Hoppa yfir valmynd
10.07.2022 09:29 Utanríkisráðuneytið

Viðskipti við „erfið“ ríki

Sú kenning hefur verið ríkjandi undanfarna áratugi að í samskiptum við ríki þar sem mannréttindum kunni að vera ábótavant sé skynsamlegt að efla viðskiptaleg tengsl. Í þessum kenningum hefur falist tvenns konar trú: Annars vegar að aukin viðskipti og velmegun styðji við umbætur í átt að frjálsu markaðsskipulagi og kröfur um mannréttindi; en hins vegar að umfang viðskipta milli ríkja dragi úr líkum á því að til ófriðar komi, þar sem svo margir eigi ríka hagsmuni af því að tryggja snurðulaust flæði vöru, þjónustu og fjármagns. Þetta hefur meðal annars verið hin pólitíska réttlæting fyrir þéttum viðskiptatengslum Vesturlanda við Rússland síðustu tvo áratugi jafnvel meðan stjórnarfarið þar færðist sífellt meira í átt til einræðis og harðstjórnar, en ekki raunverulegs lýðræðis og frjálslyndis.

Nú þegar heimsbyggðin horfir upp á grimmilega innrás Rússlands í fullvalda ríki Úkraínu er skiljanlegt að margir telji ástæðu til að endurskoða fyrri sannfæringu sína. Þetta á ekki síst við um stór ríki í Evrópu sem ákváðu að stíga ekki harkalega niður fæti gagnvart vaxandi ágangi Rússlands á undanförnum árum. Á meðan Pútín saumaði sífellt þéttar að réttarríki og mannréttindum innanlands, stýrði ómannúðlegum hernaði í Tjetjeníu og víðar innan sinna landamæra, og hafði uppi sífellt herskárri málflutning á alþjóðlegum vettvangi fram til ársins 2008 var áfram lögð áhersla á að eiga í uppbyggilegum viðskiptum við Rússland. Margir græddu bæði á því að taka þátt í að nýta náttúruauðlindir þeirra og ekki síður með að sýsla í kringum eignir rússneskra auðjöfra. Virtist þá litlu skipta að þessir ofurríku einstaklingar höfðu flestir auðgast á ógagnsæjan hátt í gegnum tengsl við stjórnvöld.

Árið 2008 urðu vatnaskil þegar Rússland flutti her inn í Suður- Ossetíu en afleiðingarnar á alþjóðavettvangi voru litlar. Innlimun Krímskaga, eftir lítt dulbúin hernaðarafskipti Rússa árið 2014, hefði meiri áhrif, en þó fyrst og fremst pólitísk þar sem alþjóðasamfélagið var farið að taka Rússum með meiri fyrirvara en áður. Hernaðaraðgerðir Rússa í Sýrlandi og vaxandi umsvif rússneskra málaliða víða um heim voru þar að auki tilefni til vaxandi uggs yfir framferði og framtíðaráformum Rússlands undir forystu Pútíns. Það var hins vegar ekki fyrr en með grimmilegri og algjörlega óréttmætri innrás Rússlands í Úkraínu þann 24. febrúar sl. sem stór hluti heimsbyggðarinnar rankaði við sér og áttaði sig á hvers lags óværu væri við að eiga.

Vonin um að hægt væri að komast upp með að eiga í ábótasömum viðskiptum við Rússland Pútíns hafði verið ríkjandi bæði meðal stjórnmálamanna og í stjórnsýslu á Vesturlöndum og vitaskuld einnig í viðskiptalífi og hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Fjárhæðirnar voru háar og gróðinn gat verið gríðarlegur. Þegar slíkir hagsmunir hafa hreiðrað um sig víða í vestrænum samfélögum kemur ekki á óvart að margar ákvarðanir stjórnvalda á síðustu árum eldist fremur illa.

Það er engu að síður mikilvægt að skoða nýliðna sögu og læra af henni. Við blasir að viðskipti milli landa ein og sér duga hvorki til þess að styðja við þroska í átt til lýðræðis og frelsis né til þess að koma í veg fyrir árásargjarna hegðun. Hugsanlega skiptir líka máli á hvaða forsendum viðskiptin eru og hvers eðlis. Í samfélögum þar sem hinn skapandi kraftur markaðshagkerfis, hugvits og athafnafrelsis fær að njóta sín er líklegra að opin viðskipti við umheiminn leiði í raun til framfara í átt til frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Þetta hefur meðal annars sést á þróuninni í Suður-Kóreu og Japan á undanförnum áratugum. Hins vegar verða viðskipti við ríki sem byggja auð sinn fyrst og fremst á gjörnýtingu náttúruauðlinda gjarnan til þess að festa ennþá frekar í sessi þá einstaklinga sem njóta pólitískra og efnahagslegra valda í krafti tengsla og spillingar. Þetta er raunin um Rússland, og afleiðingar þess að koma ekki auga á það blasa nú við.

Hér á Íslandi ríkir nú nánast algjör samstaða um að standa með Úkraínu og taka þátt í þeim efnahagslegu þvingunum gegn Rússland sem bandalags- og vinaríki okkar hafa haft frumkvæði að. Þær þvingunaraðgerðir sem gripið var til árið 2014 dugðu ekki til, enda virðist óvíða hafa verið pólitískur vilji á þeim tíma til þess að skrúfa alveg fyrir þá miklu uppsprettu hagnaðar sem finna mátti í Rússlandi. Víða á Vesturlöndum var glýjan yfir rússneskum gróða slík að jafnvel voru gerðar kröfur um enn veiklulegri aðgerðir en þá voru innleiddar og gætti jafnvel gagnrýni í þá veru að takmarkaðar aðgerðir gegn tilteknum meðreiðarsveiðum Pútíns væru óviðeigandi viðbragð við vaxandi útþenslutilburðum Pútíns.

Sagan sýnir að kenningin um aukin viðskipti við Rússland Pútíns varð smám saman að óskhyggju. Hún varð lífseigari en efni stóðu til vegna þeirra miklu fjárhagslegu hagsmuna sem í húfu voru. Mikilvægt er að draga réttan lærdóm af þessari reynslu og gera greinarmun á milli þess að eiga viðskipti við lönd sem byggja á frjálsu markaðshagkerfi hugvitsdrifinnar nýsköpunar og þeirra þar sem atvinnulíf er bein eða óbein framlenging á stefnu ólýðræðislegra stjórnvalda og byggist á gjörnýtingu auðlinda eða rányrkju. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira