Hoppa yfir valmynd
17. september 2020 Félagsmálaráðuneytið

Reglugerðarbreyting auðveldar atvinnurekendum að ráða til sín starfsfólk

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifar undir reglugerðarbreytinguna. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað breytingar á reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Er um að ræða aðgerð sem er hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19, sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á atvinnumöguleika fólks.

Samkvæmt reglugerðinni verður heimilt að ráða atvinnuleitendur með styrk frá Vinnumálastofnun sem nemur 100% grunnatvinnuleysisbótum þegar atvinnuleitandi hefur verið á atvinnuleysisskrá í að minnsta kosti sex mánuði. Áður var það tímabil 12 mánuðir. Vinnuveitandi greiðir síðan mismun á launum og atvinnuleysisbótum úr eigin vasa. Önnur breyting snýr að því að heimilt verður að ráða atvinnuleitendur sem hafa verið skemur en 6 mánuði á atvinnuleysisskrá og  Vinnumálastofnun greiðir þá 50% af grunnatvinnuleysisbótum til vinnuveitenda, sem aftur greiðir mismun á launum og atvinnuleysisbótum úr eigin vasa. Áfram er skilyrði um þriggja mánaða skráningu án atvinnu hjá Vinnumálastofnun og er stofnuninni heimilt að greiða styrk með hverjum einstakling í sex mánuði.

Þá eru ákvæði í reglugerðinni um sérstök átaksverkefni sem eiga við þegar atvinnuleysi á landsvísu eða á einstaka svæðum er hærra en 6%. Þegar slíkar aðstæður eru uppi er heimilt að ráða atvinnuleitendur sem hafa verið skráðir án atvinnu í einn mánuð hjá Vinnumálastofnun og greiðir stofnunin þá fullar grunnatvinnuleysisbætur til vinnuveitenda, sem aftur greiðir mismun á launum og atvinnuleysisbótum úr eigin vasa.

Fyrirtæki eða stofnanir sem nýta sér styrki frá Vinnumálastofnun skulu einnig tilnefna sérstakan tengilið samkvæmt reglugerðinni sem skal vera leiðbeinandi viðkomandi atvinnuleitanda á vinnustaðnum auk þess sem tengiliðurinn skal vera í samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar, sem verður heimilt að greiða hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun allt að 15.000 kr. á viku til að umbuna viðkomandi tengilið fyrir störf sín.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Frá upphafi Covid-19 faraldursins hef ég sem vinnumálaráðherra lagt höfuðáherslu á að bregðast hratt við þeirri stöðu sem upp hefur komið á vinnumarkaði og að þær aðgerðir sem við ráðumst í verji störf og framfærslu fólks. Með þessari reglugerðarbreytingu erum við að fjölga tækifærum á vinnumarkaði fyrir atvinnuleitendur og auðvelda atvinnurekendum að ráða til sín starfsfólk, og um leið undirbúa kröftuga viðspyrnu þegar faraldrinum lýkur.“

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira