Hoppa yfir valmynd
11. júní 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

3800 nemendur þegar skráðir í sumarnám háskólanna

Íslenskir háskólar bjóða upp á fjölbreytt sumarnám í sumar og fer skráning í námið afar vel af stað. Rúmlega 3800 nemendur hafa skráð sig í sumarnám hjá háskólunum sjö og búast má við að þeim fjölgi þar sem enn er opið fyrir umsóknir. Sumarnám er einnig í boði í mörgum framhaldsskólanna.

Á háskólastigi eru yfir 200 námsleiðir á öllum fagsviðum í boði. Flest námskeiðanna eru einingabær eða nýtast til frekara náms. Þær námsleiðir henta meðal annars nemendum sem ljúka námi úr framhaldsskóla og vilja sækja undirbúningsnám fyrir háskólanám, öðrum framtíðar háskólanemum, núverandi háskólanemum, sem og einstaklingum sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang.

„Þetta eru gleðifréttir! Markmið stjórnvalda er að efla menntun og virkni í samfélaginu og aðgerðir í þá veru vegna COVID-19 skila góðum árangri. 800 milljónum kr. er varið til að fjölga námskostum í framhalds- og háskólum og framboðið er virkilega spennandi. Ég tel að snör viðbrögð Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi einnig hjálpað en lágmarksframvindukrafan fyrir sumarnámið er einungis ein eining,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Lengd sumarnámskeiðanna er frá einni og upp í 10 vikur og er bæði stað- og fjarnám í boði og skráningagjöldum haldið í lágmarki.

Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur brugðist við áhrifum COVID-19 með margvíslegum aðgerðum til hagsbóta fyrir námsmenn, m.a. með því að rýmka reglur um mat á undanþágum og lengja umsóknafresti. Umsóknafrestur vegna lána fyrir sumarnámi er til 15. júlí nk.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira