Hoppa yfir valmynd
17.07.2024 11:08 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menning glæðir sumarið lífi

Sumarið er tíminn, segir í lagi Bubba Morthens. Það er hægt að heimfæra upp á margs konar hluti í þjóðfélaginu. Fjölskyldur og vinir leggja land undir fót og ferðast um og njóta alls þess stórkostlega sem Ísland hefur að bjóða. Á sumrin vakna margir staðir til lífsins og aflvaki góðrar skemmtunar er oftar en ekki menningartengdir viðburðir af ýmsu tagi sem haldnir eru úti um allt land. Viðburðir sem þessir eru í raun einhvers konar fastar í lífi margra Íslendinga. Tugir bæjarhátíða eru til dæmis haldnir hringinn í kringum landið. Þeim má lýsa sem ákveðnum fjöreggjum samfélaganna þar sem bæjarbúar taka höndum saman allir sem einn við það að gera bæinn sinn í stakk búinn til þess að taka á móti gestum sem gera sér glaðan dag. Brottfluttir snúa aftur og fagnaðarfundir verða þar sem gamlar minningar eru rifjaðar upp frá æskuárunum og yngri kynslóðirnar fá tækifæri til þess að njóta alls þess skemmtilega sem sumarið hefur upp á að bjóða.

Bæjahátíðirnar eru eins konar fjöllistasvið íslenskrar menningar þar sem íslenskir listamenn skemmta fólki á öllum aldri með ýmsum ætti. Íslensk menning er rík og öflug og að henni hefur verið hlúð um aldir. Sumir segja að ríkulegt menningarlíf sé orðið okkur í blóð borið og víða erlendis finnst fólki til dæmis nánast ótrúlegt hversu marga heimsfræga listamenn Íslendingar eiga miðað við að hér búa aðeins um 400.000 manns. Listsköpun er marglaga og það sama á við um hvernig listinni er komið á framfæri. Bæjarhátíðir skipta ekki aðeins samfélög um allt land miklu máli, heldur eru þær einnig góður vettvangur til þess að gefa upprennandi listamönnum tækifæri til þess að láta ljós sitt skína. Umfram allt gefa hátíðir sem þessar landsmönnum tækifæri til þess að kynnast landinu sínu betur og njóta lífsins í faðmi fegurðar landsins. Bæjarhátíðir kenndar við Frakkland, Írland, goslok eða jafnvel eina með öllu; allir ættu að geta fundið eitthvað við hæfi enda er fjölbreytnin mikil. Íslensk menning er þannig sterkt sameiningafl á sumrin sem bindur fólk böndum og skapar eftirminnilegar minningar sem lifa út lífið. Verum virk og tökum þátt í öllu því skemmtilega sem menningarsumarið 2024 hefur upp á að bjóða og njótum samvistanna við fjölskyldu og vini.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum