Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tölur yfir stöðu efnahagsaðgerða vegna Covid-19

Stjórnvöld hafa frá því í mars gripið til ýmissa aðgerða í því skyni að verja grunnstoðir samfélagsins vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, t.d. með hlutastarfaleið, viðbótarlánum, frestun skattgreiðslna, lokunarstyrkjum, greiðsluhléi lána, úttekt séreignarsparnaðar, styrkingu ferðaþjónustu og fleiri aðgerðum. Upplýsingar yfir stöðu aðgerðanna hafa verið settar upp með myndrænum hætti og verða uppfærðar vikulega á vef Stjórnarráðsins héðan í frá eftir því sem breytingar verða á þeim. Yfirlit yfir úrræðin sýnir að þau hafa sannað gildi sitt og  verið nýtt af fjölda einstaklinga og fyrirtækja.

Þannig sýna tölurnar að hátt í 4.000 einstaklingar fengu greiddar hlutabætur í júlí en þeim hefur fækkað hratt á milli mánaða. Þann 13. ágúst sl. höfðu alls verið greiddir út rúmir 18 ma.kr. vegna hlutabótaleiðarinnar. Þá hefur atvinnuleysi aukist lítillega milli júní og júlí.

Umsóknum frá einstaklingum um endurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis hefur fjölgað mikið frá fyrra ári en endurgreiðsluhlutfall VSK af vinnu vegna nýbyggingar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði var hækkað úr 60% í 100% og endurgreiðsluheimildir voru jafnframt víkkaðar út.  Vegna heimilisaðstoðar og reglulegrar umhirðu húsnæðis hafa Skattinum nú borist rúmlega eitt þúsund umsóknir. Vegna bílaviðgerða hafa borist um 4.900 endurgreiðsluumsóknir. Alls nema endurgreiðslur til þessa ríflega 12 ma.kr.

Borist hafa um um 170 umsóknir um lokunarstyrk með reiknuðum styrk upp á 196,5 m.kr. Upphaflega var gert ráð fyrir að um 2.000 fyrirtæki gætu fallið undir úrræðið. Samþykktar hafa verið 125 umsóknir (75%) og útgreiðslur nema alls 137 m.kr. Þann 10. ágúst höfðu 14,5 ma.kr verið greiddir út í séreignarsparnaðarleiðinni vegna COVID-19 til tæplega 7 þúsund einstaklinga.

Alls hafa 136.555 einstaklingar sótt ferðagjafir og 948 fyrirtæki skráð sig til þátttöku. Um 76 þúsund einstaklingar hafa nýtt gjafir sínar hjá 759 fyrirtækjum. Að meðaltali hafa um 2.000 gjafir verið nýttar daglega.

Þann 5. ágúst voru 3.140 einstaklingar í greiðsluhléi og námu skuldir þeirra liðlega 84 mö.kr. Þá voru 1.763 fyrirtæki í greiðsluhléi og námu skuldir þeirra um 275 mö.kr.

Þá höfðu þann 10. ágúst  567 umsóknir borist um lánaúrræði til fyrirtækja (stuðnings- og viðbótarlán) að fjárhæð 5,1 ma.kr. og 237 lán verið afgreidd hjá bönkunum að fjárhæð 1,9 ma.kr.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum