Hoppa yfir valmynd
09.11.2023 14:18 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þrálátar áskoranir í heimsbúskapnum

Á undanförnum árum hafa heimsbúskapurinn og alþjóðaviðskiptin þurft að takast á við áskoranir af risavöxnum toga. Heimsfaraldurinn sneri daglegu lífi fólks um allan heim á hvolf eins og við öll munum eftir. Neysluvenjur fólks breyttust og stjórnvöld víða um heim kynntu umfangsmikla efnahagspakka til stuðnings fólki og fyrirtækjum ásamt því að seðlabankar fjölmargra ríkja lækkuðu stýrivexti til að örva hagkerfi. Aðfangakeðjur víða um heim fóru úr skorðum með tilheyrandi hökti í alþjóðaviðskiptum og áhrifum á markaði. Í blálok faraldursins tók svo við innrás Rússlands í Úkraínu. Innrásin markaði þáttaskil í öryggis- og varnarmálum Evrópu og varpaði skýru ljósi á veigamikla veikleika hjá ríkjum Evrópu hvað viðkom orkuöryggi, enda voru mörg þeirra háð innflutningi á rússnesku gasi og olíu. Orkuverð tók að snarhækka á meginlandi Evrópu sem og verð á fjölmörgum vöruflokkum, til að mynda matvælum. Þar hafði áhrif að Úkraína er stór framleiðandi korns, en landið hefur oft verið kallað brauðkarfa Evrópu. Þá hafa auknar hindranir í alþjóðaviðskiptum, til að mynda viðskiptastríðið milli Bandaríkjanna og Kína, bætt gráu ofan á svart.

Verðbólguþróunin á heimsvísu fór ekki varhluta af fyrrnefndri þróun eins og við þekkjum einnig hér á landi. Á árinu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörgum samanburðarríkjum. Á tímabili mældist samræmd verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu, 6,4% í nóvember 2022, en var þá 11,5% hjá ríkjum Evrópusambandsins. Verðbólgan á Íslandi hefur reynst þrálátari og mælist nú 7,9%, hagvöxtur hér er kröftugri en víðast hvar. Efnahagsbatinn á heimsvísu er hins vegar hægfara og ójafn eftir svæðum. Þó að verðbólga á heimsvísu sé víða í rénun er of snemmt að fagna sigri. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn býsna treg enda gangur efnahagslífsins öflugur. Betur hefur gengið með verðbólguna víða í Evrópu, en þar eru önnur vandamál, t.d. mælist nú efnahagssamdráttur í Þýskalandi.

Íslensk stjórnvöld vinna að því hörðum höndum að lækka skuldir ríkissjóðs og ná heildarjöfnuði. Kjör á ríkisskuldum á heimsvísu hafa versnað verulega. Sérstaka athygli vekur hvað kjör bandarískra ríkisskulda hafa versnað og er krafan um 4,5% vextir til 10 ára. Meginástæðan fyrir þessari þróun er að fjárlagahallinn er mikill auk þess sem skuldastaðan heldur áfram að versna. Ásamt því er rekin aðhaldssöm peningastefna, þar sem vextir hafa hækkað mikið og bandaríski seðlabankinn hefur snúið við hinni umfangsmiklu magnbundnu íhlutun og hafið sölu á ríkisskuldabréfum. Margir telja að vegna þessa nái markaðurinn ekki að berjast gegn þessu mikla framboði og því hafi kjörin versnað mikið. Fyrir Ísland skiptir mestu í þessu kvika efnahagsumhverfi að halda vöku okkar og að hagstjórnin sé það styrk að verðbólgan lækki og vaxtakjörin batni hratt í kjölfarið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum