Hoppa yfir valmynd
17. september 2020 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Forsætisráðherra, kvenleiðtogar og aðgerðasinnar ræða hlut kvenna í forystu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tekur þátt í fjarfundi kvenleiðtoga, aðgerðasinna og fulltrúa ungmennasamtaka um mikilvægi fjölbreyttrar forystu í stjórnmálum og atvinnulífi í dag.

Fundurinn er á vegum framkvæmdastjórnar átaks UN Women Kynslóð jafnréttis og Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders).  Þátttakendur, auk forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður Heimsráðs kvenleiðtoga, eru m.a.  Phumzile Mlambo-Nqucka, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og aðalframkvæmdastjóri UN Women, Olga Sanchez Cordero innanríkisráðherra Mexíkó og Tarana Burke upphafskona #MeToo hreyfingarinnar.

Fjallað verður um mikilvægi fjölbreyttrar forystu og þátttöku kvenna í stjórnmálum og í stjórn atvinnulífsins. Þá verður farið yfir áhrif valdajafnvægis kynjanna á aðgerðir sem miða að auknu jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Við sjáum því miður bakslag í jafnréttismálum víða um heim vegna áhrifa COVID-19. Til að sporna við enn frekari afturför verða þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í til að eiga við áhrif faraldursins að taka mið af jafnrétti kynjanna. Samtöl á milli þjóða, þjóðarleiðtoga, alþjóðastofnana og -samtaka eru mikilvæg nú sem aldrei fyrr. Það skiptir sköpum að vinna saman og læra af reynslu annarra nú þegar stöndum í því stóra verkefni að byggja upp að nýju.“

Fundurinn er liður í átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis sem ýtt var úr vör í tilefni 25 ára afmælis fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Peking og samþykktar framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál (Pekingáætlunin). Ísland er meðal forysturíkja átaksins og situr í stjórn bandalags um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi. Verkefnið er stærsta verkefni UN Women hingað til og meðal helstu áherslumála aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres.

Yfirskrift átaksins Kynslóð jafnréttis vísar til að stefnt er að samtali milli kynslóða um kynjafnrétti. Markmiðið er að vinna að úrbótum á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur en fimm árum eftir að ríki heims komu sér saman um heimsmarkmiðin sautján hefur komið í ljós að markmiðið um kynjajafnrétti er það markmið sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga lengst í land með. Hætta er á að heimsfaraldur COVID-19 geti orðið til þess að hægja enn frekar á vinnu aðildaríkja í þágu Heimsmarkmiðanna en nú þegar má merkja bakslag í jafnréttismálum þar sem tilkynningum um kynbundið ofbeldi gegn konum hefur fjölgað mikið á þessu ári.

Fundinum er streymt beint á vef Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira