Hoppa yfir valmynd
23. september 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Vestnorrænt samstarf aldrei mikilvægara

Þátttakendur í pallborðsumræðum um vestnorrænt samstarf. Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, Guðjón S. Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Bogi Ágústsson, fréttamaður, sem stýrði umræðum. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti ávarp á hádegisfundi um mikilvægi vestnorrænnar samvinnu í Norræna húsinu sem haldinn var í dag í tilefni af vestnorræna deginum. Ráðherra tók sömuleiðis þátt í pallborðsumræðum ásamt Silju Dögg Gunnarsdóttur, forseta Norðurlandaráðs, og Guðjóni S. Brjánssyni, formanni Vestnorræna ráðsins. 

Í ávarpi sínu sagði Sigurður Ingi vestnorrænt samstarf aldrei verið mikilvægara en nú á tímum Covid-19. „Þegar að því kemur að við náum yfirhöndinni í baráttunni við þennan vágest er það ákjósanlegt og borðleggjandi fyrir löndin þrjú að vinna saman í að efla ferðamennsku. Það hefur sýnt sig að svæðið hér í vestnorðri hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði mikilvægt að vinna að samstarfi á sviði heilbrigðismála, samgangna og flutninga milli landanna og að hagsmunum ungs fólks á svæðinu. Standa þurfi vörð um tungumálin þrjú sem væru hornsteinar samfélaganna. Loks væru það ekki síst umhverfis- og auðlindamál sem væru mikilvæg fyrir velferð þessa svæðis til framtíðar.

„Þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir í framtíðinni til að efla og auka samskipti landanna til hagsældar fyrir samfélög okkar ráðast ekki hvað síst af því hvernig okkur tekst að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga á Norðurslóðum. Hvaða þýðingu hafa hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir vestnorrænu ríkin, svo sem að jöklar bráðni, nýjar siglingaleiðir opnist og fiskistofnar flytji sig um set? Í þessum efnum eigum við mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta,“ sagði Sigurður Ingi.

Ráðherra sagði að löndin þrjú ættu gott samstarf á mörgum sviðum sem þurfi að þróa áfram og efla. „Við Íslendingar munum áfram leggja áherslu á að vera leiðandi í samstarfi vestnorrænu þjóðanna, og sem fyrr ávallt með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra.

Vestnorræni dagurinn er haldinn hátíðlegur 23. september ár. Vestnorræna ráðið fagnar því sömuleiðis að 35 ár eru liðin síðan lögþing Færeyja, landsþing Grænlands og Alþingi stofnuðu samstarfsráð þinga og ríkisstjórna landanna þriggja á fundi í Nuuk á Grænlandi, sem gekk undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu síðan breytt í Vestnorræna ráðið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira