Hoppa yfir valmynd
16.05.2023 10:54 Matvælaráðuneytið

Skýr matvælastefna eykur velsæld, grein birt í Morgunblaðinu 16. maí 2023.

Skýr matvælastefna eykur velsæld

Velsæld landsmanna til framtíðar byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda. Þetta er meðal þess sem stefnt er að með öflugri stefnumörkun í matvælaráðuneytinu. Skýr sýn er mikilvæg forsenda þess að við getum nýtt þau fjölmörgu tækifæri sem eru fyrir hendi á sviði matvælaframleiðslu, í þeim tilgangi að bæta hag almennings. Með sjálfbærum vexti verður auðveldara að glíma við áskoranir framtíðarinnar og fleiri stoðir undir atvinnulífið gera hagkerfi okkar stöðugra - en án skýrrar stefnu er óvíst hvort tækifærin verða gripin.

Þann 1. febrúar 2022 tók til starfa ráðuneyti matvæla, þar sem sameinast málaflokkar sjávarútvegs, landbúnaðar, matvæla auk landgræðslu og skógræktar. Undir ráðuneytið falla tvær stórar atvinnugreinar sem eiga það sameiginlegt að vera burðarásar í atvinnulífi þjóðarinnar og stuðla að fæðuöryggi. Markmiðið með stofnun matvælaráðuneytisins var meðal annars að byggja brýr milli þessara atvinnugreina og samtímis leggja áherslu á umhverfismál og sjálfbærni matvælaframleiðslu, þvert á alla málaflokka ráðuneytisins.

Ísland er ríkt af auðlindum og fyrir hendi eru forsendur til að byggja velsæld áfram á sjálfbærri nýtingu þeirra, m.a. til matvælaframleiðslu, og jafnframt að þróa áfram nýjar framleiðslugreinar á þeim grunni. Tækifærin eru mörg og mikilvægt að nýta þau með samræmdum aðgerðum. Af þeim sökum ákvað ég að setja af stað vinnu við gerð stefnu fyrir matvælaframleiðslu, fljótlega eftir að ég tók við embætti matvælaráðherra. Drög að stefnunni voru rædd á matvælaþingi síðastliðið haust og nú er þingsályktun til matvælastefnu til ársins 2040 til meðferðar hjá Alþingi.

Stefnunni er ætlað að vera leiðarvísir, rammi sem almenningur og atvinnugreinarnar geta treyst á til framtíðar. Henni er ætlað að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Stefnan verður grunnstefið í heildarstefnumótun innan matvælaráðuneytisins og verður höfð til hliðsjónar við aðra stefnumótun innan ráðuneytisins; í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi, og á grunni hennar verður unnin aðgerðaáætlun til fimm ára sem verður endurskoðuð árlega á meðan stefnan er í gildi.

Framtíðarsýnin samkvæmt matvælastefnu er að Ísland verði í fremstu röð ríkja í gæðum framleiddra matvæla. Við höfum alla burði til að láta það gerast. Mikil reynsla og kraftur býr innan íslenskrar matvælaframleiðslu og með skýrri stefnumótun í málaflokknum höfum við verkfæri til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri innan matvælaframleiðslu til fulls á komandi árum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum