Hoppa yfir valmynd
12.08.2020 17:12 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Nándarregla í skólastarfi: Minnst eins metra fjarlægð milli fullorðinna

Nemendum og starfsfólki í framhalds- og háskólum ber að tryggja a.m.k. eins metra bil sín í milli í skólastarfi í stað tveggja metra reglunnar sem almennt er í gildi í samfélaginu, samkvæmt breytingum á sóttvarnarreglum sem kynntar voru í dag. Hið sama á við um fullorðna í starfi leik- og grunnskóla, þ.e. kennara og annað starfsfólk sem þurfa að halda minnst metra fjarlægð sín í milli í skólastarfi. Engin fjarlægðarmörk eru í gildi fyrir nemendur á leik- og grunnskólaaldri. Sjá nánar í frétt heilbrigðisráðuneytis.

„Þetta er fagnaðarefni fyrir okkur og skólasamfélagið. Kennarar og skólastjórnendur fá aukið svigrúm til að sinna sínum verkefnum, en af samskiptum við þá mátti ráða að tveggja metra fjarlægðarmörk myndu skapa krefjandi aðstæður skólum. Kennarar og skólastjórnendur voru reiðubúnir til að takast á við þá áskorun, en það er mjög gleðilegt að sveigjanleiki hefur aukist,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Stjórnendur skóla þurfa eftir sem áður að tryggja að hámarksfjöldi fullorðinna einstaklinga í sama rými fari ekki yfir 100 auk þess sem starfsfólk og nemendur skólanna þurfa að fylgja almennum sóttvarnarreglum. Mikil áhersla er lögð á einstaklingsbundnar smitvarnir og hreinlæti. Sóttvarnarráðstafanir kalla í mörgum tilfellum á talsverða endurskipulagningu og lokun svæða, sem skólarnir útfæra miðað við aðstæður á hverjum stað.

Unnið er að uppfærðum leiðbeiningum um framkvæmd skólastarfs á öllum skólastigum í góðri samvinnu við sóttvarnaryfirvöld og framkvæmdaaðila og verður þeim miðlað á allra næstu dögum.
    
„Það er keppikefli að skólastarf á öllum stigum geti farið fram með sem hefðbundnustum hætti þrátt fyrir COVID-19 og að því vinnum við í öflugu samstarfi. Það kallar á sveigjanleika og þrautseigu af hálfu okkar allra. Skólarnir eru hjartað í okkar samfélagi, við viljum standa vörð um þeirra mikilvæga starf og þrátt fyrir að við upplifum flókna tíma nú er markmiðið einfalt – að tryggja nemendum menntun. Við eigum öll okkar hlutverki að gegna í því – unga fólkið, kennarar, foreldrar, aðstandendur og stjórnendur,“ segir ráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira