Hoppa yfir valmynd
20.05.2020 11:01 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mótvægisráðstafanir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru kynntar í ríkisstjórn

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í ríkisstjórn í gær umfang mótvægisráðstafana stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Á síðustu vikum hafa forsendur almennt breyst í þá veru að áhrif faraldursins verði djúpstæðari og langvinnari en áður var gert ráð fyrir og að sama skapi hafa afkomuhorfur versnað.

Fram til þessa hafa stjórnvöld sett fram mótvægisaðgerðir í fjórum áföngum á um sjö vikna tímabili frá miðjum mars til loka apríl. Fyrsti áfanginn fólst í lagasetningu þann 13. mars sl. með gjalddagafrestunum á staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds. Nýjustu ráðstafanirnar voru kynntar í lok apríl, en þær fela í sér framlengingu hlutastarfaleiðar, greiðslu hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti og greiðsluskjól fyrir fyrirtæki og voru frumvörp þess efnis lögð fram á Alþingi í lok síðustu viku.

Umfang ráðstafana á afkomu ríkissjóðs

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að áhrif ráðstafananna á sjóðstreymi ríkissjóðs á yfirstandandi ári nemi ríflega 200 ma.kr. eða sem svarar til um 7% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Samanlagt nemur áætlað umfang ráðstafana í útgjöldum ríkissjóðs á yfirstandandi ári ríflega 100 ma.kr. Þar vega þyngst greiðslur hlutaatvinnuleysisbóta og fyrirhugaðar greiðslur á hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti en áætlað umfang þessara aðgerða nemur ríflega 60 ma.kr.

Meginhluti tekjuráðstafananna kemur fram í frestun skattheimtu fram í janúar á næsta ári en áætluð áhrif þeirra á sjóðstreymi ríkissjóðs eru um 95 ma.kr. á yfirstandandi ári.

Í framangreindum fjárhæðum hefur ekki verið tekið tillit til hugsanlegs kostnaðar sem kann að falla á ríkissjóð vegna veitingar ríkisábyrgða á viðbótarlán og stuðningslán til fyrirtækja. Áætlað umfang ábyrgðanna nemur allt að 90 ma.kr. eða hátt í 4% af VLF en óvissa ríkir um hversu mikill kostnaðurinn verður í raun og veru og hvenær hann fellur til. Miðað við helmingsafskriftir gæti umfangið numið um 45 ma.kr.

Áhrif faraldursins meiri á fjárhag ríkissjóðs en sveitarfélaga

Ljóst má vera að áhrif faraldursins verða mun meiri á fjárhag ríkissjóðs en sveitarfélaganna þar sem ríkið mun bera hitann og þungann af mótvægisaðgerðum, hvort sem er í gegnum sjálfvirka sveiflujafnara ríkisfjármálanna eða sérstakar ráðstafanir. Framangreindar efnahagsaðgerðir vegna COVID-19 sem ríkissjóður fjármagnar með það að markmiði að styðja heimili og fyrirtæki hafa í för með sér beinan eða óbeinan ávinning fyrir samfélagið í heild og fjárhag sveitarfélaga. Sterkari staða heimila og fyrirtækja leiðir til þess að helstu tekjustofnar sveitarfélaga eins og útsvar og fasteignaskattar, auk lögbundinna framlaga ríkisins í Jöfnunarsjóð, halda sér betur en ella og skattskil verða betri. Auk þess mun óbeinna áhrifa einnig gæta á útgjaldahlið og í skattastyrkjum sveitarfélaga, svo sem í minni þörf fyrir fjárhagsaðstoð og afslætti af þjónustugjöldum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira