Hoppa yfir valmynd
29.10.2024 11:21 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Á skóflunni

Framsókn kynnti lista sína um allt land um liðna helgi. Þá skipar öflugt og vinnusamt fólk með mikla reynslu og ólíkan bakgrunn sem vill láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá nýtt fólk bætast í hópinn og efla flokkinn enn frekar, en mikil ásókn var í að komast á lista flokksins fyrir komandi kosningar til að veita samvinnustefnunni brautargengi.

Það er heiður að fá að starfa fyrir Ísland á þessum vettvangi, en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Í 108 ár hefur Framsókn, elsti stjórnmálaflokkur landsins, lagt sitt af mörkum við að stýra landinu og auka hér lífsgæði. Það er ekki sjálfgefið að stjórnmálaafl nái svo háum aldri. Að baki honum liggur þrotlaus vinna grasrótar og kjörinna fulltrúa flokksins í gegnum áratugina, sem hafa haldið stefnu flokksins á lofti. Kosningar eftir kosningar hafa kjósendur treyst flokknum til góðra verka fyrir land og þjóð, enda þekkir þjóðin Framsókn og Framsókn þekkir þjóðina.

Í því meirihlutasamstarfi sem liðið er einblíndi flokkurinn á verkefnin sem voru fram undan frekar en að taka þátt í opinberum erjum milli annarra flokka. Fyrir komandi kosningar munum við halda áfram að tala fyrir þeim brýnu verkefnum sem vinna þarf að á næstu misserum, enda skipta þau máli fyrir þjóðina. Þar ber fyrst að nefna lækkun verðbólgu og vaxta, sem er stærsta einstaka hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Það voru jákvæð teikn á lofti er Seðlabankinn lækkaði stýrivexti með síðustu ákvörðun sinni. Algjört grundvallarmál er að búa svo um hnútana að sú þróun haldi áfram en verði ekki tafin vegna einhverra loftfimleika í stjórnmálunum. Samþykkt ábyrgra fjárlaga, líkt og þeirra sem liggja fyrir þinginu, er lykilatriði. Í þeim er ráðist í aukna forgangsröðun í opinberum fjármálum sem kallast á við aðgerðir stjórnvalda í þágu langtímakjarasamninga á vinnumarkaði. Á sama tíma og unnið er að því að ná auknu jafnvægi í rekstri ríkisins með hallalausum rekstri og að skuldahlutföll verði lækkuð enn frekar verður að tryggja að hið opinbera geti áfram fjárfest í fólki og innviðum um allt land með ábyrgum og skynsamlegum hætti.

Nú þegar 32 dagar eru til kosninga liggur fyrir að mikið líf á eftir að færast í leikinn. Það skemmtilegasta við stjórnmálin er samtalið við kjósendur í landinu um verk okkar og framtíðarsýn. Margt gott hefur áunnist á undanförnum árum, og ýmis tækifæri eru til þess að gera betur. Þannig er gangur lífsins. Við höfum ekki veigrað okkur við því að vera á skóflunni og vinna vinnuna af fullum krafti til þess að bæta samfélagið okkar, enda eiga stjórnmál að snúast um það. Við í Framsókn erum klár í bátana og hlökkum til komandi vikna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta