Hoppa yfir valmynd
12.01.2023 08:00 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Verðbólga mældist 9,7% á þriðja ársfjórðungi og hækkun húsnæðisliðarins var áfram sá þáttur sem hafði mest áhrif. Hins vegar varð líka nokkur hækkun á verði ýmiss konar þjónustu og matvöru. Afleiðingar aukinnar verðbólgu eru versnandi lífskjör, aukinn ójöfnuður og fjármagnskostnaður ásamt óróa í fjármálakerfinu. Það sem er merkilegt við þróun verðbólgunnar er ekki aðeins að hún hafi aukist um heim allan heldur eru undirliggjandi orsakir hennar, að undanskildu húsnæðisverði hér á landi, af svipuðum toga: Hækkun alþjóðlegs hráolíu- og olíuverðs, framboðshnökrar ásamt aukinni eftirspurn í kjölfar þróttmikilla stuðningsaðgerða í ríkis- og peningamálum til að vinna gegn efnahagssamdrættinum í tengslum við farsóttina. Þróun verðbólgunnar er þó að breytast ef við lítum á stærstu hagkerfin. Verðbólga virðist vera á niðurleið í Evrópu, þar sem orkuverð hefur hjaðnað, en verðbólguþróunin í Bandaríkjum virðist áfram vera þrálát og það sama má segja um Ísland. Þessi tvö síðastnefndu lönd eiga það sameiginlegt að vinnumarkaðurinn er kröftugur. En hvað veldur og hvað er til ráða?

Samband verðbólgu og atvinnustigs hefur verið að veikjast en...

Samband verðbólgu og atvinnustigs hefur farið þverrandi síðustu þrjá áratugi, þ.e. verðbólga hefur ekki verið eins næm fyrir slaka eða þenslu á vinnumarkaðnum. Margar hagrannsóknir benda til þess að skammtímasamband verðbólgu og atvinnuleysis hafi verið að fletjast út eins og það birtist í hagfræðinni í svokallaðri Phillips-kúrfu. Líta má á tvær meginskýringar að mínu mati. Annars vegar: Aukin alþjóðavæðing, þar sem veröldin er að einhverju leyti orðin að einum markaði. Fyrirtæki sem selja vörur sínar í mörgum löndum og mæta samkeppni frá erlendum fyrirtækjum séu ólíklegri til að hækka verð sem byggist eingöngu á innlendum efnahagsaðstæðum og framleiðslukostnaðurinn hefur lækkað verulega með alþjóðavæddum vinnumarkaði. Tæknin spilar stórt hlutverk í þessu samhengi, eins og fyrirtækið Amazon. Hins vegar hefur framkvæmd peningastefnu styrkst verulega á síðustu áratugum. Ben Bernarke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, heldur því fram að forysta Pauls Volckers hafi gert þar gæfumun, en þá tókst að festa verðbólguvæntingar almennings gagnvart verðbólgu. Niðurstöður rannsókna Bobeica o.fl. benda t.d. til þess að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga leiki lykilhlutverk í því að skýra minnkandi tengsl milli launahækkana og verðbólgu í Bandaríkjunum undanfarna þrjá áratugi. Að sama skapi kemst Alþjóðagreiðslubankinn að þessari niðurstöðu, þ.e. áhrif launahækkana á verðbólgu eru minni í löndum þar sem verðstöðugleika hefur verið náð en í löndum þar sem verðbólga er jafnan meiri.

...munu vaxandi skortur á vinnuafli og versnandi verðbólguhorfur breyta því?

Það eru hins vegar blikur á lofti um að sambandið milli verðbólgu og atvinnustigs sé að styrkjast að nýju og hin hefðbundna Philips-kúrfa endurfædd. Þrennt kemur til: Í fyrsta lagi virðist vinnumarkaðurinn breyttur í Bandaríkjunum eftir farsóttina. Hagtölur gefa til kynna að margir hafi ekki skilað sér aftur inn á vinnumarkaðinn eða ákveðið að breyta um starfsvettvang. Að sama skapi eru stórir árgangar að detta út af vinnumarkaðnum sökum aldurs. Kenningar eru uppi um að fram undan gæti verið verulegur skortur á vinnuafli sem muni leiða til launahækkana og svo kostnaðarhækkana. Framleiðni, samkvæmt nýjustu tölum, hefur einnig minnkað verulega. Í öðru lagi, þá hefur um nokkurra ára skeið verið viðskipta- og tæknistríð á milli Bandaríkjanna og Kína. Það, ásamt viðvarandi framboðshnökrum sem komu fyrst upp þegar farsóttin skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að færast aftur til Bandaríkjanna og kostnaður fer hækkandi samfara því. Í þriðja lagi hafa verðbólguvæntingar versnað verulega. Þegar þetta þrennt, bæði skammtíma- og langtímavandamál, kemur saman gæti orðið snúnara fyrir bandaríska seðlabankann að koma böndum á verðbólgu.

 

Ef við lítum á íslenska hagkerfið í þessu samhengi, þá er það sama upp á teningnum. Mikil þensla á vinnumarkaði og atvinnuleysi lítið. Að sama skapi hafa verðbólguvæntingar versnað verulega. Samkvæmt síðustu Peningamálum Seðlabanka Íslands hefur hlutfall þeirra sem búast við að verðbólga verði meiri en 5% á næstu fimm árum hækkað töluvert á þessu ári. Það er ný saga og gömul að þegar verðbólga er yfir markmiði í langan tíma eykst hættan á að kjölfesta verðbólguvæntinga veikist og það getur tekið langan tíma að ná þeim aftur niður í markmið. Til að koma böndum á verðbólguna þarf að viðhalda góðu samræmi á milli ríkisfjármála og peningamála. Að sama skapi er mikilvægt að tryggja öflugt fjármálakerfi sem tekist getur á við óróa á fjármálamörkuðum og viðhaldið viðunandi kjörum. Það má jafnframt ekki missa sjónar á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi í utanríkisviðskiptum og koma þar margir þættir að. Enn fremur verður það verkefni að sjá til þess að framboðshlið hagkerfisins verði ekki hamlandi þáttur fyrir almenning og atvinnulífið, en framboðshliðin er alltumlykjandi og skoða verður gaumgæfilega hvar framboðshnökra er að finna í hagkerfinu til að leysa krafta úr læðingi án þess að það hafi áhrif á verðlagið.

„Eigi skal gráta Björn bónda, heldur skal safna liði,“ sagði Ólöf Loftsdóttir, kona Björns Þorleifssonar hirðstjóra, þegar hún frétti að enskir sjóræningjar hefðu vegið mann sinn vestur á Rifi á Snæfellsnesi árið 1467. Þessa hvatningu má heimfæra á verðbólguógnina og að halda verði áfram að grípa til aðgerða til að hamla því að hún nái fótfestu í íslensku efnahagslífi með skelfilegum afleiðingum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira