Hoppa yfir valmynd
23. júlí 2020 Félagsmálaráðuneytið

Styrkja félagasamtök sem styðja við viðkvæma hópa og kortleggja fyrirkomulag matarúthlutana

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur úthlutað samtals 25 milljónum króna í styrki sem ætlaðir eru félagasamtökum sem styðja við viðkvæma hópa í samfélaginu, til dæmis með matarúthlutunum og ráðgjöf, og finna fyrir aukinni eftirspurn í kjölfar Covid-19 faraldursins. Alls munu níu félagasamtök fá 2,7 milljóna króna styrk hvert til þess að geta stutt enn betur við sína skjólstæðinga á yfirstandandi ári en styrkirnir eru liður í aðgerðapakka stjórnvalda til þess að bregðast við afleiðingum faraldursins og er beint sérstaklega að þeim heimilum sem glíma við sára fátækt.

Þá hefur félagsmálaráðuneytið farið þess á leit við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að framkvæma rannsókn um fyrirkomulag matarúthlutana og ráðgjafar þar sem meðal annars verður kortlagt, í samvinnu við félagsþjónustu, hjálparsamtök og aðra fagaðila, hvaða hópar eru að sækja þjónustu á borð við matarúthlutanir og ráðgjöf, og hverjir þeirra búa við sérstaklega erfiðar aðstæður. Gert er ráð fyrir að rannsóknin verði framkvæmd með haustinu.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Áhrifin af Covid-19 faraldrinum eru margskonar og ein birtingarmyndin er aukin fátækt og erfiðleikar hjá sumum viðkvæmustu hópum samfélagsins. Það er því viðbúið að ásókn í þjónustu félagasamtaka sem styðja við þessa hópa aukist og þess vegna er mikilvægt að styrkja það öfluga og mikilvæga starf sem þar er unnið. Þá er ekki síður mikilvægt að  framkvæma rannsókn sem gefur  skýra mynd af stöðunni í dag með það að markmiði að og bæta stuðning og þjónustu við þá sem þurfa mest á henni að halda.“

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira