Hoppa yfir valmynd
15.09.2022 17:57 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við afhendingu Bláskeljarinnar 2022

Aðstandendur Plastlauss september, dómnefnd Bláskeljarinnar og aðrir gestir,

Ég vil byrja á að óska aðstandendum og landsmönnum öllum til hamingju með átakið Plastlaus september sem hefur nú fest sig í sessi sem árviss viðburður. Átakið er okkur öllum hvatning um að líta inn á við og leita leiða til að draga úr plastnotkun

Ekki þarf að tíunda hér hvaða ógn stafar af plasti í umhverfi okkar og vistkerfum jarðarinnar. Sú ógn ætti að vera öllum kunn. Plastmengun í hafi er alvarlegt og vaxandi vandamál á heimsvísu.

Við þurfum að snúa vörn í sókn og allir þurfa að leggjast á eitt. Stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur.

Íslensk stjórnvöld áttu frumkvæði að því að plastmengun í hafi á norðurslóðum var tekin upp á vettvangi Norðurskautsráðsins. Það leiddi meðal annars til þess að í fyrra var samþykkt ný vöktunaráætlun fyrir plastúrgang og örplast á Norðurslóðum.

Síðastliðið vor, á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, samþykktu 175 ríki að hefja viðræður um gerð lagalega bindandi, alþjóðlegs sáttmála gegn plastmengun. Með sáttmálanum er ætlunin að berjast heildstætt gegn allri plastmengun, hvar og hvernig sem hún birtist. Ísland hefur verið í hópi ríkja sem hafa barist fyrir því að sáttmáli sem þessi verði gerður.

Samkomulag um alþjóðlegan sáttmála gegn plastmengun er sögulegur atburður. Það er von mín að með sáttmálanum verði leitað leiða til að framleiðsla og notkun plasts, auk meðhöndlunar plastúrgangs, verði færð til betra horfs á heimsvísu.

Við Íslendingar þurfum líka að taka til í eigin ranni. Stíga þarf markviss og ákveðin skref hér á landi í baráttunni gegn plastmengun. Fyrir sléttum tveimur árum kom út aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum og inniheldur hún 18 tímasettar aðgerðir. Það er mjög ánægjulegt að segja ykkur frá því að af þessum aðgerðum eru 17 aðgerðir sem eru annað hvort í framkvæmd eða er lokið. Eina aðgerðin sem ekki er hafin er ekki komin lengra en raun ber vitni þar sem bíða þarf eftir að Evrópusambandið ljúki við að setja reglur um örplast sem bætt er í vörur af ásettu ráði. Sú vinna er langt komin og þegar reglurnar hafa verið settar getur Ísland innleitt þær.

Íslensk stjórnvöld hafa látið til sín taka undanfarið í baráttunni gegn plastmengun.

Má þar nefna átak í hreinsun íslenskra stranda og stuðning við frjáls félagasamtök sem sinna því verkefni. Milljarða styrkir síðustu ár vegna framkvæmda á fráveitukerfinu sem og hringrásarhagkerfisstyrkir. Þá er einnig hægt að benda á mikilvægar breytingar sem gerðar voru í fyrra á lagaumhverfi úrgangsmála. Þessar breytingar taka gildi nú um áramótin og snúa að talsverðu leyti að plasti og vörum úr plasti.

En nóg um stjórnvöld, því atvinnulífið hefur það hlutverk að vinna að lausnunum, beita hugviti og nýsköpun. Bláskelin er viðurkenning fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir. Markmiðið með viðurkenningunni er að vekja athygli á nýsköpun og henni er ætlað að halda á lofti því sem vel er gert þegar kemur að plastlausum lausnum og vera fyrirtækjum hvatning til góðra verka. Þessi árlega viðurkenning verður nú afhent í fjórða sinn.

Góðir gestir.

Ég fæ nú þann heiður að tilkynna hvaða fyrirtæki hlýtur viðurkenningu fyrir plastlausar lausnir í ár. Bláskelina árið 2022 hlýtur…

MAREA.

Marea hlýtur Bláskelina fyrir þróun sína á náttúrulegri filmu úr þörungahrati. Líkt og Sigríður sagði hér áðan er filman ætluð sem vörn fyrir grænmeti og ávexti. Filman dregur því úr matarsóun án þess að plast komi við sögu.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að nýsköpunargildi lausnarinnar hafi vegið þungt en sprotafyrirtækið Marea er það fyrsta hér á landi til að þróa lausnir úr þörungum og þara sem leyst geta hefðbundið plast af hólmi. Filman sem Marea vinnur nú að þróun á, og hlýtur Bláskelina fyrir, er framleidd úr þörungahrati sem fellur til hjá fyrirtækinu Algalíf. Filman brotnar að fullu niður með náttúrulegu niðurbroti og er hún í raun æt. Filman kemur í stað plasts og kemur notkun hennar því í veg fyrir einnota plastnotkun. Samstarf Marea og Algalíf er prýðilegt dæmi um hringrásarhagkerfið í framkvæmd. Með samvinnu sem þessari verður úrgangur eins fyrirtækis verðmætur efniviður annars og nýtist til framleiðslu á nýrri vöru. Þessi hringrás og fullnýting afurða voru sömuleiðis þættir sem dómnefndin mat mikilvæga.

Þetta samstarf ásamt þeim krafti sem einkennir teymi Marea er ekki einungis mikilvægt fyrir þá afurð sem fyrirtækið skapar, heldur eru þarna komnar fram mikilvægar fyrirmyndir sem sýna öðrum fyrirtækjum hvernig hægt er að nýta þekkingu til að skapa nýja, magnaða afurð úr nánast engu. Um leið leggur fyrirtækið sitt af mörkum til að draga úr mengun sem hefðbundin notkun plasts skapar.

Ég óska aðstandendum Marea hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna og árangurinn af frumkvöðlastarfi þeirra. Að endingu hvet ég landsmenn alla, fólk og fyrirtæki, til að huga að plastnotkun sinni og breyta hefðum og venjum til að draga úr notkuninni, nú í september og alla hina mánuði ársins.

Megi málþingið hér í dag heppnast vel og leiða til framfara. Góðar stundir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira