Hoppa yfir valmynd
19.10.2024 11:18 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stærsta hagsmunamálið

Það er ábyrgðahluti að sitja í ríkisstjórn Íslands. Á undanförnum árum höfum við í Framsókn einbeitt okkur að því að horfa fram á veginn, vera á skóflunni og vinna vinnuna í þágu íslenskra hagsmuna. Við höfum haldið okkur fyrir utan reglulegt hnútukast milli annarra stjórnmálaflokka og reynt að einblína frekar á verkefnin og finna á þeim hagfelldar lausnir fyrir land og þjóð.

Ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur á ýmsum sviðum þjóðlífsins á undanförnum árum. Margt hefur áunnist þótt það séu fjölmörg tækifæri til þess að gera betur. Þannig er gangur lífsins.

Lægri verðbólga og lækkun vaxta eru stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja um þessar mundir. Það voru jákvæð tíðindi þegar Seðlabankinn lækkaði vexti nú í byrjun mánaðar. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Lykilatriði á næstu vikum er að tryggja að atburðarásin á næstunni verði ekki til þess að tefja vaxtalækkunarferlið. Framsókn mun ekki láta sitt eftir liggja í þinginu til að tryggja að skynsamleg fjárlög verði samþykkt, líkt og boðað er í því fjárlagafrumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðherra hafði mælt fyrir fyrr í haust. Leiðarljós þess eru að ná niður verðbólgu og bæta þannig kjör heimila og fyrirtækja. Það er skoðun okkar að traust samspil peningastefnu Seðlabanka Íslands, opinberra fjármála og aðila vinnumarkaðarins sé lykilforsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta. Í þágu þessa þarf forgangsröðun í opinberum fjármálum sem kallast á við aðgerðir stjórnvalda í þágu langtímakjarasamninga á vinnumarkaði, sem snúa að því að fjárfesta í fólki.

Það eru áhugaverðir tímar í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Það er skylda okkar sem störfum á þeim vettvangi að takast á við stöðuna af ábyrgð og festu enda er til mikils að vinna að ná mjúkri lendingu í hagkerfinu. Það er heiður að starfa í umboði kjósenda landsins og vinna í þágu íslenskra hagsmuna. Í komandi kosningum munu flokkarnir óska eftir endurnýjuðu umboði til þess að sitja á Alþingi Íslendinga. Við í Framsókn erum klár í bátana og vélarnar hafa verið ræstar, tilbúin til að leggja okkur öll áfram fram til þess að gera samfélagið betra en það var í gær.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta