Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurskoðuð fjármálastefna: ríkissjóði beitt til að auka viðnámsþrótt heimila og fyrirtækja

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytingu á gildandi fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022. Tilgangur breytinganna er að styðja við stefnu ríkisstjórnarinnar um að bregðast við efnahagskreppu og koma í veg fyrir þrálátt atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru með því að  leggja áherslu á að verja og skapa verðmæt störf um allt land á næstu misserum. Markmiðið er samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi.

  • Sett eru markmið um að halli á heildarjöfnuði A-hluta hins opinbera verði að hámarki 14,5% af VLF árið 2020, 13% af VLF árið 2021 og 10,5% af VLF árið 2022 að meðtöldu óvissusvigrúmi.
  • Í markmiðum stefnunnar er sett fram óvissusvigrúm í varfærnisskyni ef efnahagsforsendur verða markvert frábrugðnar núverandi þjóðhagsspá. Umfang svigrúmsins getur numið allt að 2% af VLF árið 2020 og 3% af VLF árin 2021 og 2022.
  • Útlit er fyrir mesta skell í afkomu- og skuldaþróun hins opinbera frá stofnun lýðveldisins ef frá eru taldar afleiðingar bankahrunsins 2008.
  • Sterk fjárhagsstaða hins opinbera sem stjórnvöld hafa byggt upp á undanförnum árum veitir svigrúm til þess að bregðast við áfallinu af miklum þunga.
  • Skuldaaukning ríkissjóðs miðar að því að létta byrðar heimila og fyrirtækja. Sérstakar aðhaldsráðstafanir verða látnar bíða.
  • Afkomu- og skuldamarkmiðum breytt til að endurspegla breyttar horfur í efnahagsmálum og nauðsynlegar aðgerðir.
  • Skilyrði sköpuð fyrir nýju vaxtar- og framfaraskeiði í verðmætasköpun efnahagslífsins með umfangsmiklu framkvæmdaátaki og arðbærum fjárfestingum í menntun, rannsóknum, nýsköpun, grænum lausnum og stafrænni opinberri þjónustu.
  • Áhersla lögð á efnahagslegan stöðugleika og að sjálfbærni opinberra fjármála verði tryggð þegar efnahagsbati hefur átt sér stað til að efla viðnámsþrótt gagnvart ófyrirséðum áföllum framtíðarinnar.

 

Spyrnt á móti niðursveiflu

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld sýnt þá fyrirhyggju að styrkja fjárhag hins opinbera með ábyrgri fjármálastefnu. Traust fjárhagsstaða hins opinbera skapaði svigrúm til að bregðast af krafti við núverandi efnahagssamdrætti en aldrei áður í hagsögu Íslands hefur opinberum fjármálum verið beitt af jafn miklum krafti til þess að vega á móti hagsveiflunni. Ekki hefur verið dregið úr umfangi opinberrar þjónustu, framkvæmdum og tilfærslukerfum þrátt fyrir mikla tekjurýrnun ríkis og sveitarfélaga. Þannig verður samdráttur í hagkerfinu minni en ella.

Skuldaaukning ríkissjóðs miðar að því að létta byrðar heimila og fyrirtækja vegna áfalls af völdum heimsfaraldurs. Þessi beiting ríkisfjármálastefnunnar er í samræmi við áherslur flestra annarra ríkja og ráðleggingar alþjóðastofnana. Við núverandi aðstæður í þjóðarbúskapnum er ekki gert ráð fyrir skörpu gengisfalli eða verðbólgu, öfugt við það sem gerðist í kjölfar falls bankanna. Veiking gengis krónunnar er að þessu sinni mun hóflegri og væntingar heimila, fyrirtækja og markaðsaðila eru nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans til næstu ára líkt og vænta má vegna mikils framleiðsluslaka. Ekki er því útlit fyrir að hallarekstur ríkissjóðs við núverandi aðstæður leiði til aukinnar verðbólgu.

Markmiðin sem boðuð eru með breyttri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar eru skýr: Að fara þá leið að aðstoða heimili og fyrirtæki á meðan þau eru í vanda stödd af völdum veirufaraldursins og að gera þeim síðan kleift að vinna sig út úr vandanum með því að skapa skilyrði fyrir nýtt vaxtar- og framfaraskeið.

Markmið um afkomu hins opinbera

Í endurskoðaðri stefnu nú eru lagðar til breytingar á afkomumarkmiðum fyrir árin 2020–2022. Þannig er gert ráð fyrir að halli á afkomu ríkissjóðs verði ekki meiri en 11% af VLF árið 2020. Eftir það er gert ráð fyrir að afkoman fari batnandi og að hallinn verði ekki meiri en 9% af VLF árið 2021 og 7% af VLF árið 2022. Þá eru sett markmið um að halli A-hluta sveitarfélaga verði ekki meiri en 1,5% af VLF árið 2020, 1% af VLF árið 2021 og 0,5% af VLF árið 2022. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú er uppi um efnahagsframvindu er gert ráð fyrir í varfærnisskyni óvissusvigrúmi á tímabilinu sem nemur 2% af VLF árið 2020 og 3% af VLF árin 2021–2022. Umfang óvissusvigrúmsins er byggt á niðurstöðu dekkri sviðsmyndar fjármála- og efnahagsráðuneytisins um afkomuþróun hins opinbera að því er fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Markmið um skuldaþróun hins opinbera

Í endurskoðaðri stefnu nú eru lagðar til breytingar á skuldamarkmiðum fyrir árin 2020–2022. Þannig er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði ekki hærri en 38% af VLF árið 2020. Eftir það er gert ráð fyrir að hægi á skuldaaukningunni og að skuldir verði ekki hærri en 47% af VLF árið 2021 og 56% af VLF árið 2022. Þá eru sett markmið um að skuldir A-hluta sveitarfélaga verði ekki meiri en 7% af VLF árið 2020 og 8% af VLF árin 2021–2022.

Aðlögun fjármálastefnu í ljósi fjármálareglna

Breytingar í þingsályktunartillögunni á afkomu- og skuldamarkmiðum fela í sér að markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar munu ekki uppfylla töluleg skilyrði 7. gr. laga um opinber fjármál fyrir árin 2020–2022. Í því felst að halli hins opinbera verður umfram það 2,5% viðmið sem gert er ráð fyrir í lögunum, heildarjöfnuður verður ekki á gildistíma stefnunnar og skuldir hins opinbera fara talsvert yfir 30% viðmið laganna á árunum 2020–2022 og útlit fyrir að skuldahlutfallið fari hækkandi að sinni.  Í greinargerð með tillögunni kemur fram að óráðlegt sé við núverandi aðstæður að hið opinbera magni upp óumflýjanleg samdráttaráhrif sem hlytust af því uppfylla markmið um afkomu og skuldastöðu í gildandi fjármálastefnu. Slíkar ráðstafanir væru óskynsamlegar og gengju gegn grunngildum laga um opinber fjármál um stöðugleika og sjálfbærni. Því er í þingsályktunartillögunni lagt til að þessum skilyrðum verði vikið tímabundið til hliðar fyrir árin 2020–2022.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira