Hoppa yfir valmynd

Starfshópur um girðingamál

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Skipaður 27. ágúst 2020.
Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta samstarf helstu aðila sem hagsmuna hafa að gæta varðandi umbætur og hagræðingu vegna girðinga og hvernig þetta samstarf verði best unnið á svæðisvísu.

Samkvæmt samantekt starfshóps á vegum umhverfisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um beitarstjórnun og sjálfbæra landnýtingu var kostnaður stofnana ríkisins vegna girðinga árið 2010 um 390 milljónir kr. Þá er ótalinn kostnaður sveitarfélaga við nýgirðingar og viðhald. Ekki liggur fyrir nýrri samantekt á þessum kostnaði ríkisins og annarra opinberra aðila.

Meginþorri girðinga er reistur til að hafa stjórn á umferð og beit búfjár, einkum sauðfjár en einnig stórgripa s.s. hrossa og nautgripa. Í skýrslu áðurnefnds starfshóps kemur fram að vegna þeirrar meginreglu í íslenskum lögum að eigendur búfjár bera ekki ábyrgð á því er fé þeirra gengur á landi annarra og í ljósi verulegra breytinga á landnotkun þá er víða uppi ágreiningur milli eigenda búfjár og annarra landeigenda sem mikilvægt er að unnið sé með og leitað sé lausna á. Í ljósi mismunandi aðstæðna má telja líklegast að unnt sé að samræma búfjárbeit annarri landnýtingu svæðisbundið. Auk þess liggur fyrir að ákeyrslur á búfé eru viðvarandi vandamál á þjóðvegum landsins, sem veldur ómældu tjóni fyrir bændur, á ökutækjum og í sumum tilvikum slysum á fólki.

Lög um búfjárhald kveða á um að sveitarstjórnir hafi heimild til að banna lausagöngu búfjár og dæmi eru um að sveitarfélög hafi sett bann við lausagöngu á vegsvæðum. Fáein sveitarfélög hafa samþykkt bann við lausagöngu búfjár á stærri svæðum. Dæmi um það er landnám Ingólfs þar sem bannið er útfært með samningum við hlutaðeigandi aðila og hafa verið afmörkuð og girt sérstök beitarhólf í stað þess að girt sé með öllum vegum og umhverfis allt þéttbýli. Telja má víst að þessi aðgerð hafi haft í för með sér verulegan samfélagslegan ábata. Verulegur ávinningur getur fengist af auknu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra hagaðila um girðingar. Má þar nefna:

- Beina fjárhagslega hagræðingu við viðhald og uppsetningu girðinga.
- Aukið öryggi á þjóðvegum, þar sem búfé er haldið frá vegum.
- Hagræðing búfjárhalds, auðveldari smalamennskur og minni líkur á að fé sé á útigangi fram eftir vetri.
- Aukin tækifæri til skógræktar og landgræðslu, þar sem t.d. trjágróður getur breiðst hratt út þar sem verulega er dregið úr búfjárbeit eða henni hætt. Það leiðir aftur til ávinnings hvað varðar aukna kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri sem er ein meginaðgerð aðgerðaáætlunar Íslands í loftslagsmálum.

Í fyrsta áfanga vinni hópurinn uppfærðar kostnaðartölur og samantekt um legu og umfang girðinga hverrar stofnunar, sveitarfélaga og eftir atvikum annarra aðila eftir landsvæðum. Jafnframt vinni hópurinn greiningu á helstu hagsmunum, áskorunum og tækifærum til úrbóta við núverandi aðstæður s.s. m.t.t. kostnaðar, gróðurverndar, ræktunar, dýraverndar og umferðaröryggis. Þessi samantekt verði kynnt fyrir ráðuneytunum eigi síðar en 1. desember 2020.

Í öðrum áfanga vinnunnar dragi hópurinn saman tillögur að verkefnum sem geti leitt til ávinnings. Þessar tillögur byggi á samráði við þá sem best þekkja til aðstæðna á hverju svæði. Tillögurnar verði kynntar fyrir ráðuneytunum eigi síðar en 1. október 2021.

Starfshópurinn starfar í umboði allra ráðuneytanna.

Samkvæmt tilnefningu Vegagerðarinnar
Pálmi Þór Sævarsson, formaður

Samkvæmt tilnefningu Skógræktarinnar
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Samkvæmt tilnefningu Landgræðslunnar
Gustav Magnús Ásbjörnsson

Samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands
Unnstein Snorri Snorrason

Samkvæmt tilnefningu Matvælastofnunar
Sigrún Bjarnadóttir

Samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir


Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira