Hoppa yfir valmynd
02.11.2024 11:32 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hagvöxtur, lækkun skulda og húsnæðismarkaðurinn

eimshagkerfið hefur sýnt umtalsverðan viðnámsþrótt, þrátt fyrir óvenjumikla áraun síðustu ár. Fremst ber þar að nefna farsótt og stríðsrekstur í Evrópu. Því til viðbótar hafa vaxandi viðskiptadeilur á milli stærstu efnahagskerfanna markað mikil umskipti á gangverki heimsviðskipta. Ísland er að mörgu leyti í góðri stöðu. Mikill hagvöxtur, hátt atvinnustig, sterk erlend staða þjóðarbúsins og verðbólgan fer nú lækkandi. Stærsta viðfangsefni hagstjórnarinnar á næstunni verður að lækka hinn háa fjármagnskostnað sem hefur verið einkennandi fyrir íslenska hagkerfið. Forsendur eru að skapast fyrir lækkun vaxta og þar af leiðandi fjármagnskostnaðar vegna aukins sparnaðar. Mikilvægt er að hagstjórnin styðji við áframhaldandi hagvöxt, lækkun skulda og að ná mun betri tökum á húsnæðismarkaðnum.

Hagvöxtur forsenda velferðar

Hagvöxtur er viðvarandi aukning efnahagslegrar hagsældar sem mæld er í heildarframleiðslu á vörum og þjónustu í hagkerfinu. Hagvöxtur skiptir miklu máli til að auka velferð þjóða. Hagvöxtur á Íslandi hefur á síðustu áratugum verið þróttmikill og atvinnuleysi lítið. Hagvöxtur síðustu fimm ár hefur að meðaltali verið rúm 2,5% og fjöldi nýrra starfa hefur orðið til á öllum sviðum samfélagsins. Til samanburðar hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum verið 2% og á evrusvæðinu 1%. Flest ríki vilja vera í stöðu Íslands, þar sem hagvaxtarhorfur eru góðar. Lykillinn að slíku umhverfi er að samkeppnisstaða atvinnulífsins sé sterk og umgjörðin traust og fyrirsjáanleg. Framsókn horfir til þess að auka tekjuöflun ríkisins með auknum vexti og verðmætasköpun fremur en með aukinni skattheimtu á fólk og fyrirtæki. Horfa þarf til þess að fjölga enn stoðum hagkerfisins, en á undanförnum áratugum hefur þeim fjölgað úr einni í fjórar. Það þarf áfram að horfa til skapandi greina og hugvits til að tryggja vaxandi hagsæld. Í því samhengi skiptir meðal annars sköpum að fyrirsjáanleg, fjármögnuð og skilvirk hvatakerfi til aukinnar verðmætasköpunar verði fest í sessi og má þar nefna endurgreiðslur vegna rannsókna, þróunar og kvikmyndagerðar. Það er þó ekki síður mikilvægt að styðja áfram vöxt þeirra atvinnugreina sem fyrir eru, enda hafa þær lagt grunninn að einum bestu lífskjörum meðal ríkja heims. Stærð og gerð hagkerfisins gerir það að verkum að utanríkisviðskipti eru afar mikilvæg og tryggja þarf samkeppnishæfni atvinnuveganna í samanburði við helstu viðskiptalönd. Áhersla skal lögð á virka þátttöku í alþjóðastofnunum og að rækta sambönd við nágrannalöndin beggja vegna Atlantsála.

Áframhaldandi lækkun skulda

Framsókn hefur lagt mikla áherslu á lækkun skulda ríkissjóðs og ber aðhaldssamt fjárlagafrumvarp þess merki. Ein stór breyta í því að lækka verðbólgu er að ríkisfjármálin styðji við peningastefnu, en það er kjarninn í svokallaðri ríkisfjármálakenningu, sem gengur út á að verðþróun hagkerfisins ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefna, þar með talið útgjalda- og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs, sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bills Clintons í Bandaríkjunum, en þar var slagorðið: „Minni fjárlagahalli býr til störf“! Á þeim tíma lækkuðu skuldir verulega og fóru niður í 30% af vergri landsframleiðslu (VLF), sem leiddi til þess að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Skuldir ríkissjóðs Íslands mælast nú einmitt 30% af VLF, hafa lækkað á undanförum árum og eru lágar í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar er fjármagnskostnaður ríkissjóðs áfram hár og það er lykilatriði að hann lækki til að hægt sé að styðja enn frekar við heilbrigðis- og menntakerfið. Við útfærslu á þeirri vegferð þarf að tryggja að hið opinbera geti áfram fjárfest í fólki og innviðum um allt land með ábyrgum og skynsamlegum hætti. Viðfangsefnið fram undan er að lækka fjármagnskostnað ríkis, heimila og fyrirtækja. Lækkandi verðbólga og stýrivextir skipta þar sköpum en horfa þarf til fleiri þátta í þeim efnum. Framsókn leggur áherslu á að skuldahlutföll verði lækkuð enn frekar til framtíðar ásamt því að markvisst verði unnið að því að bæta lánshæfi ríkissjóðs. Þá þarf til að horfa til kerfisbreytinga sem gera kleift að lækka fjármagnskostnað.

Húsnæðismarkaðurinn er eitt stærsta efnahagsmálið

Mikið hefur verið byggt á undanförnum árum og aldrei hefur hlutfall þeirra sem eiga eigið húsnæði verið hærra. Vegna mikilla umsvifa í hagkerfinu hefur húsnæðismarkaðurinn hins vegar ekki náð að anna eftirspurninni. Þessi skortur hefur leitt til verulegrar hækkunar á húsnæðisverði og leigu, sem hefur haft áhrif á lífskjör almennings og stöðugleika á húsnæðismarkaði ásamt því að verðbólgan hefur mælst hærri en ella. Þetta er stórmál í efnahagsstjórninni og þarf að ná enn betur utan um. Farsælasta leiðin er að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, mæti þessari eftirspurnin sameiginlega, auki lóðaframboð verulega og stuðli að hagkvæmu regluverki á húsnæðismarkaði. Aukið lóðaframboð dregur úr verðhækkunum á húsnæði og yngra fólk á auðveldara með að komast inn á markaðinn. Einnig hefur það jákvæð áhrif á hagvöxt, þar sem byggingariðnaðurinn skapar fjölda starfa ásamt því að koma meira jafnvægi á húsnæðismarkaðinn. Fyrr á þessu ári var samþykkt frumvarp mitt um að draga verulega úr framboði íbúða í heimagistingu (Airbnb) án þess að gengið yrði á eignarétt fólksins í landinu. En þrátt fyrir að aldrei í Íslandssögunni hafi verið byggt meira en á árunum 2019-2024 þarf að byggja meira. Framsókn leggur mikla áherslu á að tryggt verði nægt magn af byggingarhæfum lóðum til hraðrar uppbyggingar og þarf að setja enn meiri kraft í samstarf ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum til að auka framboðið.

Þar skiptir höfuðmáli að stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi öll getu til að taka þátt í þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Það þarf að stíga varleg skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum með lækkandi vöxtum, sérstaklega með fyrstu kaupendur í huga, en hátt vaxtastig og tregleiki á fasteignamarkaði vegna lánþegaskilyrða getur dregið úr framkvæmdarvilja. Síðast en ekki síst þarf að halda áfram að styðja áfram við þau úrræði sem stjórnvöld hafa komið fram með á síðustu árum, s.s. almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlánakerfið.

Við erum að ná árangri

Í nýjustu verðbólgumælingu Hagstofunnar lækkaði verðbólgan niður í 5,1%, það lægsta í 3 ár. Dregið hefur úr hækkun á húsnæði en verðbólga án húsnæðis mælist 2,8% annan mánuðinn í röð. Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans til lækkunar var jákvætt skref og endurspeglar að þær aðgerðir sem við höfum gripið til í ríkisfjármálunum og þeir langtímakjarasamningar sem gerðir voru á vinnumarkaði eru að skila sér. Viðfangsefnið fram undan er að tryggja að þessi þróun haldi áfram, enda er lækkun verðbólgu og vaxta stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu. Við erum að ná árangri og við hvikum hvergi frá því verkefni að ná enn frekari árangri í þessum efnum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta