Hoppa yfir valmynd
31.03.2020 19:30 Dómsmálaráðuneytið

Breytt mat Útlendingastofnunar vegna COVID-19

Ljóst er að útbreiðsla Covid-19 veirunnar hefur mikil áhrif á málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Á undanförnum vikum hafa flest Evrópuríki sett á ferðatakmarkanir og mörg hver lokað tímabundið fyrir endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá er fyrirséð að sum ríki munu þurfa kljást við efnahagslegar afleiðingar faraldursins auk áhrifa hans á innviði þeirra.

Með hliðsjón af þessu fordæmalausa ástandi hefur Útlendingastofnun tilkynnt ráðuneytinu að stofnunin muni tímabundið aðlaga mat sitt á því hvort taka beri Dyflinnar- og verndarmál (mál þar sem umsækjandi hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki) til efnismeðferðar, að virtum þessum sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi. Matið verður reist á því hvort gera megi ráð fyrir annars vegar að mál falli á tímafresti vegna ferðatakmarkana og hins vegar hvort áhrif Covid-19 á innviði ríkis verði slík að endurskoða þurfi einstaklingsbundið mat á aðstæðum í viðkomandi ríki þegar ferðatakmörkunum verður aflétt.

Markmiðið með breyttu mati Útlendingastofnunar er fyrst og fremst að taka tillit til þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur á málaflokkinn. Þannig verður tryggt að umsækjendur sem eiga rétt á vernd dvelji ekki í móttökukerfinu of lengi áður en mál þeirra verða tekin til efnismeðferðar. Þá mun breytt mat draga úr óvissu umsækjenda, ekki síst barna, sem bíða nú í kerfinu og minnka kostnað við langan málsmeðferðar- og dvalartíma þeirra.

Umrædd breyting mun óhjákvæmilega leiða til þess að nokkur fjöldi umsækjenda í Dyflinnar- og verndarmálum munu fá efnismeðferð hér á landi. Þá hefur Útlendingastofnun til skoðunar að afturkalla þau Dyflinnar- og verndarmál sem hafa þegar fengið synjun á efnismeðferð hér á landi og eru í vinnslu hjá kærunefnd útlendingamála.

Ekki er að svo stöddu hægt að fullyrða hve mörg mál verða tekin til efnismeðferðar á grundvelli þessa breytta mats Útlendingastofnunar. Þó er ljóst að afleiðing þessa breytta mats verður að mál sem varða viðkvæma hópa, t.d. börn, sem endursenda ætti til Grikklands og Ítalíu á grundvelli verndar þeirra þar í landi, verða tekin til efnismeðferðar á Íslandi. Jafnframt er ekki hægt að fullyrða hversu hátt hlutfall þeirra mála sem tekin verða til efnismeðferðar á grundvelli breytts mats muni fá jákvæða niðurstöðu en gera verður ráð fyrir að það verði nokkuð hátt þar sem töluverður fjöldi hópsins hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki.

Þessi breytta framkvæmd er sem fyrr segir tímabundin og tengist því fordæmalausa ástandi sem nú ríkir vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar.

Dómsmálaráðherra tekur undir með Útlendingastofnun og telur brýnt að bregðast skýrt við aðstæðum sem skapast í málefnum einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd vegna COVID-19. Þar mun nýtt mat Útlendingastofnunar skipta máli til að taka ákveðin mál einstaklinga til efnismeðferðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira