Hoppa yfir valmynd
08.05.2025 10:28 Innviðaráðuneytið

Ávarp á ársfundi Byggðastofnunar 2025

Ávarp flutt á ársfundi Byggðastofnunar á Breiðdalsvík fim. 8. maí 2025

Komið þið öll blessuð og sæl. Ég hef því miður ekki kost á því að vera með ykkur í dag, en er þess fullviss að Breiðdalsvík tekur vel á móti ykkur og þið eigið þar góðan dag.

Ég tók við embætti ráðherra í desember og ég viðurkenni að það gladdi mig sérstaklega að fá tækifæri til að vera ráðherra byggðamála, en sá málaflokkur hefur ávallt staðið hjarta mínu nær.

Byggðamál snerta flesta, ef ekki alla, málaflokka ríkisins. Byggðaáætlun er því mikilvæg stefnumörkun ráðherra og Alþingis um hvert skal stefna. Það er ánægjulegt að finna hve breitt eignarhald er á byggðaáætlun og hve vel það hefur tekist að hrinda aðgerðum hennar í framkvæmd. Í skýrslu sem ég lagði nýverið fyrir Alþingi um framvindu byggðaáætlunar koma fram upplýsingar um stöðu allra aðgerða hennar. Aðgerðirnar eru 44 og eru þær allar komnar til framkvæmda og er níu aðgerðum þegar lokið. Lögum samkvæmt ber ráðherra að leggja fram á Alþingi á hverju kjörtímabili tillögu um byggðastefnu til 15 ára, ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Núgildandi aðgerðaáætlun nær yfir tímabilið 2022-2026. Það er því komið að því að hefja undirbúning að endurskoðun og mun ég leggja áherslu á að víðtækt samráð verði viðhaft við þá vinnu sem verður unnin undir forystu ráðuneytisins í nánu samstarfi við Byggðastofnun.

Eins og þið vitið þá hefur ríkisstjórnin metnaðarfull áform um að ná tökum á ríkisfjármálunum og skapa þannig skilyrði fyrir lækkun vaxta, ekki síst með stöðvun hallareksturs.  Þar er verk að vinna og margt sem bendir til þess að það sé jafnvel erfiðara en áður var talið. Það er stór og mikilvæg áskorun að fara betur með ríkisfé en verið hefur.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum er einnig kveðið á um að treysta eigi stoðir hinna dreifðu byggða. Það er því mikilvægt nú þegar unnið er með hagræðingatillögur í ríkisrekstri að byggðasjónarmiðum sé haldið á lofti. Þannig mun ég leggja mig fram við að minna á mikilvægi þess að við höfum uppi byggðagleraugun við útfærslu tillagnanna. Jafnframt vil ég hvetja ykkur, ágætu ársfundargestir, að hafa aðhald á ríkisstjórn og Alþingi í þeirri umræðu sem fram undan er um þessi mál.

Þess má líka geta hér að Byggðastofnun hefur sent mér minnisblað þar sem stofnunin varar við þeirri tillögu hagræðingahópsins að allar minni stofnanir landsins verði sameinaðar öðrum og telja að mörg rök falli gegn þeirri hugmynd – ekki hvað síst þegar kemur að byggðafestu á landsbyggðinni. Ég get að mörgu leyti skilið þær áhyggjur, enda fá byggðalög utan vinnusóknasvæðis Reykjavíkur sem hafa bolmagn til að manna stofnanir með fleiri en 50 starfmönnum. Það þarf því að ígrunda vel allar sameiningar  og mun ég leggja mitt að mörkum til að gæta þess að aðgerðir til hagræðingar dragi ekki úr getu samfélaga til að viðhalda traustri búsetu og þjónustu við íbúa og atvinnulíf. Hvað Byggðastofnun varðar sérstaklega þá hef ég mikinn metnað fyrir hennar hönd og hef augun opin fyrir hugmyndum um eflingu stofnunarinnar og tel að hún sé vel í stakk búin til að taka við nýjum og veigamiklum verkefnum.  Nú þegar er hlutfall ríkisstarfa á höfuðborgarsvæðinu 70% en þar býr 64% íbúa. Við verðum að tryggja að hagræðingaaðgerðir lækki ekki enn frekar hlutfall ríkisstarfa á landsbyggðinni.

Í þessu samhengi langar mig að nefna aðgerð byggðaáætlunar sem snýr að óstaðbundnum störfum. Þar er skýrt kveðið á um að ríkisstörf eigi ekki að vera bundin við tiltekna staði, nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Þannig á búseta ekki að hafa áhrif við ráðningar. Hér má segja að ríkið sé í dauðafæri að auka byggðafestu og stuðla að búsetufrelsi með því að tryggja innleiðingu stefnu um óstaðbundin störf. Mörgum störfum er hægt að sinna hvar sem er á landinu. Sem samfélag eigum við enn nokkuð í land með að framfylgja þessari stefnu – en þessi aðgerð getur skipt sköpum við að fjölga ríkisstörfum á landsbyggðinni. Síðastliðið haust var opnað fyrir styrki úr byggðaáætlun til ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að fjölga störfum á landsbyggðinni. Nú þegar hafa verið veittir tíu styrkir og þar með hafa tíu störf verið flutt frá höfuðborgarsvæðinu út á land.

Þessi aðgerð hefur vakið mikla athygli í Noregi og í síðasta mánuði gerði heil deild úr norska byggðamálaráðuneytinu sér ferð til Íslands til að kynna sér hana sérstaka.

Mér gafst tækifæri til að hitta Norðmennina og áttum við gott og gagnlegt spjall. Þar ræddum við líka svokallaða „byggðavísitölu“ Norðmanna sem er áhugavert stjórntæki. Ég veit að Byggðastofnun er langt komin með hönnun byggðavísitölu fyrir Ísland og skilst að hún hafi verið til umfjöllunar á fundi starfsfólks Byggðastofnunar og landshlutasamtaka fyrr í dag. Ég hlakka til að fá kynningu á því verkefni og bind vonir við að tölfræðilegir mælikvarðar sem byggja á upplýsingum um landfræðilega legu, lýðfræðilega þætti og efnahagslegar og félagslegar aðstæður verði notaðir til að leggja mat á stöðu svæða. Ég sé fyrir mér að slík byggðavísitala verði gefin út reglulega og geti nýst sem árangursmælikvarði og við mat á sértækum byggðaaðgerðum.

Rannsóknir, gagnasöfnun og gagnamiðlun – sem byggðavísitala hvílir á – er einmitt einn af mikilvægustu þáttum í starfsemi Byggðastofnunar. Stofnunin hefur sinnt því hlutverki afar vel og á vef hennar er að finna gríðarlega mikið magn af upplýsingum sem settar eru fram með myndrænum hætti og auka þannig þekkingu og vitund almennings um byggðaþróun. Þessi þekkingargrunnur er grundvöllur vandaðrar stefnumótunar og ákvarðanatöku í byggðamálum. Ég vil því hvetja stofnunina til dáða í áframhaldandi þekkingaröflun og framsetningu upplýsinga og jafnframt hvetja þá sem vinna að stefnumótun að kynna sér vel fyrirliggjandi upplýsingar.

Annað mikilvægt hlutverk sem stofnuninni er falið er aflamarkið sem hefur það að markmiði að styðja byggðalög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.  Aflamark Byggðastofnunar hefur reynst mikilvægur þáttur í að efla og viðhalda byggðafestu í mörgum minnstu sjávarbyggðum landsins. Ég hef upplýsingar um að verkefnið hafi viðhaldið um 400 störfum við veiðar og vinnslu á undanförnum árum – störfum sem ólíklegt er að þar væri ella að finna. Það er því afar mikilvægt að treysta aflamarkið í sessi, m.a. með nægum aflaheimildum.

Sóknaráætlanir landshluta er enn eitt verkefnið sem Byggðastofnun er falin umsýsla með og gerir afar vel. Eftir því sem ég kynnist betur því verkfæri sem sóknaráætlanir eru því betur sé ég hve öflugt tæki til byggðaþróunar það er. Það var því verulega ánægjuleg stund þegar við þrír ráðherrar, ásamt fulltrúum frá öllum landshlutasamtökunum sveitarfélaga, komum saman í Norræna húsinu í Reykjavík í lok janúar og undirrituðum nýja sóknaráætlanasamninga. En auk innviðaráðuneytis leggja  menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fjárframlög til samninganna. Ég bind vonir við að fleiri ráðuneyti muni bætast í hópinn áður en langt um líður og hef ásamt félögum mínum, þeim Loga Einarssyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni, undirbúið minnisblað sem ég vona að fari fyrir ríkisstjórn á næstu dögum þar sem ráðherrar eru hvattir til að skoða beina aðkomu að sóknaráætlunum landshluta með fjárframlögum til verkefna á þeirra málefnasviði.

Það er líka gaman að geta sagt frá því að sóknaráætlanir hafa vakið athygli út fyrir landssteinana og hefur OECD t.d. ítrekað leitað í smiðju sóknaráætlana í tengslum við fyrirmyndir um samninga á milli stjórnsýslustiga.

Mig langar að nota tækifærið og nefna eitt af þingmálum mínum – þ.e. frumvarp að nýjum heildarlögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ég mælti nýlega fyrir á Alþingi. Sveitarstjórnarstigið á Íslandi er öflugt. En það gæti verið mun öflugra. Það er mín skoðun að sveitarfélögin þurfi að vera stærri og öflugri til að geta sinnt hlutverki sínu og auknum kröfum um þjónustu.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Þannig er stuðlað að því að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

Markmiðið með breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs er að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr sjóðnum, einfalda skipulag hans og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar. Ég tel nauðsynlegt að sjóðurinn þróist í takt við viðamiklar breytingar sem hafa orðið á sveitarstjórnarstiginu á liðnum árum. Frá árinu 1990 hefur sveitarfélögum fækkað úr 204 í 62 og á sama tíma hafa þau tekið við veigamiklum nýjum verkefnum, t.d. við yfirfærslu grunnskólans og málefna fatlaðs fólks. Þrátt fyrir þetta hefur regluverk sjóðsins lítið breyst. Skyldur sveitarfélaga gagnvart íbúum hvíla á sveitarfélögunum óháð stærð þeirra og staðsetningu. Markviss jöfnun er forsenda þess að öll sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúa og skapar skilyrði fyrir að jafna lífsgæði um landið.

Ágætu fundargestir.

Lögum samkvæmt ber ráðherra að skipa stjórn Byggðastofnunar á ársfundi stofnunarinnar, sjö aðalmenn og sjö til vara. Ný stjórn Byggðastofnunar er þannig skipuð:

Aðalmenn:

  • Halldór Gunnar Ólafsson, Skagaströnd - formaður
  • Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson, Höfn – varaformaður
  • Steindór Runiberg Haraldsson, Skagaströnd
  • Ingunn Heiða Ingimarsdóttir, Egilsstöðum
  • Haraldur Benediktsson, Akranesi
  • Heiðbrá Ólafsdóttir, Rangárþingi eystra
  • Margrét Sanders, Reykjanesbæ

Varamenn:

  • Guðrún Helga Bjarnadóttir, Reykjavík
  • Hafþór Guðmundsson, Þingeyri
  • Kjartan Páll Þórarinsson, Húsavík
  • Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir, Akureyri
  • Sigríður Framdalz Ólafsdóttir, Hvammstanga
  • Unnar Hermannsson, Garðabæ
  • Arnar Þór Sævarsson, Reykjavík

Ég óska nýrri stjórn til hamingju og óska þeim góðs gengis í störfum sínum fyrir þessa mikilvægu stofnun. Jafnframt þakka ég þeim sem nú fara úr stjórn fyrir vel unnin störf.

Síðast en ekki síst vil ég þakka starfsfólki Byggðastofnunar fyrir vel unnin störf og góð viðkynni. Ég hlakka svo sannarlega til áframhaldandi samstarfs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta