Hoppa yfir valmynd
26.05.2020 15:46 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þriðja fjáraukalagafrumvarpið lagt fram

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að leggja fram þriðja fjáraukalagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra á þessu ári, til að bregðast við aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19. Frumvarpið nú er það umfangsmesta hingað til en samtals er lögð til 65 ma.kr. aukning á fjárheimildum. Það samsvarar 6,3% aukningu frá áður samþykktum fjárheimildum í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árið 2020. Samanlagt nemur hækkun fjárheimilda í áður samþykktum fjáraukalögum fyrir árið 2020, auk þeirra tillagna sem lagðar eru til nú, 103,3 ma.kr. Það samsvarar 10,3% hækkun frá fjárlögum ársins 2020 sem samþykkt voru í nóvember 2019.

Í frumvarpinu er kveðið á um auknar fjárheimildir vegna vinnumarkaðsaðgerða sem þegar hefur verið hrint í framkvæmt – hlutastarfaleiðarinnar, launa á uppsagnarfresti og launa í sóttkví. Til viðbótar er lögð til hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og lögð til breyting á heimildarákvæði.

Yfirlit tillagna ásamt áður samþykktum fjárheimildum í fjárlögum og fyrri fjáraukalögum ársins 2020 má sjá í meðfylgjandi töflu.

Rekstrargrunnur m.kr.
Heildarfjárheimild skv. fjárlögum 2020 1.004.187,6
Breytingar á fjárheimild skv. fjáraukalögum nr. 26/2020 25.576,0
Breytingar á fjárheimild skv. fjáraukalögum nr. 36/2020 12.572,0
Breytingar á útgjaldaskuldbindingum 65.170,0
- Greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli 34.000,0
- Greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnafresti ásamt umsýslukostnaði 27.050,0
- Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi 2.120,0
- Greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví 2.000,0
Heildarfjárheimild 2020  1.107.505,6

Nánar um aðgerðirnar:

  1. Hlutastarfaleiðin: 34.000 m.kr. vegna greiðslu hlutabóta á tímabilinu 15. mars til 31. ágúst. Um er að ræða rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda vegna COVID-19 faraldursins.
  2. Greiðsla hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti: 27.050 m.kr. Miðað er við að stuðningurinn nái til uppsagna sem hafa uppsagnardag frá 1. maí 2020 til og með 1. október 2020. Miðað er við að hluti fjárveitingarinnar, 50 m.kr., renni til Skattsins vegna umsýslu stofnunarinnar með úrræðinu.
  3. Auknar fjárheimildir vegna launa í sóttkví: 2.000 m.kr. Um er að ræða fjárheimildir vegna greiðslu launa til þeirra einstaklinga sem sætt hafa sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og nær greiðslutímabilið til loka september 2020. 
  4. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar á Íslandi: 2.120 m.kr. Óskað er eftir aukinni fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi til að mæta auknu umfangi endurgreiðslna. Með því skapast svigrúm til að taka inn ný verkefni og nýta möguleg tækifæri sem myndast hafa í greininni í kjölfar COVID-19 faraldursins en í ljósi góðs árangurs Íslands í baráttu við faraldurinn hefur áhugi á kvikmyndaframleiðslu á Íslandi sem tökustað aukist.
  5. Breyting á heimildarákvæði fjárlaga skv. 6. gr.: Um er að ræða skiptingu á 1.150 m.kr. heimild sem samþykkt var í öðrum fjáraukalögum ársins 2020 á milli sprotasjóðsins Kríu og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Miðað er við 650 m.kr. framlag til Kríu og 500 m.kr. framlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna veitingar sérstakra mótframlagslána til sprotafyrirtækja sem hafa orðið fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira