Hoppa yfir valmynd
15. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Heimilt að opna sundlaugar og baðstaði 18. maí, með ákveðnum skilyrðum

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að heimila opnun sundlauga og baðstaða 18. maí næstkomandi. Fjöldi sundgesta verður takmarkaður og rík áhersla lögð á hreinlæti og sóttvarnir. Auglýsing sem kveður á um heimildina hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar ásamt ýtarlegum leiðbeiningum sóttvarnalæknis.

Fjöldi gesta verður miðaður við starfsleyfi viðkomandi laugar eða baðstaðar og er reglan sú að gestir mega aldrei vera fleiri en nemur helmingi hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd árið 2015 eða síðar teljast ekki með í gestafjölda.

Heimildin tekur einnig til baðstaða í náttúrunni eftir því sem það á við, sbr. reglugerð umhverfis- og auðlindaráðuneytis um baðstaði í náttúrunni. Líkt og bent er á í leiðbeiningum sóttvarnalæknis er baðvatn á baðstöðum í náttúrunni ekki sótthreinsað líkt og á sund- og baðstöðum og er fólki með undirliggjandi sjúkdóma því ráðlagt að varast slík böð.

Tveggja metra nálægðarmörk gilda ekki á sundlaugarsvæðum en mælst er til þess að fólk taki mið af þeim eins og kostur er.

Upplýsingar um COVID-19 verða felldar inn í fræðslu til allra starfsmanna fund- og baðstaða þar sem fjallað verður um veiruna sem veldur COVID-19 og eftirtalin atriði:

  • Helstu smitleiðir veirunnar á milli manna.
  • Það sem hægt er að gera til að varna því að smit berist á milli manna á sund- og baðstöðum.
  • Fyrstu viðbrögð starfsmanna ef grunur vaknar um smit innan vinnustaðar.
  • Leiðbeiningar um það ferli sem fer í gang þegar upp kemur COVID-19 smit.
  • Leiðbeiningar til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu.
  • Hvar hægt er að finna frekari upplýsingar um COVID-19.

Eins og segir í leiðbeiningum sóttvarnalæknis er áhersla lögð á að hver og einn beri ábyrgð á eigin athöfnum og minnt er á að við erum öll almannavarnir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira