Hoppa yfir valmynd
04.04.2024 16:52 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands - 4. apríl 2024

Formaður bankaráðs, seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar, starfsfólk Seðlabanka Íslands og kæru ársfundargestir.

Það er ekki ofmælt að segja að undanfarin ár hafi litast af mörgum stórum en ólíkum áskorunum við stjórn efnahagsmála. Stjórnvöld réðust í mjög afgerandi aðgerðir til að verja afkomu fólks og styðja við atvinnulífið þegar efnahagsáfall vegna heimsfaraldursins reið yfir á árinu 2020. Aðgerðirnar voru ekki aðeins árangursríkar við að verja störf og afkomu almennings heldur áttu sinn þátt í að byggja undir kröftuga viðspyrnu efnahagslífsins þegar faraldurinn var að baki. Þessi viðspyrna, sem fór raunar fram úr björtustu vonum, hafði þó nýjar áskoranir í för með sér. Hækkandi húsnæðisverð, kröftug innlend eftirspurn, spenna á vinnumarkaði, stríðsátök og alþjóðlegur verðbólguþrýstingur ýttu undir vaxandi innlenda verðbólgu, sem náði hámarki í upphafi síðasta árs. Síðustu misseri hefur því baráttan við verðbólguna verið stærsta verkefnið við stjórn efnahagsmála.

Því verkefni er auðvitað langt frá því að vera lokið en á síðustu mánuðum hafa ýmis góð teikn birst á lofti. Verðbólga hefur hjaðnað, þrátt fyrir örlítinn mótvind og nýgerðir langtímakjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru mikilvægt skref til að skapa forsendur fyrir minnkandi verðbólgu og lækkun vaxta á næstunni. Ég er bjartsýn á að aðrir hópar á almennum vinnumarkaði og starfsfólk hjá hinu opinbera muni fylgja á eftir og semja á sambærilegum grunni. Það er sömuleiðis trú mín að þær aðgerðir sem ríki og sveitarfélög hafa ákveðið að ráðast í til að styðja við samningana muni skila sér í bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks, samhliða því að verðbólgan færist aftur í átt að markmiði.

Stuðningur ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga vegna kjarasamninga felst m.a. í auknum húsnæðisstuðningi, aðgerðum sem stuðla munu að auknu framboði íbúðarhúsnæðis og stuðningi við barnafjölskyldur. Þá munu ríki og sveitarfélög halda aftur af gjaldskrárhækkunum og munu gjaldskrár ríkisins almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. Allt mun þetta skipta máli.

Þá vil ég við þetta tilefni minnast á, að fyrr á þessu ári tilkynnti Hagstofan að hún muni á komandi sumri skipta um aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs. Frá og með júní næstkomandi verður aðferð svokallaðra húsleiguígilda notuð við útreikning á reiknaðri húsaleigu í vísitölu neysluverðs í stað þeirrar aðferðar sem notuð hefur verið frá árinu 1992. Aðdragandi þessara breytinga teygir sig aftur til Lífskjarasamninganna frá árinu 2019, en ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins sammæltust þá m.a. um að ráðast í aðgerðir til að draga úr vægi verðtryggingar. Í framhaldinu skipaði ég nefnd sérfræðinga um aðferðafræði vísitölu neysluverðs sem gaf út skýrslu og kom ábendingum til Hagstofunnar árið 2020, m.a. um mögulegar aðferðir við mat á húsnæðislið vísitölunnar. En það skal áréttað hér að Hagstofan hefur lögum samkvæmt fullt sjálfstæði yfir ákvörðunum um aðferðafræði við verðbólgumælingar. Undirbúningur og vinna vegna þessara breytinga hefur staðið yfir innan Hagstofunnar frá árinu 2020 og betri gögn um leigumarkaðinn gera það að verkum að nú er unnt að taka upp aðferð húsaleiguígilda hér á landi. Væntingar standa til að með breyttri aðferðafræði verði húsnæðisliður vísitölu neysluverðs stöðugri gagnvart skammtímasveiflum á húsnæðismarkaði.

Þegar horft er fram á við hafa verðbólguhorfur batnað og vísbendingar eru um að dregið hafi úr þeirri spennu sem verið hefur í þjóðarbúinu undanfarin tvö ár. Hagvaxtarhorfur á þessu ári eru samt sem áður ágætar eða um 2% á meðan lítill hagvöxtur eða samdráttur mælist í mörgum helstu viðskiptalöndum okkar í Evrópu. Staða Íslands er því að mörgu leyti góð í efnahagslegu tilliti. Skuldastaða heimila og fyrirtækja er heilt yfir góð, bankakerfið er vel fjármagnað og er vel í stakk búið til að styðja við atvinnulíf og heimili. Áfram er markmiðið að ná verðbólgu niður og skapa forsendur fyrir lækkun vaxta.

Eldsumbrot á Reykjanesskaga

Áskoranir í ríkisfjármálum eru hins vegar af ýmsum toga. Jarðhræringar á Reykjanesskaga hafa nú staðið í nokkur ár og í nóvember var Grindavík rýmd. Grindavík stendur enn að mestu auð og þar er mannlíf og atvinnustarfsemi ekki svipur hjá sjón um þessar mundir. Staðan sem upp er komin í Grindavík er  að mörgu leyti fordæmalítil en jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesskaga ganga yfir á um 800-1000 ára fresti og geta staðið lengi í senn, jafnvel áratugi.

Smám saman hefur runnið upp fyrir okkur að viðlíka ógn vegna náttúruvár hefur ekki steðjað að samfélagi okkar um langa hríð – og verkefnið er nú þegar orðið það umfangsmesta sem stjórnvöld og almannavarnakerfið hefur tekist á við á lýðveldistímanum vegna náttúruhamfara. Þessar jarðhræringar geta ógnað byggð og mikilvægum innviðum á þéttbýlasta svæði landsins. Við höfum unnið að því undanfarið að kortleggja stöðuna og undirbúa ólíkar sviðsmyndir en eigum enn mörg verkefni fyrir höndum á því sviði. Geta okkar til að bregðast við þessari ógn er hins vegar betri en nokkru sinni.

Ráðist var í stórar framkvæmdir við byggingu varnargarða við Svartsengi og umhverfis Grindavík til að verja byggðina þar og mikilvæga innviði fyrir íbúa á öllum Suðurnesjum. Þessar framkvæmdir, sem eru einstakar á heimsvísu, hafa þegar sannað gildi sitt og nýjum áskorunum hefur verið mætt snurðulaust af viðbragðsaðilum sem m.a. hafa unnið stórvirki við að endurhanna og hækka varnargarða í atburðunum miðjum.

Þá hefur verið ráðist í margvíslegar efnahagslegar aðgerðir til þess að styðja við íbúa Grindavíkur sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og atvinnustarfsemi á svæðinu. Seðlabankinn hefur komið að þessu verkefni m.a. með beinum aðgerðum þegar fjármálastöðugleikanefnd rýmkaði tímabundið lánþegaskilyrði þeirra einstaklinga sem áttu íbúðarhúsnæði í Grindavík og hyggja á kaup íbúðarhúsnæðis annars staðar. Umfangsmesta efnahagslega aðgerðin snýr að boði til íbúa Grindavíkur um kaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í bænum sem margir hafa þegar ákveðið að nýta sér. Vinna stendur nú yfir við að greiða frekar úr áskorunum atvinnulífsins í Grindavík og áfram mun það verða okkar sameiginlega verkefni að leysa úr þeim viðfangsefnum sem upp koma í því óvissuástandi sem enginn veit hvað varir lengi.

Verkefnin í ríkisfjármálunum eru því áfram ærin og hefur það verið viðfangsefni okkar á síðustu vikum að tryggja að ríkisfjármálin í heild og sú fjármálaætlun sem lögð verður fyrir Alþingi í næstu viku styðji við markmið um verðstöðugleika og lækkun vaxta á sama tíma og við forgangsröðum brýnum verkefnum eins og aðgerðum til stuðnings kjarasamningum og aðgerðum vegna stöðunnar í Grindavík.

Sameining Seðlabankans og FME – endurskipulagning og uppbygging síðustu ára

Kæru gestir.

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum farið í gegnum miklar breytingar. Síðastliðið vor voru gerðar breytingar á lögum um Seðlabankann sem vörðuðu einkum skipulag og starfsemi fjármálaeftirlitsnefndar. Aðdragandi þeirra lagabreytinga voru niðurstöður úttektar óháðra sérfræðinga um að skýra þyrfti og afmarka betur valdsvið og hlutverk nefndarinnar. Ég tel að rétt skref hafi verið stigin með þessari lagabreytingu og hygg að hún marki ákveðin þáttaskil í sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Ef til vill má líta á hana sem síðasta skrefið í því umfangsmikla verkefni að styrkja stofnanaumgjörð fjármálamarkaðarins og treysta stjórn efnahagsmála hér á landi eftir efnahagshrunið 2008. Vörðurnar í þeirri uppbyggingu hafa verið margar, svo sem stofnun peningastefnunefndar (2009), stofnun fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar (2014) - sem fjármálastöðugleikanefnd hefur nú leyst af hólmi, sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (2020), stofnun Þjóðhagsráðs (2016), bætt lagaumgjörð ríkisfjármála (2015) og margt fleira. Í þessu samhengi er vert að hafa orð á þeim góða árangri sem náðst hefur með beitingu þjóðhagsvarúðartækja til að tryggja fjármálastöðugleika á undanförnum árum. Leiða má að því líkum að notkun þeirra hafi skipt sköpum við að stuðla að betra jafnvægi í hagkerfinu og hamlað mikilli skuldasöfnun gegnum kröftuga hagsveiflu síðustu ára. Sést það meðal annars á því hvernig uppgangur síðastliðinna ára hefur ekki leitt til ójafnvægis í utanríkisviðskiptum eða ósjálfbærrar skuldasöfnunar heimila og fyrirtækja.

Góður árangur af þessari endurskipulagningu og bættri umgjörð fjármálakerfisins fékkst einnig staðfestur á liðnu ári þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lauk yfirgripsmiklu mati sínu á styrk og heilbrigði fjármálakerfisins hér á landi.[1] Eins og við var að búast úr svo viðamikilli úttekt bendir sjóðurinn á fjölda úrbótatækifæra sem bæði snúa að stjórnvöldum og Seðlabankanum en heildarniðurstaðan fyrir Ísland er góð og vitnisburður um þá faglegu vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum hjá stjórnvöldum, Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu.

Eitt þeirra viðfangsefna sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fjallaði nokkuð ítarlega um í úttektinni er lífeyrissjóðskerfið og kerfislegt mikilvægi þess. Á síðustu áratugum hefur okkur farnast einstaklega vel við að byggja upp öflugt lífeyriskerfi sem kemur vel út í alþjóðlegum samanburði og tryggir sífellt batnandi afkomu þeirra kynslóða sem ljúka starfsævinni. Umsvif lífeyrissjóðanna hafa því vaxið í öllu tilliti frá því sem áður var, og líkt og lagt var upp með standa þeir undir stöðugt stærri hluta ellilífeyris og vitaskuld hefur stærð þeirra og umsvif á fjármálamarkaði vaxið samhliða þessu. Fyrirséð er að á næstu árum muni lífeyriskerfið halda áfram að stækka, með öllum þeim kostum og áskorunum sem því geta fylgt. Það er því mikilvægt að geta átt samtal um framtíðarþróun kerfisins, hvernig megi bæta það og takast á við hugsanlegar áskoranir í víðum skilningi. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt ríka áherslu á að þetta samtal og stefnumörkun fari fram í samráði við helstu hagsmunaaðila; þ.e. lífeyrissjóðina og heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins sem hafa átt mestan þátt í að varsla og þróa kerfið á undanförnum áratugum. Á þessum grunni skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp um gerð grænbókar fyrir lífeyriskerfið á liðnu ári og ég vænti þess að grænbókin verði lögð fram síðar á þessu ári. Ég hef jafnframt væntingar um að grænbókin verði traustur grunnur að uppbyggilegu samtali um framtíðar stefnumörkun og áframhaldandi vinnu við að bæta og styrkja umgjörð lífeyrissjóðskerfisins sem grundvallarstoð í velferð og afkomuöryggi landsmanna. Og er það von mín að sú framsýni, forsjálni og samtryggingarhugsjón sem einkennt hefur uppbyggingu lífeyriskerfisins verði áfram í öndvegi.

Þjóðaröryggi: innlend greiðslumiðlun og rýni erlendra fjárfestinga

Líkt og ég minntist á áðan hefur í mörgu tilliti tekist vel til við að endurskipuleggja og styrkja umgjörð efnahagsmála og fjármálastöðugleika á undanförnum árum, bæði hér á landi en einnig alþjóðlega. Verkefnunum lýkur hins vegar aldrei.

Í febrúar síðastliðnum mælti ég fyrir frumvarpi til laga á Alþingi sem hefur það að markmiði að styrkja heimildir Seðlabankans til að tryggja rekstraröryggi og viðnámsþrótt innlendrar greiðslumiðlunar og leggja grunn að því að traust innlend rafræn smágreiðslumiðlun verði sett á fót. Þetta mál á sér langan aðdraganda og mikil greiningarvinna hefur á síðustu árum farið fram á vegum Seðlabankans og stjórnvalda um nauðsynleg skref til að tryggja virka og örugga innlenda greiðslumiðlun. Í mínum huga er um mikilvægt þjóðaröryggismál að ræða. Þá er ég bjartsýn á að aðgerðir Seðlabankans í framhaldinu, verði frumvarpið að lögum, opni leið að aukinni samkeppni í greiðslumiðlun sem verði allt í senn frumkvöðlum í fjármálaþjónustu, verslun og þjónustu og neytendum til hagsbóta.

Í öðru lagi vil ég nefna á að nú í mars mælti ég fyrir frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Líkt og nafnið gefur til kynna snýr frumvarpið að rýni eða faglegri greiningu og mati á því hvort viðskiptaráðstafanir, sem tryggja erlendum aðilum eignaraðild, veruleg áhrif eða yfirráð yfir atvinnufyrirtækjum eða fasteignaréttindum hér á landi, ógni þjóðaröryggi eða allsherjarreglu. Mikilvægt er að hafa í huga að fjárfestingarýni er ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar almennt heldur er markmiðið að ganga úr skugga um að einstakar erlendar fjárfestingar á afmörkuðum samfélagssviðum leiði ekki af sér öryggisógn – það er, að erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum og annarri samfélagslega mikilvægri starfsemi séu í samræmi við þjóðaröryggi. Rík ástæða er til að taka ákveðin skref núna til þess að tryggja grundvallaröryggi og verjast ógnum vegna hugsanlegra fjárfestinga óvinveittra og áhættusamra aðila í grunnkerfum, innviðum og öðrum viðkvæmum samfélagsgeirum. Þau skref sem ég hef lagt til eru í samræmi við alþjóðlega þróun og flest ríki innan EES og OECD hafa sett lög af svipuðum toga. Sé rétt að slíkri löggjöf og framkvæmd staðið getur hún, að mínu mati, jafnframt orðið til þess að auka traust á íslensku fjárfestingarumhverfi til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélagið í heild.

Við Íslendingar vitum að traust erlent samstarfi hvort sem er á sviði viðskipta, menntunar eða menningar getur skipt sköpum fyrir tækifæri okkar og framþróun. Af því höfum við góða reynslu ekki síst í gegnum samstarf EES/EFTA ríkjanna við ESB en á dögunum var 30 ára afmæli EES samningsins minnst á fundi leiðtogaráðs ESB með forsætisráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein. Samstarfið hefur á síðustu þremur áratugum reynst okkur farsælt og þátttaka okkar í innri markaðunum fært okkur efnahagslegar og félagslegar umbætur sem skilað hafa almenningi og atvinnulífinu miklu og áfram mikil tækifæri til að efla það og þróa.

Lokaorð

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka Unni Gunnarsdóttur fyrir hennar störf í þágu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, en hún lét af störfum sem varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits í maí síðastliðnum, og sömuleiðis vil ég þakka Guðrúnu Þorleifsdóttur sem lét af störfum í fjármálaeftirlitsnefnd fyrr á þessu ári.

Þá vil ég þakka bankaráði, stjórnendum og starfsfólki Seðlabankans fyrir góð störf á umliðnu ári og óska ykkur gæfu og velfarnaðar í störfum ykkar framundan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum