Hoppa yfir valmynd
13. maí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tækifæri fyrir námsmenn: Aðgerðir stjórnvalda vegna sumarstarfa og sumarnáms

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Aðgerðir stjórnvalda vegna sumarnáms og sumarstarfa voru kynntar á fundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra í Háskólanum í Reykjavík í dag.

„Við viljum tryggja að námsmenn geti nýtt sína krafta á komandi sumri. Íslenskir námsmenn eru stór og fjölbreyttur hópur en það er menntun þeirra og árangur sem leggur grunninn að  framtíðarhagsæld okkar samfélags. Aðgerðir okkar nú miða að því að fjölga valkostum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur sem vilja nýta komandi sumar – til náms eða fjölbreyttra starfa,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

„Við teljum mjög mikilvægt að koma sem flestum námsmönnum í störf þar sem þeir fá bæði reynslu og virkni, ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Samhliða þessum aðgerðum munum við skoða leiðir til að skapa fleiri störf eða grípa til annarra aðgerða, verði þörf á því, en lagt er upp með að við grípum námsmenn með einhvers konar úrræði fyrir miðjan júní,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

Allir háskólar landsins og alls 15 framhaldsskólar hyggjast bjóða upp á sumarnám í sumar. Breiddin í námsframboði þeirra er afar mikil; þar verður bæði að hægt að taka einingarbæra áfanga sem og fjölbreytt námskeið. Sérstök áhersla er á nám sem nýtist sem undirbúningur fyrir háskólanám, námskeið á sviði iðn- og verknáms, valkosti á sviði símenntunar og færnibrýr fyrir atvinnuleitendur sem vilja skipta um starfsvettvang. Boðið verður upp á nám sem tekur frá einni og upp í tíu vikur.

Upplýsingar um námsframboð skóla verður að finna á heimasíðum þeirra en aðsókn mun ráða því hvaða námsframboð verður endanlega í boði. 

2,2 milljarðar kr. í sumarstörf fyrir námsmenn

Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja um 2.2 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til 3.400 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Um er að ræða fjórum sinnum stærra átak en ráðist var í eftir hrunið, sumrin 2010 og 2011.

Átak þetta er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er undirbúningur þegar vel á veg kominn. Sveitarfélögin munu sjálf auglýsa störfin en Vinnumálastofnun mun auglýsa störf á vegum stofnana ríkisins. Störfin verða auglýst opinberlega á næstu dögum og þurfa stofnanir og sveitarfélög að skapa ný störf í tengslum við átakið. Miðað er við ráðningartímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.

Þegar hafa verið staðfest hafa verið 1.709 störf við sveitarfélögin, sem þau geta auglýst strax. Í byrjun næstu viku er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun staðfesti allt að 1.700 störf við stofnanir ríkisins sem verða auglýst í kjölfarið.

Komi í ljós að þessi fjöldi sumarstarfa og annarra úrræða nái ekki til nægilega margra námsmanna verður leitað leiða til að skapa fleiri störf og/eða tryggja aðrar leiðir til framfærslu.

Mikilvægi rannsókna og vísinda

Auk þessa hafa stjórnvöld einnig veitt auka fjármagni til mikilvægra sjóða á sviði rannsókna og vísinda, vegna COVID-19. Framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna hafa hækkað verulega og nema alls 485 milljónum kr. í ár. Þá var 700 milljónum kr. veitt í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð, og 700 milljónum kr. í Tækniþróunarsjóð.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
4. Menntun fyrir öll
8. Góð atvinna og hagvöxtur
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum