Hoppa yfir valmynd
5. október 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Könnun á starfsaðstæðum og áhrifum COVID-19 á skólastarf

„Mikilvægi menntakerfisins sýnir sig enn á ný. Kennarar og heilbrigðisstarfsfólk þessa lands hafa unnið þrekvirki og áfram reiðum við okkur á þeirra störf. Hertar sóttvarnaraðgerðir ber nú upp á alþjóðlegum degi kennara í dag, en yfirskrift dagsins í ár vísar til þess hvernig kennarar sem leiðtogar í sínu samfélagi endurskapa framtíðina. Það er bæði spennandi og krefjandi hlutverk, ekki síst nú við núverandi aðstæður,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Velferð og öryggi í öndvegi

Ráðherra fundaði með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og forystufólki innan Kennarasambands Íslands í gær og fór yfir stöðuna. Meðal þess sem þar var rætt var hvernig betur væri hægt að tryggja öryggi og velferð kennara og nemenda á þessu flóknu tímum.

Ráðuneytið mun í samstarfi við Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga gera könnun meðal skólafólks um viðbrögð við COVID-19 faraldrinum og áhrifum hans á skólastarf nú um stundir s.s. starfsaðstæður og öryggi starfsfólks og nemenda í skólum. Á grundvelli könnunarinnar verður síðan skerpt á umgjörð skólastarfs sem og fræðslu og ráðleggingum til skóla og heimila.

 

Fyrstu niðurstöður kannana sem gerðar voru um áhrif COVID-19 á skólastarf í vor sýna vísbendingar um að börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu hafi farið verr út úr samkomubanni og skertu skólastarfi. Í samræmi við viljayfirlýsingu ráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa frá í haust verður áfram unnið að því tryggja að skólastarf fari fram með eins hefðbundnum hætti og frekast er unnt.

„Öryggi og velferð innan skólasamfélagsins er samvinnuverkefni okkar allra – skólarnir eru hjarta hvers samfélags. Við verðum hvert um sig að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, sýna hvert öðru tillitssemi og virðingu. Það reynir á samstöðu okkar og sveigjanleika í aðstæðum sem þessum, þetta er sannarlega langhlaup en ég er þess fullviss að við munum komast í mark. Við eigum allt að vinna að halda áfram uppi sem þróttmestu skólastarfi,“ segir ráðherra.

Hertar sóttvarnaraðgerðir

Nýjustu breytingar á sóttvarnarráðstöfunum hafa takmörkuð áhrif á starf í leik- og grunnskólum en hámarksfjöldi fullorðinna í hverju rými er nú lækkaður úr 100 einstaklingum í 30 manns í skólum. Áréttað er að foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til, en nánari útfærsla þess er í höndum sveitastjórna og skólastjórnenda leik- og grunnskóla. Fjöldatakmarkanir og nándarregla um minnst 1 metra fjarlægð gildir ekki um börn á á leik- og grunnskólaaldri.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira