Hoppa yfir valmynd
20.05.2020 17:40 Utanríkisráðuneytið

COVID-19 faraldurinn efst á baugi á fundum utanríkisráðherra með kollegum sínum

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur undanfarna daga átt tvíhliða fundi með kollegum sínum í Króatíu, Grænlandi og Kanada. Einnig ræddi hann í dag við varnarmálaráðherra Norðurhópsins á fjarfundi. Viðbrögð við COVID-19 heimsfaraldrinum og áhrif hans voru efst á baugi á fundunum.

Rætt við utanríkisráðherra Króatíu, Grænlands og Kanada

Utanríkisráðherra átti símafund með Francois-Philippe Champagne, utanríkisráðherra Kanada, þann 11. maí. Þar var COVID-19 faraldurinn til umræðu og samstarf landanna á Norðurslóðum. Ákveðið var að efla enn betur samvinnu landanna á Norðurslóðum, meðal annars á sviði tvíhliða viðskipta.

Utanríkisráðherra átti einnig símafund með Ane Lone Bagger ráðherra mennta-, menningar- og utanríkismála grænlensku heimastjórnarinnar þann 18. maí. Þau ræddu stöðu mála vegna kórónaveirunnar og ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að taka Grænland og Færeyjar af lista þeirra landa sem skilgreind eru sem há-áhættusvæði. Í því felst að frá 15. maí eru engar sóttvarnalegar takmarkanir lengur hér á landi gagnvart þeim sem koma hingað frá Grænlandi eða Færeyjum. Ane Lone fagnaði þessari ákvörðun og sagði ánægjulegt að málin væru að þokast í rétta átt. Grænlenska þingið væri einnig að fjalla um hvernig best sé að aflétta ferðatakmörkunum í skrefum. Ráðherrarnir sammæltust um að vera í góðu sambandi um þróun mála og að samvinna væri mikilvæg í þessum málum til að ferðamennska gæti hafist og hjól efnahagslífsins kæmust aftur í gang. Nauðsynlegt væri samt að fara að öllu með gát.

Utanríkisráðherra átti í gær fjarfund með, Gordan Grlić Radman, utanríkisráðherra Króatíu. Ráðherrarnir ræddu m.a. markaðsaðgengi fyrir íslenskar sjávarútvegsafurðir á evrópskan markað, milliríkjaviðskipti með landbúnaðarafurðir og skipasmíðar. Auk þess sem framlag Íslands til Uppbyggingarsjóðs EES bar á góma. Undirstrikuðu ráðherrarnir vinsamleg samskipti þjóðanna og þakkaði Radman Íslandi fyrir að hafa fyrst ríkja viðurkennt sjálfstæði Króatíu 19. desember 1991.

Áhrif COVID-19 á öryggi í Norður-Evrópu

Á fjarfundi varnamálaráðherra Norðurhópsins í dag var rætt um áhrif COVID-19 faraldursins á öryggi og varnir í Norður-Evrópu. Norðurhópurinn er óformlegur samráðsvettvangur varnarmálaráðuneyta tólf ríkja. Auk Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna eiga Bretland, Holland, Pólland og Þýskaland aðild að hópnum. Ráðherrarnir ræddu m.a. hvernig gengið hefur að aðlagast nýjum veruleika og mikilvægi þess að læra af reynslunni til þess að tryggja virkar varnir á óvissutímum. Upplýsingaóreiða sem ríkt hefur í kjölfar COVID-19 var einnig rædd og mikilvægi þess að ríkin bregðist við henni á markvissan hátt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira