Hoppa yfir valmynd
2. október 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Að lifa með veirunni: umsagnarfrestur framlengdur til 7. október

Orðaský frá samráðsfundinum: Að lifa með veirunni - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Frestur til að skila umsögnum um efni frá samráðsfundinum „Að lifa með veirunni“ sem haldinn var 20. ágúst síðastliðinn hefur verið framlengdur til 7. október. Á fundinum var m.a. fjallað um tilteknar spurningar sem snúa að áhrifum sóttvarnaaðgerða á daglegt líf og helstu áskoranir sem þeim tengjast. Markmiðið með samráðsfundinum og því efni sem tekið var saman á fundinum og birt til umsagnar, er að stilla saman strengi og móta áherslur og leiðarljós sem geti nýst í áframhaldandi vinnu við mótun aðgerða vegna COVID-19 á næstu misserum.

Fólk er hvatt til að koma á framfæri umsögn eða ábendingum sínum á framfæri á samráðsgátt stjórnvalda áður en umsagnarfrestur rennur út. Hér að neðan eru birtar þær spurningar sem fjallað var um á samráðsfundinum sem gott er að fólk hafi til hliðsjónar eða gangi út frá í umsögnum sínum.

Samantekt frá samráðsfundinum og ábendingar og athugasemdir sem berast í gegnum samráðsgáttina verða sendar verkefnahópi sóttvarnarlæknis. Sá hópur mun skoða á hvaða hátt sóttvarnaaðgerðir séu líklegar til að snerta ólíka hópa samfélagsins til lengri tíma, greina hverjir muni helst finna fyrir þeim og þá hvort og hvernig sé hægt að taka tillit til þess svo áhrif sóttvarnaaðgerða verði ekki meira íþyngjandi en nauðsyn krefur.

Nánar um samráðsfundinn 20. ágúst

Til samráðsfundarins 20. ágúst mættu um 50 manns frá stofnunum, félagasamtökum, fyrirtækjum og hagsmunasamtökum á ólíkum sviðum samfélagsins en vegna samkomutakmarkana var óhjákvæmilegt að stilla fjölda fundarmanna í hóf. Fundurinn var sendur út í beinu streymi og gátu þeir sem fylgdust með komið ábendingum á framfæri. Um 250 manns nýttu sér þann möguleika en rúmlega 10.000 manns fylgdust með beinu streymi, auk þess sem fundinum var einnig sjónvarpað í beinni útsendingu á RÚV-2.

Fundarmenn unnu saman í sex vinnuhópum sem hver og einn tók fyrir tiltekin málefnasvið, sem voru; 1. Heilsa og heilbrigðisþjónusta, 2. Menning, íþróttir og dægradvöl, 3. Menntun, 4. Atvinnulíf, 5. Almannaöryggi og 6. Velferð.

Unnið var með eftirtaldar spurningar í hverjum hópi:

Hverjar eru helstu áskoranir á viðkomandi sviði til að halda úti starfsemi miðað við þær sóttvarnareglur sem nú gilda?

  1. Ef hægt væri að slaka eitthvað á gildandi sóttvarnareglum, hvaða tilslakanir myndu koma að sem mestu gagni?
  2. Hvaða áhrif telurðu líklegt að óbreyttar sóttvarnareglur muni hafa á viðkomandi sviði til lengri tíma litið?
  3. Hvaða mótvægisaðgerðir gætu komið að sem mestu gagni til að draga úr áhrifum sóttvarnaaðgerða á viðkomandi sviði?
  4. Hvaða hópar líða mest fyrir skerta starfsemi á viðkomandi sviði?
  5. Geturðu nefnt eitthvert eitt atriði sem þú telur skipta mestu máli fyrir samfélagið á tímum kórónaveirunnar?
  6. Annað sem þú vilt taka fram?

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum