Ávarp á málþingi Vegagerðarinnar um samvinnuverkefni
Ávarp flutt á málþingi Vegagerðarinnar „Samtal um samvinnuverkefni“ mið. 7. maí 2025
Kæru fundargestir.
Það er ánægjulegt að standa hér í dag og ávarpa málþing um samvinnuverkefni.
Samvinnuverkefni eða public private partnership (ppp) gegna sífellt stærra hlutverki á heimsvísu til að byggja upp öflugt, sjálfbært og nútímalegt samfélag.
Samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir eru mér hugleikin þar sem ég tel að samvinnuverkefni sé eitt af þeim mikilvægu verkfærum sem íslenskt samfélag getur notað til að byggja upp samgöngukerfi landsins og skapa þannig öflugt samfélag.
Við stöndum frammi fyrir áskorunum sem krefjast nýrra lausna á sviði innviðabyggingar og til þess að mæta þessum áskorunum þarf frumkvæði, sveigjanleika og nýja fjárfestingamöguleika. Í sífellt flóknari heimi þarf einnig að takast á við loftslagsbreytingar, fólksfjölgun og tæknibreytingar.
Allt kallar þetta á hraða og skýra stefnumótun.
Samvinnuverkefni snúast um samstarf hins opinbera og einkaaðila. Það snýst um að hið opinbera og einkaaðilar sameini krafta sína. Hið opinbera mótar framtíðarsýnina, setur reglur og tryggir jöfn tækifæri. Með því að virkja krafta atvinnulífsins, nýta þekkingu, reynslu og fá fjármagn frá einkaaðilum er hægt að ná miklu meiri árangri í samgönguframkvæmdum og koma skriði á framkvæmdir á Íslandi með hagkvæmari hætti.
Það kemur fram í stefnu ríkisstjórnarinnar að lögð er áhersla á að auka fjárfestingu í samgöngum og hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt. Ég tel því til mikils að vinna að hið opinbera og einkaaðilar vinni sameiginlega að því efla samgöngur og innviði á Íslandi.
Samgöngur eru lífæð íslensk samfélags og innviðir verða að mæta þörfum almennings og atvinnulífs. Það er framtíðarsýn mín að Ísland verði í fremstu röð með traustar og öruggar samgöngur.
Góð samvinnuverkefni byggja á trausti, gagnsæi og sameiginlegri ábyrgð. Markmið samvinnuverkefna er að skapa samfélagsleg verðmæti og bæta lífsgæði fólks.
Við eigum til góð dæmi um samvinnuverkefni og viljum byggja á þeim grunni sem við höfum til að standa vel að framtíðarverkefnum. Við þekkjum öll hvernig Hvalfjarðargöng voru byggð en það var fyrsta stórverkefni sinnar tegundar hér á landi sem byggði á samvinnuverkefnalíkani. Hvalfjarðargöngin gegna lykilhlutverki í því að tengja höfuðborgarsvæðið við Vesturland og voru liður í að efla uppbyggingu Vesturlands.
Síðan þá hafa tvö verkefni verið unnin í anda samvinnuverkefnis en það er bygging Ölfusárbrúar og hringvegurinn við Hornafjörð. Gert er ráð fyrir að Hornafjarðarbrú verði opnuð í lok þessa árs og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist við Ölfusárbrú á næstu dögum. Þegar höft verða sprengd við árbakkan vestan megin.
Það liggur fyrir að Sundabraut verður unnin sem samvinnuverkefni en hún er ein af stærstu og mikilvægustu samgönguframkvæmdum höfuðborgarsvæðisins og mun bæta umferðarflæði og létta álagi á aðrar leiðir.
Framkvæmdin verður ein sú viðamesta sem hefur verið farið í og kostnaður við framkvæmdina mun verða yfir 100 milljarða króna. Með því að framkvæma verkið sem samvinnuverkefni mun verkið fara fyrr af stað þar sem ríkið mun ekki eitt bera fjárhagslegu áhættuna af verkinu og rekstur og viðhald Sundabrautar verður tryggt til langs tíma.
Kæru fundargestir.
Samvinnuverkefni eru ekki einkamál hins opinbera heldur sameiginlegt verkefni okkar allra og með góðri samvinnu getum við náð lengra – til hagsbóta fyrir landsmenn og komandi kynslóðir.
Það þarf hugrekki og skýra framtíðarsýn til að vinna að samvinnuverkefni sem er unnið þvert á kerfi og hefðir. Markmið samvinnuverkefnis þarf að vera skýrt og það þarf að vera ljóst að samvinnan eigi að þjóna almannahagsmunum.
Ég hlakka til áframhaldandi samtals um samvinnuverkefni og þess að sjá fleiri spennandi samgönguverkefni verða að veruleika á næstu árum.