Hoppa yfir valmynd
29.04.2022 09:46 Utanríkisráðuneytið

Opnunarávarp á ráðstefnu um netöryggi á átakatímum

Opnunarávarp utanríkisráðherra á ráðstefnu um netöryggi á átakatímum í Grósku 28. apríl 2022.

 

Fundarstjóri, dear Josef, kæru ráðstefnugestir og vinir,

Það gleður mig að sjá hversu mörg gátu verið með okkur hér í dag. Þessi viðburður markar ákveðin tímamót því þetta er í fyrsta ráðstefnan sem við stöndum að í samstarfi við öndvegissetrið um fjölþáttaógnir í Helsinki, þar sem Ísland er nú orðið fullgildur meðlimur og virkur þátttakandi.

And I would like to thank the Hybrid Center of Excellence and you Josef in particular for your flexibility and swift response to our suggestion that we organize an event on this important topic.

Aðferðir í ófriði taka sífelldum breytingum. Undanfarið hef ég ferðast töluvert í embættiserindum. Á Íslandi sinnir utanríkisráðherra varnarmálum, en nánast öllum löndum í kringum okkur heyra varnarmál undir sérstakt ráðuneyti með eigin ráðherra. Ég hef því fengið innsýn í hernaðarskipulag og hernaðarmenningu sem ég hafði ekki áður.

Það er áhugavert að koma inn í byggingar sem tengjast hernaðarhefð í ólíkum löndum. Víða í Evrópu má sjá málverk af fornum stríðshetjum á veggjum. Á þeim sitja hershöfðingjar sperrtir á hestbaki, íklæddir skrúðbúningi, með glansandi hanska og gljáandi sverð í hönd. Þannig menn voru taldir vinna stríðin á fyrri öldum.

Ég er nýkomin frá Bandaríkjunum, og þeir minnast vitaskuld gamalla stríðshetja eins og George Washington á svipaðan hátt, en þar er algengara að sjá myndir og minnismerki sem eru nær nútímanum. Í staðinn fyrir að stríðshetjan sé einn maður á hestbaki þá eru minnismerkin af litlum hópum af hermönnum með nútímaleg skotvopn.

Og eins og ég held að okkur hljóti öllum að finnast sorglegt að hugsa til þess - þá er líklegt að sá tími sé ekki liðinn að samfélög finni þörf til þess að heiðra þá einstaklinga sem leggja sitt af mörkum til þess að vernda löndin sín og samfélögin sín í ófriði.

En stríðshetjur framtíðarinnar verða auðvitað ekki nákvæmlega eins og stríðshetjur fortíðarinnar. Seinni heimsstyrjöldin var reyndar dæmi um stríð þar sem það voru ekki bara herforingjar og hermenn sem riðu baggamuninn heldur einnig vísindafólk. Frægt er að hópi stærðfræðinga með Alan Turing fremstan í flokki tókst að ráða Enigma dulmál Þjóðverja og gefa Bretum og bandamönnum ómetanlegt innsæi í fyrirætlanir þýska hersins. Turing, sem er einnig einn af helstu sporgöngumönnum tölvubyltingarinnar, var því einnig stríðshetja.

Og þess vegna er ekki óhugsandi að þegar fram líða stundir þá verði reistar styttur ekki bara af hershöfðingjum og hermönnum með byssur - heldur af einbeittum forriturum á öllum aldri og af öllum stærðum, gerðum og kynjum sem leggja sitt af mörkunum til þess að vernda lönd sín, samfélög og lífsgildi gegn utanaðkomandi ógnum með færni sinni við lyklaborðið.

Kæru gestir, viðfangsefnið er brýnt. Við stöndum frammi fyrir raunverulegri hættu, eins og þið sem hér eruð þekkið. Og það mun falla á herðar margra hér að taka ábyrgð á því að draga úr þeirri hættu sem okkar stafar af fjölþáttaógnum, og bregðast við þeim af fumleysi og festu þegar á þarf að halda.

Netógnir og netárásir af hálfu ríkja hafa aukist mjög síðustu ár og orðið sífellt alvarlegri. Ísland er eitt netvæddasta samfélag heims og Íslendingar, íslensk fyrirtæki og stofnanir reiða sig á virkni þeirra kerfa sem að við sem hér erum berum ábyrgð á.

Til eru ýmsar samantektir, samanburður og vísbendingar sem gefa til kynna að staðan á Íslandi sé sýnu verri en víða annars staðar í kringum okkur. Vissulega er það svo að slíkar forsendur er erfitt að meta, og stóra myndin í heiminum er sú að daglegt líf í öllum nútímalegum samfélögum er viðkvæmt fyrir hvers kyns truflunum á netöryggi. Þar þurfum við svo sannarlega að huga að okkar eigin vörnum en í þessum efnum erum við líka hluti af stærri mynd og í þeirri mynd gætu falist tækifæri fyrir okkur til þess að leggja eitthvað af mörkum.

Góðir gestir

Þann 24. febrúar síðastliðin breyttist heimurinn. Rússnesk stjórnvöld ruddust inn í fullvalda nágrannaríki sitt með óhugnarlegum hrottaskap og brutu þannig allar grundvallarreglur í alþjóðasamskiptum, reglur sem eiga að tryggja í sessi sjálfsákvörðunar- og hreinlega tilverurétt veikari ríkja andspænis þeim sterkari.

Ljóst er að land eins og Ísland á ekki mikla möguleika í veröld Pútíns—þar sem vígamáttur ræður för en ekki alþjóðalög og samvinna ríkja. Auðvitað höfum við líklega öll vonað að sú sátt —sem ríkt hefur um alþjóðakerfi þar sem landamæri og lögsaga eru virt—myndi halda. En sem betur fer hefur Ísland haft fyrirhyggju til þess að huga að vörnum sínum með þeim hætti sem hentar best fyrir okkur.

Stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum getur nefnilega ekki byggst á þeirri óskhyggju að okkur yrði aldrei ógnað.

Enn síður gætum við byggt stefnu okkar á því að vona að við séum svo smá og óspennandi að okkur yrði þyrmt ef til stríðs kæmi í okkar heimshluta. Reyndar var það þegar orðin óraunsæ hugmynd í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem það var einungis spurning um litinn á fánanum sem fyrst sást við sjóndeildarhringinn að morgni 10. maí 1940. Þá vorum við lánsöm að það voru Bretar sem sigldu til Íslands en ekki hitt liðið.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var því ekki vandasamt að velja lið. Við erum stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu og þar tel ég blasa við að við völdum rétt lið. Sú aðild, ásamt varnarsamningi okkar við Bandaríkin, eru hornsteinar í öryggis- og varnarstefnu okkar.

Lengi hefur verið kröftug andstaða við að við höfum valið þessa leið—og enn þann dag í dag heyrist umræða um að með því að vera þátttakendur í samstarfi vina- og bandalagsþjóða sé Ísland að taka óþarfa áhættu. Að með því að styðja friðelskandi lýðræðisþjóðir gætum við verið að egna ill öfl til þess að veita Íslandi óumbeðna athygli.

En þetta er öfugsnúið í mínum huga. Án samstarfs við okkar bandalagsríki værum við algjörlega berskjölduð.

Þess vegna eigum við að vera stoltir þátttakendur í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja enda tel ég ekki ofmælt að flest ríki í heiminum teldu sér býsna vel borgið með svo trausta hornsteina í öryggis- og varnarmálum eins og við Íslendingar höfum.

Við eigum að leggja metnað okkar í vera eins góðir og gagnlegir bandamenn og við getum - en þar þurfum við þó vitaskuld að vera raunsæ og leggja áherslu á þá þætti þar sem við getum raunverulega lagt eitthvað sem skiptir máli af mörkum.

Hluti af hótunum rússneska stjórnvalda er að beita netárásum og ýmsum ósamhverfum aðferðum til þess að setja samfélög á Vesturlöndum úr skorðum. Þar er Ísland að sjálfsögðu ekki undanþegið. Landfræðileg einangrun okkar er ekki lengur vörn í sjálfu sér. Landamæri eru ekki lengur bara línur á blaði. Og rússnesk stjórnvöld virða engin landamæri. 

Netárás af hálfu ríkis á lykilinnvið, -stofnun eða -fyrirtæki getur allt í senn átt að þjóna í senn utanríkis- og öryggispólitískum, hernaðarlegum og jafnvel efnahagslegum markmiðum árásaraðilans. En hvað þýðir það fyrir Ísland? Jú, þetta þýðir upphaf nýs kafla í sögu utanríkis,-öryggis- og varnarmála á Íslandi.

Netöryggi og netvarnir eru fyrst og síðast á ábyrgð hvers ríkis fyrir sig. Þegar fram líða stundir er mikilvægt að líktþenkjandi lönd stilli strengi sína saman og vinni í auknum mæli saman í þessum efnum—og er það auðvitað hluti af hugsuninni á bak við öndvegissetur í netvörnum í Tallin og öndvegissetur um fjölþáttaógnir í Helsinki. 

Virk þátttaka í alþjóðasamstarfi er grundvallarforsenda þess að við hér getum byggt upp nauðsynlega þekkingu og þar með öfluga ástandsvitund, viðnámsþol og viðbragðsgetu. Ég tel það sé skynsamleg stefna fyrir Ísland að leggja sérstaka áherslu á þátttöku í slíku alþjóðlegu samstarfi.

En alþjóðasamstarf kemur vitaskuld ekki í staðinn fyrir nauðsynlega innlenda uppbyggingu. Við þurfum að standa á eigin fótum þegar kemur að netöryggis og netvarnarmálum, við þurfum að axla ábyrgð á eigin öryggi – einkum netöryggi.

Þetta þýðir meðal annars að við verðum að leggja okkur markvisst eftir því að skilja ógnina, greina möguleg áhrif hennar á okkar starfsemi og hvernig við erum í stakk búin að mæta henni. Og þessum viðburði hér í dag er m.a. ætlað að vera innlegg í þá vinnu.

Þetta þýðir líka að við þurfum að átta okkur á umfangi þeirra úrbóta sem nauðsynlegt er að ráðast í, hvað þarf til, hvort við höfum þær bjargir sem til þarf og ef ekki að finna leiðir til að nálgast þær eftir öðrum leiðum.

Kæru gestir,

Að takast á við nýjan raunveruleika þar sem mörk milli hins borgaralega og hernaðarlega eru orðin mjög útmáð krefst nýrrar nálgunar, aukins og markviss samráðs, samhæfingar og samstarfs ólíkra aðila. Þetta er og hefur verið áhersluatriði hjá mér og okkur í utanríkisráðuneytinu.

Við Íslendingar njótum góðs af því mikla samfélagslega trausti sem hér ríkir, af samheldni, aðlögunarhæfni og sköpunarkrafti. Við erum vön því að beita fyrir okkur þekkingu, fræðum og vísindum þegar kemur að því að takast á við nýjar áskoranir, hvort sem um er að ræða ofveiði fiskistofna, efnahagshrun eða heimsfaraldur og ég er sannfærð um að það sama mun gilda um netöryggis og netvarnarmálin. Við þurfum við að byggja upp þekkingu og skilning, líka meðal stjórnenda; efla sérfræðingagrunninn okkar enn frekar; nýta sveigjanleikann í stjórnsýslunni og stuttar boðleiðir; leiða saman hið opinbera og einkageirann.

Ég talaði í upphafi um breytta ásýnd stríðshetjunnar. Auðvitað óskum við þess öll að engin þörf sé fyrir slíkar hetjur, en því miður er hætt við að sú ósk sé óraunsæ. Við lifum nú þegar í veröld þar sem tæknilegir innviðir eru augljós skotmörk og varnir þeirra því eitt mikilvægasta verkefnið þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Í þeim efnum þurfum við Íslendingar að taka ábyrgð á okkar eigin örlögum, og getum jafnframt lagt fram okkar eigin þekkingu og getu af mörkunum í þágu vina- og bandalagsþjóða sem hafa lofað að senda hingað herskip og hermenn ef okkur er ógnað á hefðbundnari hátt.

Ég þakka ykkur fyrir að standa þessa vakt fyrir hönd Íslands og óska ykkur góðs gengis í dag.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum