

Tilgangur og skipan

Matsnefnd eignarnámsbóta starfar skv. lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Skv. 1. mgr. 2. gr. nefndra laga sker nefndin úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.

Dómsmálaráðherra skipar formann matsnefndar til fimm ára í senn og annan til vara. Þeir skulu hafa lokið embættisprófi í lögfræði. Til meðferðar hvers máls kveður formaður tvo eða fjóra hæfa og óvilhalla menn til starfa í nefndinni.

Aðsetur

Formaður nefndarinnar er Valgerður Sólnes, prófessor. Aðsetur nefndarinnar er á skrifstofu formanns, Lagadeild Háskóla Íslands, Lögbergi 309, Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík, sími 866-8534, netfang [email protected].

Varaformaður nefndarinnar er Ingvar Smári Birgisson, lögmaður.

Málsmeðferð

Málsmeðferð fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta svipar til meðferðar mála fyrir héraðsdómi og er höfð nokkur hliðsjón af lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 við val á vinnureglum fyrir nefndinni. Málsmeðferðin er þó frjálsari t.a.m. varðandi fresti, áhrif útivistar o.þ.h. Aðilar að eignarmatsmáli láta nánast undantekningarlaust lögmenn fara með mál sitt fyrir matsnefndinni. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að aðilar reki mál sín sjálfir þar, en óneitanlega er hentugra að kunnáttumaður um réttarfar sjái um það.

Í 9. gr. laga nr. 11/1973 er ákvæði um að heimilt sé að ákveða að matsmál sé munnlega flutt fyrir nefndinni. Sú venja hefur skapast að öll mál eru munnlega flutt fyrir nefndinni áður en þau eru tekin til úrskurðar. Hvorum aðila er þá gefinn kostur á að tala tvisvar sinnum eins og um málflutning fyrir dómstólum væri að ræða.

Formaður nefndarinnar boðar til fyrsta matsfundarins með viku fyrirvara eftir að honum berst beiðni um mat frá viðkomandi eignarnema eða eignarnámsþola. Áður en boðað er til fyrstu fyrirtökunnar kannar nefndin hvort lagaheimild fyrir eignarnáminu sé til staðar. Á fyrsta matsfundi leggur matsbeiðandi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 11/1973 kemur fram að matsnefndin framkvæmi vettvangsgöngu að tilkvöddum aðilum þegar nauðsyn krefur. Reyndin er sú að farið er á vettvang í öllum málum.

Að vettvangsgöngu lokinni er aðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerðir og önnur gögn. Sú venja hefur skapast að aðilar fá gjarna sama frest til framlagningar greinargerða, sem lagðar eru fram á sama matsfundinum. Óski aðili sérstaklega eftir því að fá að skila inn andsvörum við greinargerð hins aðilans er frestur veittur til þess, ef ekki er málinu frestað til munnlegs flutnings. Áður en til flutnings kemur reynir matsnefndin að sætta málið og ekki er óalgengt að málum ljúki með sátt.

Nánar um starfshætti Matsnefndar eignarnámsbóta

Varðandi starfshætti Matsnefndar eignarnámsbóta vísast að að öðru leyti til laga nr. 11/1973.
Úrskurða- og kærunefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum