Hoppa yfir valmynd
08.06.2020 14:14 Utanríkisráðuneytið

Covid-19 og fríverslunarviðræður í brennidepli á ráðherrafundi EFTA

Ráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi milliríkjaviðskipta sem byggjast á gagnsæi og skýrum leikreglum.  - mynd

Áhrif Covid-19 heimsfaraldursins og staða fríverslunarviðræðna voru helstu umræðuefnin á óformlegum fjarfundi ráðherra Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) í dag. Samtarf EFTA-ríkjanna, samskiptin við Evrópusambandið og önnur ríki og horfur í alþjóðaviðskiptum voru einnig til umfjöllunar.

Ráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi milliríkjaviðskipta sem byggjast á gagnsæi og skýrum leikreglum. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir mikilvægt að koma hjólum efnahagslífsins í gang með ábyrgum hætti.

„Í COVID- faraldrinum höfum við reynt að halda fríverslunarviðræðum gangandi eins og mögulegt er með fjarfundum og það hefur gengið vel. Við erum öll sammála um að halda áfram þessari vinnu og auka hana enn frekar þegar aðstæður leyfa. Fríverslunarnet Íslendinga fer ört stækkandi en fríverslunarnet EFTA nær nú til 40 ríkja og landsvæða utan ESB,“ segir Guðlaugur Þór.

Ísland hefur fullgilt fríverslunarsamning við Indónesíu en samningurinn hefur ekki tekið gildi þar sem Indónesía hefur ekki fullgilt hann. Nú er unnið að því að leggja lokahönd á fríverslunarsamning við Mercosur-ríkin Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Viðræður standa yfir um gerð fríverslunarsamninga við Indland, Malasíu og Víetnam. 

Formlegur ráðherrafundur EFTA-ríkjanna, Íslands, Sviss, Liechtenstein og Noregs, verður haldinn 26.-27. október í Genf. Þá gefst tækifæri til að fagna farsælu samstarfi EFTA-ríkjanna undanfarin sextíu ár, og fimmtíu ára aðild Íslands að samtökunum.

Eftir fund ráðherranna áttu þeir fund með þingmanna- og ráðgjafarnefndum EFTA, þar sem samskiptin við Evrópusambandið, Bretland og önnur ríki voru til umræðu. Mikill samhugur var um að mikilvægi samvinnu á þessum krefjandi tímum.

Auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sóttu fundinn Guy Parmelin, efnahagsráðherra Sviss, Katrin Eggenberger, utanríkisráðherra Liechtentstein og Lucie Katrine Sunde-Eidem, vararáðherra í viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Noregs.
Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira