Hoppa yfir valmynd
21.04.2020 12:16 Forsætisráðuneytið

Kvenleiðtogar funda um áhrif COVID-19 á jafnréttismál

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók í gær þátt í fjarfundi kvenleiðtoga um áhrif COVID-19 á jafnréttismál og stöðu kvenna. Að fundinum stóðu Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD). Á þriðja tug kvenna sem vinnur á vettvangi ríkisstjórna, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka tóku þátt í fundinum. Meðal frummælenda voru auk forsætisráðherra, Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women, Sahle-Work Zewde, forseti Eþíópíu, Marta Lucia Ramírez, varaforseti Kólombíu, Helen Dalli yfirmaður jafnréttismála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Tarana Burke aktífisti og stofnandi #MeToo hreyfingarinnar í Bandaríkjunum. Kvenleiðtogarnir sem fundinn sátu voru allar sammála um nauðsyn þess að hvetja ríkisstjórnir og aðra til þess að huga að jafnréttissjónarmiðum í aðgerðum og ákvörðunum í tengslum við samfélags- og efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Það skiptir miklu máli að við séum með kynjasjónarmið að leiðarljósi í viðbrögðum okkar við Covid 19-faraldrinum og tryggjum að þessi kreppa valdi ekki bakslagi í kynjajafnréttismálum. Þess vegna skiptir máli að standa vörð um rétt allra til heilbrigðisþjónustu og berjast með öllum leiðum gegn kynbundnu ofbeldi. Faraldurinn sýnir svo gjörla að ekki aðeins eru það konur sem eru í meirihluta þeirra sem standa vaktina í heilbrigðiskerfum heimsins heldur eru þær einnig líklegri til að sinna ólaunaðri umönnun veikra ættingja. Hér á Íslandi hefur faraldurinn sýnt okkur að við eigum sterkt umhyggjuhagkerfi og það er mikilvægt að standa vörð um það.“

Í ár eru 25 ár liðin frá fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem haldin var í Peking árið 1995. Á ráðstefnunni var samþykkt pólitísk yfirlýsing og framkvæmdaáætlun um réttindi kvenna (Pekingáætlunin), sem m.a. byggist á ákvæðum Kvennasáttmála SÞ frá árinu 1979, um afnám allrar mismununar gegn konum.  Ráðgert var að minnast áfangans með ýmsum hætti í sumar en flestum fundum og ráðstefnum vegna afmælisins hefur verið frestað til ársins 2021.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna
 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira