Hoppa yfir valmynd
24.10.2023 14:16 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Claudia Goldin hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir að efla skilning okkar á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Hagrannsóknir Goldin ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á bandarískum vinnumarkaði og vegferðina að auknu launajafnrétti. Rannsóknir hennar hafa hrakið hefðbundnar ályktanir um hvaða breytur leiði til aukins jafnréttis. Fyrir rannsóknir Goldin var talið að aukinn hagvöxtur leiddi til aukins jafnréttis á vinnumarkaðinum. Í rannsóknum sem birtar voru árið 1990 sýndi Goldin fram á að það var ekki fyrr en á tuttugustu öldinni, þegar störfum í þjónustugeiranum fjölgaði og menntun á framhaldsskólastigi þróaðist, að launamunur kynjanna fór að minnka.

Væntingar um barneignir skýra launamun

Á tuttugustu öld jókst menntunarstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamuninn fram af. Önnur stór skýribreyta er aðgangur kvenna að getnaðarvarnarpillunni árið 1961 í Bandaríkjunum, þar sem hún gerði konum kleift að skipuleggja náms- og starfsferilinn. Hefðbundin söguskýring á launamun kynjanna var sú að konur og karlar hefðu á unga aldri valið sér menntun, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru misvel launuð. Goldin komst hins vegar að því að sá launamunur sem enn er við lýði skýrist að stærstum hluta af áhrifum barneigna. Hagrannsóknir Goldin sýna fram á að launamunur kynjanna minnkaði í nokkrum skrefum. Laun kvenna hækkuðu í hlutfalli við laun karla á árunum 1820-50, og svo aftur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á árunum 1980-2005 (sjá mynd 1).

Mestu breytingarnar eiga sér stað á áttunda áratug síðustu aldar. Kynbundinn launamunur hefur haldist nokkuð stöðugur í Bandaríkjunum undanfarin 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karlar höfðu að meðaltali. Meginútskýring á því að launamunurinn minnkar felst í væntingum, þ.e. ef ung kona stýrir því hvenær og hvort hún eignast barn og hefur meiri væntingar um að konur geti unnið fjölbreytt störf, þá fjárfestir hún meira í framtíð sinni. Á árunum 1967-1979 jókst hlutfall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn annar mikilvægur áhrifavaldur þessara umbreytinga, sem fylgdu pillunni, var að konur gátu frestað giftingu sem olli því samkvæmt Goldin að þær tóku háskólanám fastari tökum, gátu hugsað sér sjálfstæða framtíð og mótað sjálfsmynd sína fyrir hjónaband og fjölskyldu.

Leiðréttur launamunur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%

Samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst saman frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi hefur minnkað hægt og bítandi síðustu áratugi. Launamunur á Íslandi eykst eftir aldri og er munurinn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í samræmi við rannsókn sem Hagstofan gerði árið 2021 en þar kom fram að launamunur karla og kvenna dróst saman frá 2008 til 2020. Kynbundin skipting vinnumarkaðar í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).

Það er afar jákvætt að launamunur kynjanna haldi áfram að minnka enda er það hagur allra. Ísland er metið vera sá staður í veröldinni þar sem best er að vera útivinnandi kona, samkvæmt tímaritinu Economist og glerþaksvísitölunni.

Enn í dag hafa barneignir og hjúskapur mikil áhrif á launamun í Bandaríkjunum

Launamunur kynjanna út frá framhaldsnámi í Bandaríkjunum hefur ekki breyst mikið frá árinu 2005 og Goldin hefur verið að leita skýringa. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kemur hún með þá kenningu að störfum sem fela í sér mikla yfirvinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kemur í langtímagögnum þar sem fylgst er með lífi og tekjum einstaklinga í Bandaríkjunum að laun karla og kvenna eru áberandi svipuð strax eftir framhaldsnám eða háskólanám. Á fyrstu árum starfsferilsins er launamunur lítill hjá nýútskrifuðum háskólanemum og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfsvali karla og kvenna. Karlar og konur byrja nánast á sama tekjugrunni og hafa mjög svipuð tækifæri. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á ævina, um tíu árum eftir að háskólanámi lýkur, að mikill launamunur kemur í ljós hjá körlum og konum, sérstaklega þeim konum sem eiga tvö börn.

Barneignir hafa ekki mikil áhrif á launamun á Íslandi en yfirvinna skýrir muninn

Þegar svokallaður leiðréttur launamunur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karlar og konur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu atvinnugreinum, þá stæði eftir að konur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karlar vegna kyns síns. Hins vegar þegar aðeins er leiðrétt fyrir lýðfræðilegum breytum, þ.e. aldri, hjúskaparstöðu og fjölda barna, var leiðréttur launamunur 10,9% árið 2019. Það gefur til kynna að breyturnar í líkaninu skýri einungis að litlu leyti óleiðrétta launamuninn. Niðurstöður gefa einnig til kynna að þessar breytur hafi marktækt ólík áhrif á karla og konur. Hjúskaparstaða á Íslandi hefur til að mynda engin áhrif á laun kvenna en það að einstaklingur sé í sambúð hefur jákvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjölmörgum löndum en nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýnir að áhrifin eru einkum vegna þess að karlmenn með hærri laun eru líklegri til þess að kvænast, þ.e. launin hafa áhrif á hjúskaparstöðu en ekki öfugt. Fjöldi barna undir tveggja ára aldri hefur samkvæmt rannsókninni ómarktæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lítil áhrif (til lækkunar) á laun karla.

Hagrannsóknir Goldin eru mjög áhugaverðar. Áður en Goldin hóf rannsóknir sínar töldu margir fræðimenn að spurningum um launamun kynjanna í sögulegu samhengi væri ósvarað vegna skorts á gögnum. Segja má að sú leið sem Ísland hefur farið í jafnréttismálum sanni hagfræðikenningar Goldin, þ.e. að með öflugri uppbyggingu leikskólastigsins ásamt 12 mánaða fæðingarorlofi hafi launamunurinn minnkað markvisst. Framsækin kvennabarátta í gegnum tíðina skiptir einnig sköpum. Þrátt fyrir það er launamunur og hann eykst eftir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leikskólastigið og starfsumhverfi kennara!

Ég óska samfélaginu til hamingju með daginn og hvet okkur öll til áframhaldandi góðra verka í þágu jafnréttismála.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum