Hoppa yfir valmynd
05.09.2022 17:50 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi fyrir sveitarfélög um aðlögun að loftslagsmálum

Ágæta samkoma,

Við erum hér saman komin í dag til þess að tala um loftslagsaðgerðir en þó ekki þær aðgerðir sem við erum vön að tala um. Það er nefnilega hægt að tala um loftslagsmál án þess að tala um losun gróðurhúsalofttegunda. Þó aðgerðir til samdráttar og kolefnisbindingar séu á endanum númer, eitt, tvö og þrjú, þá miðar fundur dagsins að því að skilja hvernig við lögum okkur að heimi ólíkum þeim sem við nú þekkjum.

„Ég elska þig stormur“, orti Hannes Hafstein, og þó við séum kannski fæst í fljótu bragði sammála, þá dregur stormurinn oft fram eiginleika sem efla okkur og styrkja. Það þarf kraft og hugmyndaauðgi til að standa af sér vond veður. Það þarf jákvæðni og útsjónarsemi til að lifa í loftslagi sem er að breytast, umhverfi sem býður upp á alls kyns útgáfur af veðri—ákafari úrkomu, þurrka eða óveður.

„Ég elska þig stormur“, orti Hannes og hélt áfram og sagði „og þegar þú sigrandi um foldina fer, þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér“. Þennan þrótt verðum við að finna og efla saman á næstu árum. Sérfræðingarnir tala um viðnámsþrótt gagnvart loftslagsbreytingum, aðrir tala um aukið loftslagsþol, enn aðrir tala um mikilvægi þanþols og seiglu innviða. Við munum heyra þessi orð í dag og aðlögunarhugtök sem þessi verða áberandi í umræðunni á næstu árum.

Stefna stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem gefin var út í fyrra, skiptist í 15 flokka — allt frá náttúruvá og skipulagsmálum til sjávarútvegs, lýðheilsu og vátrygginga. 15 flokka — og mér er sagt að stefnan sé ekki tæmandi fyrir alla þá vettvanga þar sem við þurfum að innleiða nýja hugsun aðlögunar að loftslagsbreytingum. Rétt eins og að samdráttur í losun er verkefni okkar allra, þá verðum við öll að læra á næstu árum að hugsa um áhrif loftslagsbreytinga þegar við byggjum húsin okkar, skipuleggjum byggðir, hugum að líffræðilegri fjölbreytni og tökum ákvarðanir innan fyrirtækjanna okkar sem móta framtíð atvinnuvega og þjóðarhag.

Við verðum að haga seglum eftir vindi en það er talsverð óvissa um hvaðan vindurinn mun blása. Þess vegna er stóra aðlögunarverkefnið fram undan að byggja upp þekkingu okkar á sviðsmyndum loftslagsbreytinga á Íslandi og skilning á því hvað þær þýða fyrir mismunandi landshluta, atvinnugreinar og hópa fólks—börn, aldraða og fólk sem vinnur undir berum himni svo einhverjir séu nefndir.

En við erum ekki á byrjunarreit. Við búum að umtalsverðri þekkingu og reynslu þegar kemur að því að vakta náttúruna og bregðast við þegar vá ber að garði. Frá árinu 2000, hafa stjórnvöld gefið út þrjár vísindaskýrslur um loftslagsbreytingar og myndin verður skýrari með hverri þeirra.

Nú er Vísindanefnd enn og aftur að störfum undir forystu Veðurstofu Íslands með okkar helstu sérfræðingum úr háskólasamfélaginu og rannsóknarstofnunum. Við fáum nýja skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi á næsta ári. Samhliða því höldum við áfram að byggja upp nýja skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands. Það er lykilatriði að ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og almenningur hafi aðgang að bestu mögulegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga. Jafnframt er ég að skipa í fyrsta skipti stjórn yfir samráðsvettvang um þekkingarsköpun um áhrif loftslagsbreytinga. Sá samráðsvettvangur verður starfræktur á nýju skrifstofunni og ég vænti þess að hann gefi okkur yfirsýn yfir þá þekkingu sem við höfum. En ekki síður hvaða þekkingu okkur vantar svo að við getum unnið markvisst að því að efla rannsóknir á áhrifum og afleiðingum loftslagsbreytinga á Íslandi.

Allt er þetta nauðsynlegur grunnur fyrir þau stjórntæki sem kveðið er á um í lögum og sem ríkisstjórnin hefur sett sér að móta í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili: Fyrstu Landsáætlunina um aðlögun að loftslagsbreytingum. Áætlun sem er ætlað að búa Íslandi ramma utan um þá mikilvægu vinnu sem þarf að fara fram í öllu samfélaginu, meðal almennings, stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga. Í dag ætlum við að ræða sérstaklega um hlutverk sveitarfélaga þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur samfélagið okkar — almenningur, fyrirtæki og stofnanir — aðsetur í sveitarfélögunum. Landshlutarnir, sveitarfélögin, og nærumhverfið eru grunnstærðir sem við verðum að vinna út frá þegar við metum áhrif loftslagsbreytinga á fólk, innviði og framleiðslu.

Ég hlakka mikið til fundarins og sérstaklega til þess að heyra frá sveitarfélögum um þeirra reynslu. Þá fagna ég því að við séum hér tveir ráðherrar á mælendaskrá. Það segir mikið um mikilvægi þessa málefnis. Ég fæ þann heiður að opna fundinn og trúi því að innviðaráðherra leiði okkur inn í síðasta lið fundarins þar sem fulltrúar sveitarfélaga koma saman í pallborðsumræðum.

Þessi mikli áhugi og breiða eignarhald birtist líka í þeim fjölbreytta hópi aðila sem stendur að fundinum. Auk ráðuneytanna tveggja vil ég sérstaklega þakka skipuleggjendum fundarins, Veðurstofu Íslands, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Síðast en ekki síst, þá vil ég þakka ykkur öllum sem eruð hér í dag. Aðlögun að loftslagsbreytingum kemur okkur öllum við og það á svo sannarlega við um stjórnkerfið og stefnumótun hins opinbera, sérstaklega núna þegar við vinnum að því að skapa ramman utan um þessa vinnu.

Gangi ykkur, og okkur vel, að aðlaga Ísland að breyttum heimi.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira