Hoppa yfir valmynd
5. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Aukinn kraftur í aðgerðir og vitundarvakningu gegn ofbeldi

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra hafa skipað aðgerðateymi til að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi. Á tímum efnahagsþrenginga og áfalla er viðbúið að ofbeldi aukist og í því ljósi hafa stjórnvöld ákveðið að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Eygló Harðardóttir skipa aðgerðateymið og verður Eygló jafnframt starfsmaður verkefnisins.

Aðgerðirnar verða miðaðar sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með talið börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki, sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu en aðrir á að verða fyrir ofbeldi. Verkefni teymisins snúa einkum að:

  • Almennri vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum og heimilisofbeldi.
  • Eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við þolendur ofbeldis.
  • Stuðningi við þróun og framkvæmd annarra verkefna á þessu sviði.

Teyminu er jafnframt falið að fylgja eftir öðrum almennum aðgerðum er lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019-2022, sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2019.

Þá verður lögð áhersla á víðtækt samráð við fagaðila og óskað verður eftir þátttöku fjölda aðila með reynslu og þekkingu á þessu sviði. Þar má nefna Aflið, Akureyrarbæ, Drekaslóð, háskóla landsins, Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaráðgjöfina, Landssamband eldri borgara, Landspítala Háskólasjúkrahús, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök um kvennaathvarf, Sjúkrahúsið á Akureyri, Stígamót, Sýslumannafélag Íslands , W.O.M.E.N, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið.

Aðgerðateymið er skipað til 30. september 2020 og skal teymið skila af sér reglulegum áfangaskýrslum til ráðherra, ásamt lokasamantekt á aðgerðum og árangri af vinnu teymisins.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Á óvissutímum eykst hættan á hvers kyns ofbeldi gagnvart viðkvæmustu hópum samfélagsins, ekki síst gegn börnum sem eru oft þolendur vanrækslu og ofbeldis. Til að ná árangri í baráttunni gegn ofbeldi þurfum við öll að taka höndum saman, hafa augun opin og leita aðstoðar. Þessar aðgerðir og vitundarvakningin snúast um að hvetja okkur öll til að bregðast við ef áhyggjur vakna og minna á að hjálp er til staðar.”

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Með almennri vitundarvakningu og markvissum aðgerðum sendum við áfram skýr skilaboð um að við höfnum öll hvers kyns áreitni og ofbeldi. Á Íslandi líðum við ekki að ofbeldi fái að þrífast innan veggja heimilisins né annars staðar, við höfum gripið til ýmissa aðgerða til þessa en látum ekki staðar numið og fyrirhugaðar aðgerðir munu vonandi skila okkur áframhaldandi árangri í þessari baráttu.”

 

 

 

 

 

  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra - mynd
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum