Hoppa yfir valmynd
27. maí 2020 Innviðaráðuneytið

Almenningssamgöngur milli byggða tryggðar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur tryggt almenningssamgöngur milli byggða með auknum fjárveitingum. Aukinn stuðningur er nauðsynlegur til að bæta rekstraraðilum almenningssamgangna upp tekjutap í kjölfar Covid-19 faraldursins. Stuðningurinn nær til þjónustu sem nýtur þegar styrkja frá ríkinu, en um er að ræða siglingar Herjólfs, flug Ernis og Norlandair og akstur almenningsvagna milli byggða. Einnig verður Isavia bætt tekjutap á innanlandsflugvöllum og ferðir Baldurs um Breiðafjörð tryggðar í sumar. 

„Það liggur fyrir að rekstrargrundvöllurinn er brostinn. Það stefndi bara í algjört óefni. Það var að mínu mati óhjákvæmilegt að bregðast við ástandinu. Það eru margir sem treysta alveg á þessa þjónustu svo eru landsmenn að leggja af stað inn í frábært ferðasumar innanlands. Þessir hlutir verða bara að vera í lagi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. „Það er afskaplega mikilvægt að viðhalda öflugum almenningssamgöngum fyrir almenning og atvinnulíf um land allt. Raunar má telja að mikilvægi þeirra aukist enn frekar í framhaldi af faraldrinum og að fleiri muni kjósa að nýta sér þjónustu almenningsvagna, ferja og flug á ferðum sínum.“ 

Covid-19 faraldurinn hefur þegar haft víðtæk áhrif á rekstur almenningssamgangna síðustu mánuði og áhrifanna mun gæta áfram í sumar með fækkun erlendra ferðamanna sem hafa staðið undir umtalsverðum tekjum yfir sumarmánuðina. Gripið hefur verið til aðhaldsgerða þar sem hægt er og þjónustustig aðlagað að nýjum aðstæðum. Tekjutapið vegur þó svo þungt að rekstrargrundvöllur er brostinn ef ekki væri fyrir frekari stuðning ríkisins. 

Vagnar, flug og ferjur

Vegagerðin ber ábyrgð á þjónustusamningum um almenningssamgöngur á landi og þar hafa tekjur dregist mikið saman mikið og mest í apríl. Búist er við talsvert minni tekjum í sumar vegna fækkunar ferðamanna um landið. Samhliða stuðningi verður þjónustustig metið og leitað leiða til að draga úr kostnaði í samráði við einstaka rekstraraðila.

Flugfélagið Ernir flýgur á Bíldudal, Gjögur og Höfn á grundvelli þjónustusamnings við Vegagerðina. Til að bregðast við fækkun farþega hefur ferðum einnig verið fækkað á áfangastaðina. Sama gildir um flug Norlandair sem flýgur til Þórshafnar, Vopnafjarðar og Grímseyjar á grundvelli þjónustusamnings við Vegagerðina. Þar hefur einnig verið gripið til hagræðingaraðgerða með því að fækka ferðum á einstaka áfangastaði.

Siglingar Herjólfs til Vestmannaeyja og Baldurs um Breiðafjörð verða styrkt sérstaklega í sumar vegna fækkunar ferðamanna í kjölfar faraldursins. Rekstur Herjólfs hefur verið þungur í faraldrinum og tíðni ferða verður löguð að eftirspurn í sumar. Ferjan Baldur siglir milli Brjánslækjar og Stykkishólms og þjónar Flatey í Breiðafirði. Ferjan hefur einnig fengið stærra hlutverk í flutningum milli byggða vegna minni strandsiglinga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum