Hoppa yfir valmynd
26.10.2023 12:25 Matvælaráðuneytið

Leggjum niður störf, grein birt í Morgunblaðinu, 24. október 2023

„Framlag kvenna til samfélagsins er lítils virt. Sýnum okkur sjálfum og öðrum, hve mikilvægt framlag okkar er, með því að leggja niður vinnu 24. október.“ Þessar setningar er að finna á auglýsingu framkvæmdanefndar um kvennafrí frá árinu 1975, en nefndin stóð að skipulagningu fyrsta kvennafrídagsins.

Jafnrétti í raun

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði árið 1975 málefnum kvenna, undir kjörorðunum jafnrétti, framþróun, friður. Kvennasamtök hér á landi skipulögðu í upphafi ársins ýmsa viðburði, s.s. ráðstefnu um stöðu kvenna sem var haldin í júní 1975 og einn fjölmennasta útifund Íslandssögunnar á Lækjartorgi, föstudaginn 24. október fyrir 48 árum. Talið er að um 90% kvenna á Íslandi hafi lagt niður vinnu þennan föstudag árið 1975 og síðan þá hafa konur lagt niður störf á þessum degi árin 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018, og blásið var til netherferðar árið 2020.

Meginmarkmiðið með fyrsta kvennafrídeginum var að vekja athygli á launamun kynjanna og mikilvægi vinnuframlags kvenna, bæði innan og utan heimilis. Konur kröfðust þess að öðlast jafnrétti í raun, en ekki bara að lögum. Við höfum náð árangri í jafnréttisbaráttunni á þessum tæpu 50 árum sem liðin eru frá fyrsta kvennafrídeginum en við erum ekki á endastöð. Tímarnir breytast og áherslumál jafnréttisbaráttunnar með en markmiðið er þó hið sama: Að samfélagið meti framlag kvenna að verðleikum og að fullu jafnrétti verði náð.

Kynbundið ofbeldi og þriðja vaktin

Í ár vekja skipuleggjendur kvennaverkfallsins sérstaklega athygli á mikilvægi þess að útrýma kynbundnu ofbeldi, og á því sem því miður er enn er raunin; framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið. Kynbundið ofbeldi þarf að uppræta. Á síðu kvennaverkfallsins í ár kemur m.a. fram að 40% kvenna verði fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni, að fatlaðar konur verða fyrir meira ofbeldi en aðrar konur og að sjöttu hverri stúlku í tíunda bekk hefur verið nauðgað af jafnaldra. Á árunum 2018-2022 var lögreglu tilkynnt um að jafnaði yfir 600 kynferðisbrot á ári. Staðan er óásættanleg og við verðum að halda baráttunni gegn ofbeldi á lofti.

Umræða um aðra og þriðju vaktina í heimilislífi hefur verið hávær upp á síðkastið. Þar er að finna kunnuglegt stef: enn eru störf kvenna að hluta til ósýnileg og þar af leiðandi vanmetin. Konur sinna í meira mæli en karlar bæði annarri og þriðju vaktinni; það er þær vinna í meira mæli ólaunuð störf inni á heimili og við umönnun barna og annarra fjölskyldumeðlima, og taka á sig meiri hugræna byrði en karlar - þær eru oftar en karlar verkefnastjórar heimilisins.

Þegar öllu er á botninn hvolft er krafan einföld. Að samfélagið meti vinnuframlag kvenna og kvára að verðleikum, hvort sem það vinnuframlag fer fram á vinnustað eða í huga okkar. Það er krafa sem við munum ekki hvika frá, og ég hvet öll til að mæta á baráttufund á Arnarhóli í dag. Þó ýmsir vilji afturábak en aðrir standi í stað, tökum við aldrei undir það.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum