Hoppa yfir valmynd
25. mars 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Umfangsmikil aukning í fjárfestingu í stafrænum innviðum

Umfangsmikil aukning fjárfestingar í tækni, stafrænum lausnum og betri upplýsingakerfum í þágu einstaklinga og fyrirtækja var í dag samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna. Aukningin er hluti af 15 ma. kr. fjárfestingaátaki sem kynnt var um liðna helgi og er liður í viðamiklum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kórónaveirunnar. Alls verða framlög aukin um 1.350 m.kr. á árinu 2020 til verkefna á sviði nýsköpunar, upplýsingatækni, netöryggis og stafrænnar þjónustu, samkvæmt þingsályktun fjármála- og efnahagsráðherra sem rædd verður á Alþingi nú í vikunni.

Markmið fjárfestingarverkefnanna er að leysa úr læðingi fjölda nýrra tækifæra sem felast í notkun stafrænna lausna og auka með því afköst einstaklinga, fyrirtækja og stofnana með tilheyrandi tímasparnaði og framleiðniaukningu. Áætla má að þjóðhagslegur ávinningur sem hlýst af tímasparnaði, styttri málsmeðferð og jákvæðum umhverfisáhrifum vegna lægri prent- og sendingarkostnaðar geti numið allt að 30 ma. kr.á ári næstu fimm árin.

Stafrænar umsóknir um vegabréf og fæðingarorlof

Aukin stafvæðing þjónustu við almenning verður í forgrunni en til stendur að hraða um 400-500 þjónustuferlum sem m.a. snúa að leyfisveitingum fyrirtækja, fjölskyldu- og forræðismálum hjá sýslumönnum, rafrænum þinglýsingum og stafrænum umsóknum um vegabréf og fæðingarorlof. Sérstök áhersla verður á heilbrigðismál, m.a. með átaksverkefni til stuðnings nýskapandi lausnum í heilbrigðisþjónustu. Þá verður unnið að áframhaldandi þróun sjúkraskrárkerfis, m.a. til að ná betur utan um biðlista og samskipti við almenning. Einnig verður unnið að endurnýjun upplýsingatæknikerfa og eflingu tækniinnviða hins opinbera. Miðað er við að verkefnin, sem fjármögnuð eru í þessu sérstaka fjárfestingarátaki, hefjist í síðasta lagi í september og verði lokið næsta vor.

Fjárfest í opnum hugbúnaði í samstarfi við atvinnulífið

Við hröðun fjárfestinga í þróun stafrænnar þjónustu hins opinbera verður lögð áhersla á áframhaldandi þróun Ísland.is sem miðlægrar þjónustugáttar. Markmið stjórnvalda er að Ísland komist í fremstu röð í framboði á stafrænni þjónustu á næstu þremur árum. Með aukinni notkun opins hugbúnaðar er stuðlað að frekari nýsköpun, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Áætlað er að fjárfesting stjórnvalda í stafrænum innviðum geti skapað 140-170 ársverk í upplýsingatækni og tengdum greinum. Þar af munu um 60-70 störf skapast á þessu ári og allt að 100 störf á árinu 2021.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum